Kennslumálasjóður 2018

Hér er listi yfir þau verkefni sem fengu styrk úr Kennslumálasjóði 2018.

 

Notkun upplýsingatækni til að auka gæði fjarnáms

Umsækjandi: Eva Marín Hlynsdóttir, lektor
Deild: Stjórnmálafræðideild

Lýsing: Markmið með verkefninu er að kynna sér skipulag og utanumhald um fjarnám á BA stigi og í MPA námi við Dalhousie háskólann í Kanada. Sérstaklega er horft eftir hvernig megi stuðla að virkni og samkennd fjarnema.

Lokaskýrsla

 

Barsvar í skólastofunni: Spurningaleikur til þess að brjóta upp kennslu.

Umsækjandi: Helgi Áss Grétarsson, dósent
Meðumsækjandi: Ásta Dís Óladóttir lektor við Viðskiptafræðideild Háskóla Íslands og formaður grunnnámsnefndar
Deild: Lagadeild og Viðskiptafræðideild

Lýsing: Það skapar vissar kennslufræðilegar áskoranir þegar háskólanemar þurfa að kunna skil á mörgum flóknum hugtökum. Tilgangur verkefnisins er að þróa nýja aðferð við að brjóta upp kennslustundir í nokkrum stórum námskeiðum með því að láta nemendur taka þátt í barsvarsleik sem byggir á spurningum upp úr námsefninu. Ef vel tekst til gæti verkefnið síðar meir nýst fleiri námskeiðum við skólann.

 

Future-oriented teaching of Project Management: Connecting to world-class expertise

Umsækjandi: Inga Minelgaite, lektor
Deild: Viðskiptafræðideild

Lýsing: The purpose of the project is to reevaluate the content and teaching methods of MS Verkefnasjornun, in line with world-class expertise, focusing on future of work and particularity of project management discipline, in order to improve the quality of teaching and expertise of graduating students and meet world-class standards in Project management teaching.

Lokaskýrsla

 

Stærðfræðikennsla á fyrsta ári í Hagfræðideild

Umsækjandi: Marías Halldór Gestsson, lektor
Meðumsækjendur: Ásgeir Jónsson, dósent og deildarforseti Ragnar Árnason, prófessor
Deild: Hagfræðideild

Lýsing: Markmið verkefnisins er að stuðla að bættri kennslu og árangri nemenda í stærðfræði á fyrsta ári í Hagfræðideild. Með verkefninu verður til samræmt kennsluefni í stærðfræði á rafrænu formi fyrir nemendur auk þess sem þróaðir verða kennsluhættir sem byggja í mun meira mæli á umræðum milli kennara og nemenda en hefur verið.

 

Tvímála íðorðasafn á sviði viðskiptafræði, hagfræði og fjármála milli íslensku og frönsku

Umsækjandi: Ásdís Rósa Magnúsdóttir, prófessor
Meðumsækjandi: Rósa Elín Davíðsdóttir, ritstjóri íslensk-franskrar orðabókar (LEXÍU) ásamt Þórdísi Úlfarsdóttur.
Deild: Mála- og menningadeild

Lýsing: Markmið verkefnisins er að útbúa íðorðasafn milli íslensku og frönsku á sviði viðskiptafræði og hagfræði (um 270 orð) sem inniheldur einnig annan orðaforða tengdan fjármálum (um 400 orð). Byggt verður á orðaforða orðabókargrunns sem notaður er við gerð íslensk-franskrar veforðabókar (LEXÍU) sem er samstarfsverkefni Stofnunar Vigdísar Finnbogadóttur í erlendum tungumálum og Stofnunar Árna Magnússonar í íslenskum fræðum. Íðorðasafnið verður tilbúið í júní 2018 og verður birt á heimasíðu beggja stofnananna.

