Stig 1. Gervigreind bönnuð í öllu námsmati.
Þetta stig hentar ef...
- Þú ert að meta færni sem gervigreind gæti komið beint í staðinn fyrir (t.d. málfræði, rökfærslu, djúplestur, lausnir, undirstöðuatriði í forritun, textasköpun).
- Þú notar skrifleg verkefni í tíma, próf eða önnur verkefni við stýrðar aðstæður.
- Námskeiðið eða námsleiðin krefst upprunalegrar, sjálfstæðrar frammistöðu.
- Þú ert að kenna hæfni þar sem gervigreind myndi grafa undan tilgangi námsmatsins.
Tillaga að texta í kennsluáætlun:
Í þessu námskeiði er öll notkun gervigreindarverkfæra bönnuð á öllum stigum verkefnavinnu. Þetta nær til hugarflugs, uppkasts að skipulagi, textagerðar, yfirlestrar, þýðinga, staðreyndaprófunar eða hvers kyns vinnu með texta eða gögn. Þetta þýðir að verkið sem þú skilar verður að vera alfarið þín eigin hugsmíð og endurspegla þína færni, hæfni, þekkingu og skilning. Ef þig vantar aðstoð við skrif, málfar, skipulag eða námsaðferðir bendum við á viðurkennd úrræði háskólans, svo sem Ritver. Vakni grunur kennara um óleyfilega notkun gervigreindar er vísað í leiðbeiningar hér að neðan.
Stig 2. Gervigreind sem glósufélagi
Þetta stig hentar ef...
Mjög mikið lesefni er í námskeiði. Nemendur gætu þurft aðstoð við að leggja á minnið, túlka og skilja lesefni.
Tillaga að texta í kennsluáætlun:
Í þessu námskeiði má ekki nota gervigreind í verkefnum sem gefin er einkunn fyrir. Þú mátt nota gervigreind til að æfa þig á innihaldi lesefnis, til dæmis að biðja um samantekt, þýðingu, útskýringar, fá dæmi um prófspurningar og/eða túlkanir á hugtökum.
Ekki lesa eingöngu samantekt gervigreindar á lesefni því þá vantar smáatriði og samhengi. Hafðu í huga að gervigreindin getur gert mistök. Gagnrýndu það sem gervigreind setur fram, athugaðu hvort það standist með því að bera það saman við áreiðanlegar heimildir eins og t.d. kennslubók eða ritrýndar greinar..
Stig 3. Gervigreind við hugmyndavinnu og undirbúning verkefna
Þetta stig hentar ef...
- Gervigreind getur stutt nemendur á fyrstu stigum en lokaafurðin þarf að sýna fram á færni, túlkun eða röksemdafærslu nemendanna sjálfra.
- Þú vilt hvetja til hugmyndavinnu en viðhalda ströngum kröfum um akademísk heilindi.
- Þú kennir rannsóknarfærni, rökfærni eða greiningarhæfni þar sem nemendur þurfa að smíða og tjá eigin hugmyndir.
- Hæfniviðmiðin snúast um sjálfstæða hugsun, heimildanotkun eða ritfærni.
Tillaga að texta í kennsluáætlun:
Í þessu námskeiði má nota gervigreindarverkfæri við skipulag og hugmyndavinnu á fyrstu stigum verkefnavinnu, svo sem að fá hugmynd að rannsóknarspurningu eða gera drög að skipulagi/beinagrind eða fá skýrari skilning á hugtökum. Gagnsæisyfirlýsing verður að fylgja verkefni.
Ekki má nota gervigreind til að skrifa texta, greina gögn, umorða, bæta málfar eða ljúka við verkefni. Úrlausn þín verður að sýna með skýrum hætti þína eigin hugsun, túlkun, röksemdafærslu og skilning á efninu. Þú verður alltaf að skilja og geta útskýrt allt efni sem þú skilar. Ef þig vantar aðstoð við ritvinnslu, svo sem við yfirlestur, skaltu nota viðurkennd úrræði háskólans, t.d. Ritver.
