Skipulag og hönnun námskeiðs

Kennsluáætlun er lykilatriði í undirbúningi kennslu. Í kennsluáætlun er hæfniviðmiðum, námsefni, kennsluaðferðum, námsmati og tímaramma námskeiðsins lýst þannig að nemandi átti sig á því hvað hann mun læra af námskeiðinu.

Nemendamiðuð námshönnun

Námshönnun snýst um að námskeið sé þannig uppsett að það styðji við þau hæfniviðmið sem liggja til grundvallar.

Kennsluáætlun þarf að vera skýr. Skipuleggja þarf innihald námskeiðsins, uppbyggingu námsþátta, tímasetningar, kennslufræðilegar aðferðir og uppröðun námseininga. Einnig þarf að ákveða hvernig endurgjöf og námsmati er háttað.

Huga þarf að eðli þeirrar upplýsingatækni sem notuð er til að styðja við nám. Árangursrík námskeið krefjast vandlegrar skipulagningar og stöðugrar endurskoðunar.

Með því að huga fyrst að hæfniviðmiðum námskeiðs og síðan að þáttum eins og innihaldi, uppbyggingu, námshópnum, endurgjöf og námsmati myndast skýr samfella á milli námskeiðslýsingar, hæfniviðmiða, kennslu og námsmats.

Image
Kennari fyrir framan glærusýningu að útskýra og sýna viðfangsefni

Hvernig byrja ég að hanna námskeið

Hvort sem verið er að skipuleggja glænýtt námskeið eða endurskoða eldra námskeið, er best að byrja á að skilgreina það sem þú vonar að nemendur þínir taki með sér úr námskeiðinu. Þá er gott að spyrja sig að því hvaða hæfni, þekkingu og leikni nemendur eigi að búa yfir að loknu námskeiði.

Á þessu stigi þurfa markmiðin ekki að vera formleg og hæfnimiðin þurfa ekki að vera vel skilgreind heldur að útbúa einfaldan lista til að vinna með.

Stundum breytast markmið og hæfniviðmið námskeiðsins í hönnunarferlinu og á meðan námskeiðið er skipulagt. Það ætti að vera auðvelt í ferlinu að tengja kennslu, verkefni og námsmat við þennan lista.

Þegar búið er að skipuleggja námið er gott að fara yfir listann og forma námskeiðslýsingu og hæfniviðmið. Eins er gott að yfirfara hvort eitthvað þarfnist endurskoðunar.

Þegar búið er að skilgreina markmið/tilgang og hæfniviðmið námskeiðsins er næsta skref að átta sig á hvernig á að meta hvort nemendur hafi náð settum hæfniviðmiðum, hvernig á að meta hæfni nemenda. Hverskonar lokamat mun gagnast til að meta hvort nemendur hafa þá hæfni sem búið er að skilgreina? Ef nemendur eiga að þekkja staðreyndir eða tilteknar upplýsingar gæti krossapróf átt við. Ef nemendur eiga að geta búið til viðskiptaáætlun eða framkvæmt tilraun á rannsóknarstofu þá þarf matið að taka mið af því.

Þegar búið er að taka ákvörðun um lokamat er vert að huga að leiðsagnarmati sem veitir nemendum endurgjöf  jafnt og þétt á það sem þeir eru að gera og byggir upp þá þekkingu og hæfni sem stefnt er á að þeir hafi þegar kemur að lokamati, t.d. prófi

Næsta skref er að skipuleggja innhald námskeiðsins. Mikilvægt er að tryggja samfellu milli miðlunar frá kennara og tækifæri nemanda til að æfa/þjálfa hæfnina. Þannig er til dæmis mikilvægt að ekki líði of langur tími á milli umfjöllunar um nýtt hugtak frá kennara og vinnu nemenda með hugtakið.

Gott er að setja niður að hvaða hæfniviðmiðum námskeiðsins er verið að vinna hverju sinni. Þannig má tryggja að tengsl séu milli þess sem gerist á námstímanum og þeirra hæfniviðmiða sem liggja til grundvallar í námskeiðinu.