Lokaskýrsla

 

Kvikstreymi – stafræn þekkingarveita á sviði kennslu og rannsókna í kvikmyndafræði

Umsækjandi: Björn Þór Vilhjálmsson, lektor
Meðumsækjendur: Kjartan Már Ómarsson og Gunnar Tómas Kristófersson, doktorsnemar
Deild: Íslensku– og menningardeild

Lýsing: Kvikstreymi er staðsett innan stafrænna hugvísinda og burðarstólpi verkefnisins snýst um upplýsinga– og þekkingarmiðlun gagnagrunna, og hvernig megi sníða skilvirkt og notendamiðað viðmót í kringum heildstæða framsetningu á „ævisögum“ allra íslenskra kvikmynda. Samlegðaráhrif þeirra menningarskrifa sem safnað verður saman með þessum hætti eru heildræn mynd af stöðu tiltekinnar kvikmyndar í íslenskri menningarumræðu.

Lokaskýrsla

 

Starfsþróunarferð til Kína

Umsækjandi: Geir Sigurðsson, prófessor
Deild: Mála- og menningardeild

Lýsing: Starfsþróunarferð Mála- og menningardeildar í Kína sumarið 2018 er ætlað að efla samvinnu og gagnkvæman skilning deildarfélaga á öðrum námsleiðum. Í ferðinni felst annars vegar: þátttaka í málþingi á vegum Beijing Foreign Studies University um kennsluhætti tungumála og menningarmiðlunar sem og almenn kynning á starfsemi skólans; hins vegar: kynning á rekstri Konfúsíusarstofnana víða um heim í höfuðstöðvum Hanban í Beijing.

Lokaskýrsla

 

Íslenska – Já einmitt!

Umsækjandi: Gísli Hvanndal Ólafsson Verkefnastjóri og aðjúnkt II
Meðumsækjendur: Sigríður Kristinsdóttir stundakennari og Ana Stanicevic doktorsnemi og stundakennari
Deild: Íslensku- og menningardeild

Lýsing: Gerð kennsluefnis fyrir byrjendur (A1) í íslensku sem öðru máli þar sem rannsóknir í menntavísindum og annarsmálsfræðum eru til grundvallar, þá sérstaklega um mikilvægi tilfinninga í námi. Í kennslubókinni mun málfræðikennsla í íslensku sem öðru máli í fyrsta sinn taka mið af rannsókn sem var gerð fyrir viðeigandi færnistig og byggir jafnframt á sterkum fræðilegum grunni (Pienemann).

 

Þjóðsagnaarfur og menningarlæsi

Umsækjandi: Jón Karl Helgason, prófessor
Meðumsækjandi: Romina Werth, doktorsnemi við HÍ
Deild: Íslensku- ogmenningardeild

Lýsing: Sótt er um gerð kennsluefnis um íslenskan þjóðsagnaarf og þjóðfræði þar sem fléttað er saman 60 völdum íslenskum þjóðsögum og ævintýrum frá fyrri öldum og fræðilegri umfjöllun um veruleika og orðaforða íslenska sveitasamfélagsins, þróun þjóðsagna úr munnlegri geymd til bókaútgáfu og hlutverki þjóðsagna í samtímanum. Lögð verður sérstök áhersla á rannsóknir á samhenginu milli fornsagnaarfs miðalda og þjóðsagnaarfsins og kenningum um menningarlæsi.

Lokaskýrsla

 

Hádegisamráðsfundir um kennslumál á HVS (Kennsluspjall)

Umsækjandi: Ásta Bryndís Schram. Lektor/Kennsluþróunarstjóri
Svið/Deild: Heilbrigðisvísindasvið, stoðþjónusta

Lýsing: Þverfræðilegir samráðsfundir í hádegi/kennsluspjall er liður í kennsluþróun víða erlendis. Hver samvera hefur þema, kynnt af sérfræðingi, en aðalmarkmiðið er að þátttakendur deili kennslureynslu og læri þannig hver af öðrum. Sérfræðingur stýrir umræðu. Rannsóknir sýna að fundir þar sem kennarar ígrunda starf sitt og deila með öðrum auka kennsluhæfni og lausnamiðaða kennslumenningu. Kennsluspjall verður mánaðarlega og dreifist á starfsstöðvar HVS.

