Leiðsagnarmat

Leiðsagnarmat, eða leiðsagnarnám eins og það er oft nefnt, hefur verið skilgreint sem námsmat sem er ætlað að leiða til endurgjafar sem er til þess fallin að nemendur geti bætt sig og breytt verkefnum sínum í samræmi við hana og þannig fært nemandann nær markmiði sínu í námi (Nanna Kristín Christiansen, 2021).

Leiðsagnarmat

Í leiðsagnarmati endurmeta nemendur sig sífellt sjálfir á meðan þeir vinna verkefnin og skynja því betur hvernig þeim miðar áfram í takt við markmiðin.
Einn lykilþátta í leiðsagnarmati er endurgjöf. Endurgjöfina ætti að nýta til að valdefla nemendur þannig að þeir taki aukna ábyrgð á eigin námi. Nemendur taka frekar ábyrgð á lærdómsferlinu, setja sér markmið og finna aðferðir til að ná markmiðum sínum. Þeir þurfa einnig að taka ábyrgð á námsefninu, vinnunni sem þeir leggja í lærdóminn, hvernig þeir bregðast við endurgjöf og taka ábyrgð á verkefninu eða afurð vinnu sinna sjálfir. Endurgjöfin frá kennara er áhrifaríkari eftir því sem nemendur eru betri í að nýta sér hana og eftir því sem þeir eru betur í stakk búnir til að meta sig sjálfir.

Þegar leiðsagnarmati er beitt þurfa kennarar þurfa að hafa eftirfarandi grundvallaratriði í huga, til þess að ná fram auknum námsárangri og aukinni ábyrgð nemenda á eigin námi:

-Markmiðin með náminu eru skýr og viðmið um árangur í öllum verkefnum einnig.
-Endurgjöfin vísar veginn og hvetur til sjálfsígrundunar nemandans og að hann geti sjálfur metið hvar hann stendur.
-Í endurgjöfinni eru hágæða upplýsingar til nemendanna um hvar þeir standa í náminu.
-Endurgjöfin hvetur til samtals bæði milli nemenda og kennara og einnig milli nemendanna sjálfra um námið.
-Endurgjöfin er þannig að hún er hvetjandi og ýtir undir áhugahvöt, trú nemandans á eigin getu og eykur þannig sjálfstraust hans í náminu.
-Endurgjöfin leitast við að brúa bilið milli þess hvar nemandinn er staddur og þangað sem hann ætlar, í átt að markmiðum.
-Endurgjöfin veitir kennurum upplýsingar um hvernig hann getur aðlagað kennslu sína.

Með því að breyta námsmatsaðferðum þá breytast kennsluhættir ósjálfrátt í takt við breyttar námsmatsaðferðir. Leiðsagnarmat ýtir undir nemendamiðaða kennslu og eykur tengsl nemenda og kennara þar sem matið fer fram að einhverju leyti í gegnum samtöl (Nicol, D. J., og  Macfarlane‐Dick, D. 2006).

Upplýsingar um aðferðir við endurgjöf

Image
Vinnustofa kennslusérfræðinga Aurora í HÍ september 2022

Havnes, A., Smith, K., Dysthe, O., & Ludvigsen, K. (2012). Formative assessment and feedback: Making learning visible. Studies in Educational Evaluation, 38(1), bls. 21–27. https://doi.org/10.1016/j.stueduc.2012.04.001

Nanna Kristín Christiansen, 2021. Leiðsagnarnám: Hvers vegna, hvernig, hvað? Nanna Kristín Christiansen, Reykjavík.

Nicol, D. J., & Macfarlane‐Dick, D. (2006). Formative assessment and self‐regulated learning: A model and seven principles of good feedback practice. Studies in Higher Education, 31(2), bls. 199–218. https://doi.org/10.1080/03075070600572090

Juwah J., Macfarlane-Dick, D., Matthew, B, Nicol, D., Ross, D. og Smith, B. Enhancing student learning through effective formative feedback. Sótt: https://www.uts.edu.au/research-and-teaching/learning-and-teaching/assessment-futures/overview

University of New South Wales. (2017). Assessing by group work.Sótt: https://www.teaching.unsw.edu.au/assessing-group-work

Vefsíða á vegum háskólans í Sidney sem fjallar um námsmat: https://www.heacademy.ac.uk/sites/default/files/resources/id353_senlef_guide.pdf