Mikilvægt er að gera sér grein fyrir því að sjaldnast er hægt að komast yfir allt námsefni í kennslustundum og þá þarf að skilgreina hvaða efni á að fara yfir í kennslustundum og hvað nemendur eiga að læra sjálfstætt. Þegar hugað er kennslustundum er betra að fara yfir færri viðfangsefni og af meiri dýpt heldur en að komast yfir sem mest námsefni. Markmiðið er ekki að komast í gegnum allt námsefnið heldur að skapa þýðingarmiklar námsupplifanir fyrir nemendur sem þeir geta nýtt sér að námi loknu.

Námsmiðaðar kennsluáætlanir og kennsluhættir setja nemendur í forgrunn. Áherslan er á nemandann og hvað hann mun læra frekar en það sem kennarinn ætlar að gera. Nemendur eiga að vera meðvitaðir um hvernig þeir ná þeim hæfniviðmiðum sem lögð eru til grundvallar í námskeiðinu og ekkert á að koma þeim á óvart.

 1. Grunnupplýsingar; heiti námskeiðs og þess háttar, upplýsingar um kennara og hvenær og hvernig nemendur geta haft samband við hann.
   
 2. Stefna og reglur eins og við á, t.d. í tengslum við sein skil (ef þau eru leyfð) og reglur um samskipti.
   
 3. Kennslusýn eða starfskenning ; til hvers kennari ætlast af nemendum og hvers þeir geta ætlast af kennara.
   
 4. Tengsl námskeiðs við aðra hluta náms nemenda; byggir námskeiðið á öðru námskeiði eða er það undirbúningur fyrir eitthvað annað.
   
 5. Hæfniviðmið; lýsa þeirri hæfni sem nemendur eiga að búa yfir að námskeiði loknu. Hér ber að hafa í huga tengsl hæfniviðmiða, kennslu og verkefna og námsmats. Hæfniviðmið eiga að vera skýr og metanleg.
   
 6. Lesefni; Mikilvægt er að nemendur fái tímanlega upplýsingar um lesefni, sérstaklega ef það getur tekið tíma að nálgast það og/eða ef það er kostnaðarsamt að verða sér úti um það. Einnig er gagnlegt að kennari útskýri val á lesefni, það getur sagt nemendum heilmikið um hvaða nálgun kennarinn hefur á efnið.
   
 7. Vinnuálag; það er góð regla að reikna vinnuálag í námskeiðum og miða lesefni og verkefni við þá útreikninga. Jafnframt er gott að kynna nemendum viðmið um vinnuálag í námskeiðum.
   
 8. Námsmat; Þarf að vera skýrt. Mikilvægt er að kennari og nemendur hafi sama skilning á námsmati. Að nemendur átti sig á því hvernig þeir verða metnir og hvenær. Verkefnalýsingar og skil verkefna þurfa að hafa tímaáætlun og dagsetningar skýrar. Nemandi þarf að geta skipulagt vinnu sína
 9. Námsvenjur; gott getur verið að benda á góðar námsvenjur og benda nemendum á hvar þeir geta fengið aðstoð varðandi námsvenjur og vinnubrögð í námi sínu.

Þegar námskeið er hannað er mikilvægt að það sé í samræmi við gildandi jafnréttisáætlun Háskóla Íslands

Hér er hægt að nálgast gátlista um jafnrétti í kennslu sem allir kennarar ættu að kynna sér. 

Kennsluefni

Gott kennsluefni styður nemendur í að ná þeim hæfniviðmiðum sem sett hafa verið í námskeiði. Það inniheldur allt það sem kennari leggur fram og nemendur eiga að vinna með: glærur, námsbækur, verkefnalýsingar, upptökur, fyrirlestra, greinar, kvikmyndir o.s.frv. 

Hér eru nokkur atriði sem er mikilvægt að kennarar hafi í huga varðandi framsetningu á kennsluefni, hvort sem það er sett fram í kennslustofu eða á neti. 