Lokaskýrsla

 

Nýjar aðferðir við kennslu um saumaskap í spöng eftir fæðingu

Umsækjandi: Ólöf Ásta Ólafsdóttir, dósent
Meðumsækjandi: Berglind Hálfdánsdóttir, lektor
Deild: Hjúkrunarfræðideild

Lýsing: Kennsluverkefnið er um verndun og meðferð spangar í fæðingarhjálp fyrir nemendur í ljósmóðurfræði. Sótt er um styrk til að kaupa aðgang að sérhæðu kennsluefni um þetta efni í 1 ár frá fyrirtækinu GynZone í Danmörku. Einnig til að meta notkun þess, þróun kennsluhátta og árangur, m.a. með tilliti til þess hvort æskilegt verði að endurnýja áskrift að ári og nýta hana samfellt í klínískum námskeiðum frá upphafi náms til útskriftar.

 

Inngangsnámskeið í tölfræði í edX

Umsækjandi: Sigrún Helga Lund, dósent
Meðumsækjendur: Anna Helga Jónsdóttir, Thor Aspelund
Deild: Læknadeild

Lýsing: Mikið af fjölbreyttu kennsluefni hefur verið útbúið fyrir inngangsnámskeið í tölfræði. Má þar nefna kennslubók, kennslumyndbönd, gagnvirkar fjölvalsspurningar og matskvarða fyrir hagnýt verkefni. Það efni myndar góðan grunn að opnu íslensku edX vefnámskeiði í tölfræði. Vefnámskeiðið gæti strax næsta haust komið til beinna framkvæmda í sex námskeiðum sem eru kennd á nítján námsleiðum við fjögur af fimm sviðum Háskóla Íslands.

Lokaskýrsla

 

Þróun kennsluhátta í klínísku námi og innleiðing rafræns viðmóts til námsmats.

Umsækjandi: Kristín Briem, prófessor
Deild: Læknadeild

Lýsing: Markmið verkefnisins er að færa klínískum kennurum tæki til mats á þekkingu, leikni, og hæfni nemenda tengt klínísku námi í sjúkraþjálfun. Sótt er um styrk til að hrinda af stað fyrri hluta verkefnisins, sem snýr að þýðingu matstækis og þjálfun notenda þess (klínískra kennara). Seinni hluti verkefnis, sem felst í innleiðingu rafræns kennslu-/námsviðmóts og gagnabanka, fer af stað að ári.

Lokaskýrsla

 

Kennsluhættir, námsmat og samvinnunám í starfstengdu diplómanámi fyrir nemendur með þroskahömlun

Umsækjandi: Kolbrún Þ. Pálsdóttir, dósent og námsbrautarformaður
Meðumsækjandi: Ruth Jörgensdóttir, aðjúnkt
Deild: Deild Heilsueflingar, íþrótta og tómstunda

Lýsing: Tilgangur starfstengds diplómanáms er að veita fólki með þroskahömlun möguleika til fullgildrar samfélagsþátttöku. Námið er skipulagt í samræmi við alþjóðlega mannréttindasáttmála og stefnu Háskóla Íslands. Styrkurinn verður nýttur til að þróa kennsluhætti og efla gæði náms og kennslu. Áhersla verður á eftirtalda þætti: þróun námsefnis, námsmats og samvinnunám. Þá verður efld samvinna við aðrar deildir HÍ til að auka fjölbreytileika valnámskeiða.

 

Opið netnámskeið um nýsköpunarsmiðjur (snillismiðjur, gerver, e. makerspaces)

Umsækjandi: Sólveig Jakobsdóttir, dósent
Meðumsækjendur: Gísli Þorsteinsson, Salvör Gissurardóttir, Skúlína Kjartansdóttir, Svanborg Jónsdóttir, Svava Pétursdóttir og Torfi Hjartarson
Deild: Kennaradeild

Lýsing: Verkefnið snýst um að hanna og kenna opið netnámskeið (e. mooc) um notkun og uppbyggingu á nýsköpunarsmiðjum (snillismiðjum, gerverum, e. makerspaces) í menntun og skólastarfi þar sem unnið er að sköpun og miðlun í þverfaglegum verkefnum sem tengjast ekki síst raunvísindum, tækni, verkfræði, listum og stærðfræði.

