
Örnám er stutt nám sem auðveldar fólki að bæta við sig þekkingu á afmörkuðu sviði. Námið er byggt upp eins og annað háskólanám og lýtur sömu gæðakröfum. Örnámi lýkur ekki með prófgráðu heldur fá nemendur staðfest með vottorði að námi sé lokið. Örnám er metið til ECTS-eininga sem í mörgum tilvikum er hægt að nýta í öðru námi sem lýkur með prófgráðu. Námið er þá metið ýmist sem hluti af skyldunámi, eða sem hluti af bundnu eða frjálsu vali. Örnám getur verið allt frá 1 ECTS-einingu að 59 ECTS-einingum og er bæði á grunn- og framhaldsstigi. Örnám getur hentað mjög vel með vinnu og eykur hæfni fólks til þátttöku í atvinnulífi.
Námið byggir á stöðlum sem settir hafa verið af MICROBOL og Bologna-ferlin. Markmið þess er að bæta færni einstaklinga til að mæta þörfum vinnumarkaðarins og samfélagsins almennt. Örnám er hannað til að vera sveigjanlegt, aðgengilegt og viðurkennt bæði innanlands og alþjóðlega.
Kennarar gegna lykilhlutverki í þróun og kennslu örnáms. Með því að taka þátt geta þeir:
- miðlað þekkingu sinni til nýrra markhópa, s.s. starfandi fagfólks utan háskólans
- þróað nýjar námsleiðir sem nýtast bæði í grunnnámi og símenntun
- byggt upp samstarf við atvinnulífið og styrkt tengsl fræðasviðsins við samfélagið
- nýtt sér tækifæri til starfsþróunar og nýsköpunar í eigin kennslu