Lög um höfundarrétt (frá árinu 1972 nr. 73) eru marglaga og hér verður ekki gerð tilraun til að útskýra þau á einfaldan hátt. Í siðareglum Háskóla Íslands kemur fram að starfsmenn og nemendur Háskóla Íslands skuli virða höfundarétt (Siðareglur HÍ, grein 3.4)

Mikilvægt er að kennarar sem aðrir þekki leikreglurnar, taki ábyrgð og fái leyfi ef þess þarf.

Höfundarréttur snýr að því að hugverk geta t.d. verið í eigu höfundar og það er brot á lögum að nota, afrita, breyta eða birta verk eiganda án leyfis viðkomandi eða án greiðslu. Brot á höfundalögum geta haft afleiðingar fyrir þann sem brýtur lögin, fari málið fyrir dómstóla. Hugmyndin er að hver maður eigi rétt á afrakstri af eigin vinnu og því eru oft miklir fjárhagslegir hagsmunir í húfi fyrir viðkomandi. Um er að ræða svipuð sjónarmið og gilda varðandi eignir almennt.

Stærstur hluti t.d. kvikmynda, bóka og ljósmynda er varin af höfundarrétti.

Það þýðir m.a. að öllum öðrum en höfundi verks er óheimilt að gera eintök (t.d. skanna inn texta heillar námsbókar og hlaða upp sem pdf skjal í Canvas)  nema búið sé að semja við höfund um annað eða gerð sé undantekning lögum samkvæmt.  Einkaréttur höfundar til eintakagerðar nær til allra gerða af verkum hans, hvort sem um er að ræða hluta verksins, aðlagað verk eða allt verkið. Höfundur á jafnframt einkarétt á birtingu verka sinna. Það þýðir að öllum öðrum en höfundi verksins er óheimilt að birta verk hans nema búið sé að semja við hann um annað eða undantekning sé í lögum.

Nota má tiltekinn hluta af texta úr höfundavörðu efni sé heimilda getið og í þeim tilgangi að nýta m.a. til kennslu. Ekki má nýta efnið til auglýsinga eða fjárhagslegs ávinnings eða vinna með of mikinn texta. Menntamálaráðuneytið gerði samning við Fjölís um ljósritun og hliðstæða eftirgerð á höfundaréttarvörðu efni í skólastarfi. Samningurinn nær til allra varinna verka, íslenskra sem erlendra sem undirorpin eru höfundarétti með þeim undantekningum ef höfundur hefur sérstaklega undanskilið verk sín.

Samningurinn tekur til hefðbundinnar ljósritunar, skönnunar, ljósmyndunar og hliðstæðrar eftirgerðar, útgefinna verka s.s. bóka, tímarita, dagblaða, nótnahefta, landakorta, listaverka, ljósmynda, leiksviðsverka, skráa, taflna o.s.frv. Ljósrita má stutta þætti, 20% hið mesta og að hámarki 30 bls. úr hverju riti, fyrir hvern nemanda, á hverju skólaári.

Dæmi: Ef rit telur 100 bls. er heimilt að ljósrita 20 bls. úr því en eingöngu 10 bls. ef það telur 50 bls. en aldrei meira en 30 bls. úr sama verkinu (sjá vef Fjölís).

Með hverju afrituðu verki skal fylgja áminning um höfundarrétt: Lesendur eru minntir á að um verk þetta gilda reglur höfundalaga. Utan þess sem höfundalög og samningur háskólanna við Fjölís heimilar, er ekki leyfilegt að fjölfalda verk frekar, varðveita eða dreifa án samþykktar rétthafa verksins. Enn fremur er óheimilt að breyta verkinu á nokkurn hátt.

Virðum rétt höfunda

Þó að lög um höfundarétt séu í einhverjum tilfellum flókin og framandi er mikilvægt að allir starfsmenn HÍ og nemendur kunni skil á meginstefi þeirra. Einnig er mikilvægt að réttur þeirra sem eiga hugverk sé virtur sem þýðir að farið er afar varlega í að nýta verk annarra, birta þau eða vinna með. Það að fá leyfi er lykilatriði.