Hafðu í huga að gervigreindin getur gert mistök. Gagnrýndu það sem gervigreind setur fram, athugaðu hvort það standist með því að bera það saman við áreiðanlegar heimildir eins og t.d. kennslubók eða ritrýndar greinar. Ef þú ert í vafa um notkun gervigreindar við tiltekið verkefni skaltu leita til kennara.
Stig 4. Gervigreind sem stuðningur við skrif og verkefni
Þetta stig hentar ef...
- Gervigreind getur hjálpað nemendum með gæði texta, skýrleika, skipulag eða málfar.
- Þú vilt að gervigreind sé gagnlegt en takmarkað hjálpartæki, en ekki draugahöfundur.
- Áherslan er á gervigreind sem verkfæri. Athugið: Þetta stig hentar líklega fyrir breiðastan hóp námskeiða við HÍ. Til dæmis gæti gervigreind nýst nemendum til þess að lesa yfir málfar í lokaútgáfu lokaritgerða.
Athugið: Þetta stig hentar líklega fyrir breiðastan hóp námskeiða við HÍ. Til dæmis gæti gervigreind nýst nemendum til þess að lesa yfir málfar í lokaútgáfu lokaritgerða.
Tillaga að texta í kennsluáætlun:
Í þessu námskeiði er þér velkomið að nota gervigreindarverkfæri sem hjálpartæki í námi; til dæmis í hugmynda- eða skipulagsvinnu, til þess að útskýra hugtök eða námsefni, eða til þess að lesa yfir málfar, flæði og orðalag í texta. Allt innihald texta, greining, túlkun og ályktanir verða að koma frá þér. Þú verður alltaf að skilja og geta útskýrt allt efni sem þú skilar. Gagnsæisyfirlýsing verður að fylgja verkefni.
Hafa ber í huga að gervigreindin getur gert mistök. Verið gagnrýnin á það sem gervigreind setur fram og athugið hvort það standist með því að bera það saman við áreiðanlegar heimildir eins og t.d. kennslubók eða ritrýndar greinar.
Ef þú ert í vafa um notkun gervigreindar við tiltekið verkefni skaltu leita til kennara.
Stig 5. Víðtæk notkun gervigreindar
Þetta stig hentar ef...
- Þú vilt að nemendur læri að vinna með gervigreind á gagnrýninn og ábyrgan hátt.
- Námskeiðið felur í sér hagnýta lausn vandamála, stafræna færni eða ítrun (e. iterative) í hönnun.
- Þú ætlast til að nemendur stýri gervigreindinni, meti svör hennar og samþætti þau vinnu sinni á markvissan hátt.
- Námsmat leyfir eða hvetur til samþætts vinnuferlis gervigreindar og nemenda.
- Hæfniviðmiðin fela sérstaklega í sér gervigreindarlæsi, færni í gerð kvaðninga (e. prompting), mat eða hönnun vinnuferla.
Dæmigerð námskeið: Hönnun, tölvunarfræði, samskipti, hagnýt verkefnatengd námskeið, námskeið um gervigreindarlæsi, starfsnám.
Tillaga að texta í kennsluáætlun:
Í þessu námskeiði má nota gervigreindarverkfæri (s.s. Copilot eða ChatGPT) í gegnum allt vinnuferlið; þar á meðal við hugarflug, heimildaleit, textagerð, yfirlestur og lausn vandamála. Þú mátt nota gervigreind á öllum stigum skrifa og rannsókna. Þú berð fulla ábyrgð á að stýra verkfærinu, meta útkomuna og tryggja að lokaútkoman endurspegli þinn skilning. Notkun gervigreindar á þessu stigi kemur ekki í stað akademískrar ábyrgðar þinnar. Þú verður að geta útskýrt ákvarðanir þínar, rökstutt hvernig þú notaðir gervigreindina og metið með gagnrýnum hætti nákvæmni og gildi þess efnis sem gervigreindin bjó til. Þú verður að geta sýnt fram á eignarhald á lokaafurðinni. Gagnsæisyfirlýsing verður að fylgja verkefni.