 

Torg Menntunar framhaldsskólakennara

Umsækjandi: Þuríður Jóna Jóhannsdóttir, dósent
Meðumsækjendur: Tryggvi Thayer, forstöðumaður Menntamiðju við Menntavísindasvið
Deild: Kennaradeild – sem verður Faggreinadeild við MVS

Lýsing: Menntun framhaldsskólakennara er samstarfsverkefni fræðasviða HÍ sem mennta í kennslugreinum og Menntavísindasviðs sem sér um kennslufræði í samstarfi við framhaldsskóla. Torg menntunar framhaldskólakennara verður opið vefsvæði á Menntamiðju, sem er samstarfvettvangur um þróun kennslu með tækni. Markmið verkefnisins er að efla menntun framhaldsskólakennara með samstarfi við Menntamiðju þannig að hún verði í fararbroddi í þróun náms með nýrri tækni.

 

Inngangsnámskeið í tölfræði í edX

Umsækjandi: Anna Helga Jónsdóttir, aðjúnkt
Meðumsækjendur: Sigrún Helga Lund, Thor Aspelund
Deild: Raunvísindadeild

Lýsing: Mikið af fjölbreyttu kennsluefni hefur verið útbúið fyrir inngangsnámskeið í tölfræði. Má þar nefna kennslubók, kennslumyndbönd, gagnvirkar fjölvalsspurningar og matskvarða fyrir hagnýt verkefni. Það efni myndar góðan grunn að opnu íslensku edX vefnámskeiði í tölfræði. Vefnámskeiðið gæti strax næsta haust komið til beinna framkvæmda í sex námskeiðum sem eru kennd á nítján námsleiðum við fjögur af fimm sviðum Háskóla Íslands.

 

Edbook – Opið netnámsefni

Umsækjandi: Benedikt Steinar Magnússon, lektor í stærðfræði
Meðumsækjandi: Sigurður Örn Stefánsson, dósent í stærðfræði
Deild: Raunvísindadeild

Lýsing: Tilgangur verkefnisins er að halda áfram þróun tölvukerfisins Edbook sem býr til rafrænt og gagnvirkt kennsluefni sem geymt er á opnum vef,
http://edbook.hi.is 

Lokaskýrsla

 

Annual Seismic Design Competition: innovation in teaching of structural engineering courses

Umsækjandi: Rajesh Rupakhety, prófessor
Deild: Civil and Environmental Engineering

Lýsing: The main aim of the project is to plan and organize seismic design competition among students taking the above mentioned courses to enhance their learning experience. The competition will be held on Háskoladagurinn to attract more students to the study program.

Lokaskýrsla

 

Móttaka nýnema á Verkfræði- og náttúruvísindasviði

Umsækjandi: Anna Helga Jónsdóttir
Deild: Raunvísindadeild

Lýsing: Meginmarkmið verkefnisins er að aðstoða nýnema á Verkfræði- og náttúruvísindasviði að hefja nám á sviðinu. Til að ná árangri í námi við sviðið er mikilvægt að nemendur hafi góða þekkingu á framhaldsskólastærðfræði en sé hún ekki til staðar er hætt við að nemendur hætti í náminu. Í verkefninu verður einnig hugað að félagslega þætti þess að hefja nám á háskólastigi.

Lokaskýrsla

 

Akademískir ráðgjafar

Umsækjandi: Kolbrún Þ. Pálsdóttir
Deild: Deild heilsueflingar, íþrótta og tómstunda

Lýsing: Verkefnið felst í að efla utanumhald og stuðning við námsframvindu og velgengni nemenda í deild Heilsueflingar, íþrótta og tómstunda (HÍT deild) og er unnið í samstarfi við náms- og starfsráðgjöf Háskóla Íslands (NSHÍ). Nemendur fá skipaðan akademískan ráðgjafa úr hópi kennara þegar nám hefst. Jafnframt er nemendum reglulega boðið upp á framvindufundi með kennurum og/eða náms- og starfsráðgjöfum.

Lokaskýrsla

 

Mæling námsskeiða í einingum

Umsækjandi: Anna Dóra Sæþórsdóttir
Deild: Líf- og umhverfisvísindadeild

Lýsing: Markmiðið er annars vegar að fara yfir öll námskeið deildarinnar og reikna út hvort kennsla og námsefni sé í samræmi við stærð þeirra í einingum og bæta úr í þeim námskeiðum þar sem ekki er samræmi. Hins vegar er ætlunin að jafna vinnuálag á nemendur yfir misserið með því að kennarar hittist fyrir upphaf misserisins og fari yfir skipulag námskeiða.