Þegar upplýsingar eru settar fram á pappír, á vef eða í formi glærukynningar er mikilvægt að vera meðvitaður um að framsetning upplýsinga skiptir miklu máli. Hugtökin læsileiki, regla og rými skipta þar höfuðmáli.Textinn þarf að vera skipulega upp settur til að nemendur geti lesið hann með góðu móti.

Gott er að hafa nokkra þætti í huga varðandi framsetningu texta á skjá eða pappír.

 • Texti þarf rými. Varist að setja of mikinn texta á hvert blað eða glæru og notið gott bil á milli lína.
 • Jafnvægi og regla. Texta þarf að setja upp þannig að þar sé jafnvægi og ákveðinn taktur í textauppbyggingu, svo sem sömu leturgerðir, litaval og svo framvegis
   
 • Texti sem er samfelldur og án uppbrots er ekki eins læsilegur og texti sem brotinn er upp með fyrirsögn, undirfyrirsögn og styttri efnisgreinum. Einnig er gott að draga fram þröskuldshugtök (lykilhugtök) í texta fram með feit- eða skáletrun. Huga þarf vel að notkun undirstrikunar í texta á neti. Þar gæti lesandinn mistúlkað undirstrikunina sem krækju.
   
 • Línur (ekki undirstrikun) og form geta verið kostur til að brjóta upp texta eða gefa texta rými. Ein lína undir fyrirsögn getur breytt heilmiklu svo dæmi sé tekið.
   
 • Litir eru öflug verkfæri til hönnunar. Hins vegar þarf að vanda vel til verks. Ljósblár texti á bláum grunni sést sem dæmi illa. Einstaka nemendur eru litblindir og til þess þarf að taka tillit en almennt geta litir brotið upp, dregið fram, styrkt eða gert góða framsetningu enn betri. Gott er að þekkja til litahringsins svokallaðs og nýta hann við val á litum.
   
 • Góð leturgerð styrkir texta, gerir hann læsilegri og almennt fallegri.  Mikilvægt er að velja leturgerð sem hæfir viðfanginu og halda sig við þá leturgerð.  Viðmiðið er  að alla jafna er einungis unnið með tvær til þrjár leturgerðir í texta. Í þeim tilfellum er einnig mikilvægt að regla sé í notkun leturgerðanna. 
  Það getur hjálpað mörgum nemendum með lestrarörðugleika að nota 14 punkta Arial eða Calibri letur. Einnig er gott að notast við lesblinduletrið Open Dyslexic.

Glærurnar þínar eiga að vera auglýsingaskilti, ekki skjal (Lee Jackson).

Svonefnd glærugerðarforrit (t.d. PowerPoint, Keynote, Google Slides, Prezi o.fl.) eru algengur hugbúnaður notaður af kennurum til að veita sjónrænan stuðning við framsetningu þekkingar, upplýsinga, hugmynda, skoðana o.s.frv.

Glærugerðarforrit eru almennt auðveld í notkun og bjóða upp á skilvirka leið til að efla og styrkja framsögn kennara og nemenda.  Kennarar ættu þó að vera meðvitaðir um að með markvissum vinnubrögðum er hægt að gera góða glærukynningu frábæra en á sama hátt er hægt að draga góða kynningu niður með því að gera það sjónræna að sjónrænu áreiti.

Til að glærukynningin þjóni tilgangi sínum og bæti kennsluna er gott að hafa nokkur atriði í huga:

 • Við gerð kynningar er gott að vinna í því sem kallast meistaraglæra, (e. master eða slide master.) sem hægt er að vinna sem forskrift að öðrum glærum í kynningunni. Sé t.d. dagsetning sett í fót í meistaraglærunni þá birtist þú dagsetning í öðrum glærum. Það að vinna meistaraglæruna fyrst tryggir samræmi í uppsetningu, litum, leturgerðum og bakgrunni. Gott er að hafa að markmiði að halda glærunum tiltölulega einföldum hvað varðar útlit.
   