Dæmi um hvað má:
- Biðja gervigreind að endurskoða eða endurskipuleggja texta sem þú skrifaðir.
- Nota gervigreind til að bera saman túlkanir, aðferðir eða nálganir.
- Nota gervigreind til að leysa vandamál eða setja upp sviðsmyndir.
- Biðja gervigreind að útskýra tæknileg eða fræðileg hugtök sem námsaðstoð.
Dæmi um hvað þú verður samt að gera sjálf/ur:
- Meta hvort svör gervigreindarinnar séu rétt.
- Vísa rétt í heimildir og staðreyta fullyrðingar.
- Tryggja að röksemdafærslan og uppbyggingin endurspegli þinn eigin skilning.
Sækja sniðmát (íslenska og enska)
Gagnsæisyfirlýsing. Yfirlýsing nemenda um notkun gervigreindar.
Sé nemanda heimilt að nota gervigreind í verkefni sem metið er til einkunnar verður gagnsæisyfirlýsing að fylgja.
Gagnsæisyfirlýsing skal koma á undan heimildaskrá. Sé gervigreind notuð í greiningu gagna skal hennar einnig getið í aðferðakafla verkefnis.
Það sem þarf að koma fram er a) hvaða hugbúnaður/verkfæri nemandi notaði, b) hvaða kvaðningar (prompts) voru notaðar c) í hvaða tilgangi var gervigreind notuð og d) hvernig nemandi breytti og eða nýtti úttakið. Nemandi þarf að lýsa því yfir að hann hafi yfirfarið og beri ábyrgð á öllu efni sem kemur frá gervigreind.
Dæmi um gagsæisyfirlýsingar:
- Engin gervigreindarverkfæri voru notuð við gerð þessa verkefnis.
- Ég nýtti [verkfæri, útgáfa X] til þess að laga málfar og orðalag í lokaútgáfu textans. Ég yfirfór texta sjálf(ur/t) og gætti að því að lokaútgáfa væri rétt og ber fulla ábyrgð á lokaútgáfunni.
- Ég notaði [verkfæri] til [tilgangs]. Kvaðningarnar sem ég setti inn voru: [listi]. Úttakið nýtti ég til að [útskýring]. Ég yfirfór [allan texta / alla útreikninga] og ber fulla ábyrgð á lokaútgáfunni.
Hvernig á kennari að lesa yfirlýsingu?
- Samhengi: Passar yfirlýsingin við tegund verkefnis?
- Skýrleiki: Er ljóst hvaða kvaðningar voru notaðar og í hvaða tilgangi?
- Sjálfstæði: Er greinilegt hvað nemandinn gerði sjálf(ur)?
- Gæði: Getur nemandinn bent á styrkleika og veikleika úttaksins?
- Heiðarleiki: Er yfirlýsingin trúverðug og í samræmi við verkið?
- Persónuvernd: Eru einhver gögn sem mátti ekki setja inn?
Hvenær þarf ekki yfirlýsingu?
- Þegar verkefni snýst eingöngu um málfar eða stafsetningu.
- Þegar gervigreind er ekki leyfð og verkefnisform tryggir að hún skiptir ekki máli.
- Þegar notkun er svo lítilvæg að hún hefur engin áhrif á innihald (t.d. ein kvaðning til að athuga stafsetningu).
- Kennari getur þó hvatt til stuttrar yfirlýsingar til að efla gagnsæi.
Grunsemdir um misnotkun gervigreindar
Vakni grunsemdir hjá kennara um að nemandi hafi notað gervigreind með óheimilum hætti er það hefðbundið agamál sem þarf að fara eftir þeim farvegi sem 51. gr. reglna nr. 569/2009 mælir fyrir um.
Þó verður kennari að hafa í huga að hraði tækniþróunar gervigreindar er slíkur að æ erfiðara verður að greina muninn á gervigreind og mannanna verki. Erfitt er því að finna ummerki um hvort spunagreind hafi unnið verkefni sem nemandi skilar í eigin nafni.