 • Góðar og lýsandi ljósmyndir, myndbönd, teikningar, gröf og önnur myndverk segja meira en þúsund orð. Ljósmyndir, myndbönd og gröf eiga að vera fyrsti kostur við uppsetningu kynningar en ekki texti. Gæta verður að höfundarétti, þ.e. að vísa til heimilda eða fá leyfi  frá eigendum mynda, myndbanda, grafa o.s.frv.
   
 • Myndefni þarf að vera í góðri upplausn. Þau þurfa að vera það mikil að myndgæðin haldist þó glærunum sé varpað á stóran flöt.
   
 • Tónlist getur styrkt kynninguna sé hún rétt notuð á viðeigandi stöðum. Gæta verður að höfundarétti tónlistar og vísa í heimildir eða fá leyfi frá eigendum sé t.d. verið að nota höfundaréttarvarða tónlist. Gæta þarf að hljóðstyrk, þ.e. að hann sé ekki of mikill eða of lítill.
   
 • Mikilvægt er að takmarka eins og kostur er texta á hverri glæru. Forðast skal að nota texta á glærur sem handrit að kynningu, þ.e. að setja allt það sem á að segja á glærurnar. Ef texti er nauðsynlegur á hann helst að snúast um þröskuldshugtök og allra nauðsynlegustu upplýsingar. Sé markmiðið að skila miklum texta til nemenda má spyrja hvort glærukynning sé besta leiðin til miðlunar. Aðrar leiðir líkt og pdf skjal eða útprentaður texti er sem dæmi valkostur. 
   
 • Hástafir henta ekki vel nema í fyrirsögnum, við upphaf setninga og í sérheitum.
   
 • Gæta þarf að stafsetningu. Gott er að láta einhvern prófarkarlesa kynningu því stafsetningarvillur geta virkað neikvætt á áhorfendur og eins geta þær valdið misskilningi.
   
 • Leturgerðir þurfa að vera læsilegar og varast skal að blanda mörgum leturgerðum saman. Margar leturgerðir auka líkur á óreiðu. Ágætt viðmið er að vinna mest með þrjá leturgerðir í hverri kynningu. 
   
 • Litur á texta og myndverkum þarf að vera vel aðgreinanlegur frá bakgrunni. Sé bakgrunnur ljós þarf textinn að vera dökkur og öfugt. 
   
 • Varast skal glæruflæði (transitions) sem og texta- eða myndaflæði (animation) á borð við að glæra eða texti skoppi á skjáinn. Flæði kann að vera sniðugt við fyrstu sýn en það verður mjög fljótt áreiti. Ef textaflæði er virkjað (texti birtist t.d. þegar smellt er á músarhnappinn eða hægri örina á lyklaborðinu) er gott að gæta að stöðugleika og samræmi. Gott er að hafa textaflæðið einfalt og halda því eins milli glæra (t.d. að texti komi alltaf að ofan og niður eða frá vinstri til hægri). Varast skal einnig að ofnota aukahljóð og teiknimyndagerðarmöguleika glærugerðarforritanna.
   
 • Gott er að takmarka fjölda glæra í hverri kynningu. Kynning sem inniheldur mikinn fjölda glæra felur t.d. í sér að kynnirinn er stöðugt að fletta glærum og þar með aukast líkurnar á að viðkomandi tapi áhorfendum. Gott viðmið er ein glæra fyrir hverjar tvær mínútur.
   
 • Gott er kynnirinn æfi sig vel áður en kynningin fer fram. Mikilvægt er að þekkja innihald kynningarinnar og hvar hvert atriði er að finna. Það að þekkja innihaldið gerir kynni kleift að vera í góðu flæði við áhorfendur, þ.e. að geta farið fram og til baka í kynningunni sé þörf á því.
   
 • Gott er að halda kynninguna fyrir einhvern sem getur gefið uppbyggilega gagnrýni áður en kynningin er haldin fyrir áhorfendur. Mjög gott er að taka tímann á hversu lengi kynningin stendur yfir. Það að vita tímalengd gefur kynni færi á að laga kynninguna, stytta eða lengja.
   
 • Ef kostur er þá er gott að kynna sér rýmið sem þar sem kynningin mun fara fram. Mikilvægt er að þekka vel til þess búnaðar sem á staðnum sem og vita á hverju er von tæknilega séð. Er tölva á staðnum? Er skjávarpi á staðnum? Virkar skjávarpinn? Er virk fjarstýring á staðnum? Er viðkomandi glærugerðarforrit í tölvunni? Virkar netið? Kemst kynnirinn á netið? Er nóg að koma með kynninguna á minnislykli eða er hægt að keyra hana í gegnum ský? Eru tengingar skjávarpa við tölvu kynnis réttar? Gott er að mæta snemma á staðinn til að koma kynningunni af stað. Varast ber að koma kynningunni af stað á síðustu stundu eða fyrir framan áhorfendur.
   
 • Ef kostur er þá er gott að prófa kynninguna í rýminu (eða sambærilegu rými) sem mun verða notað. Gott er að skoða með gagnrýnum augum myndræna framsetningu og samspil leturs, mynda, lita og læsileika. Sést textinn vel fyrir þá sem sitja aftast? Eru ljósmyndir skýrar fyrir þá sem sitja fremst og þá sem sitja aftast o.s.frv.
   
 • Tæknin virkar stundum ekki eða eitthvað bilar. Gott er að hafa tiltæka varaleið til að koma kynningunni áleiðis. Sem dæmi er hægt að vera með kynninguna útprentaða fyrir áhorfendur eða að hún sé aðgengileg á vefsíðu.
   
 • Varast skal að lesa af glærunum. Texti á glærum er fyrir áhorfendur en ekki kynnirinn. Þurfi að lesa texta er alltaf betra hafa hann fyrir framan sig í tölvu (t.d. sem notes í PowerPoint), snjallsíma eða sem útprentað skjal.
   
 • Varast skal að horfa á glærurnar á vegg eða tjaldi og tala við vegginn eða tjaldið. Kynnir á að horfa til áhorfenda og mynda samband við þá. Annað eru skýr skilaboð um óöryggi og að áhorfendur skipti ekki máli.
   
 • Ef eitthvað er ekki eins og það á að vera á meðan kynningu stendur ber að varast afsakanir. Betra er að halda áfram og treysta áhorfendum.

Eitt algengasta kennsluefni kennara eru námsbækur. Góð kennslubók gerir góða kennslu betri og getur hjálpað nemendum við að ná hæfniviðmiðum sem og opnað augu þeirra fyrir öðrum sjónarhornum. Kennslubækur koma hins vegar seint í stað kennslu eða kennara. Þær eru fyrst og fremst stuðningur og þar af leiðandi ekki forsenda náms. Forsenda námsins er kennarinn og það sem hann hefur fram að færa, verkstjórn hans og leiðbeining.

Kennurum er upp að vissu marki í sjálfsvald sett hversu margar kennslubækur þeir gera nemendum að lesa eða vinna með. Eina viðmiðið er að heildarvinna nemanda á námskeiði sé ekki meiri en sá ECTS einingafjöldi sem námskeiðið miðast við (ein ECTS eining jafngildir 25-30 klukkustunda heildarvinnu).

Velji kennari að gera nemendum að lesa eða vinna með kennslubók er fyrsta skrefið að ákveða hvaða kennslubók verði fyrir valinu. Kennarans er að leita upplýsinga um það kennsluefni sem til er og þar er gott að hafa nokkur atriði í huga. Eitt er læsileiki. Er texti settur fram á læsilegu máli? Eru leturgerðir læsilegar? Er unnið með þröskuldshugtök (meginhugtökin í náminu)? Eru ljósmyndir, gröf og annað myndrænt sett fram á skiljanlegan hátt og auðlesinn? Eru jafnréttissjónarmið höfð í huga í kennslubókinni? Endurspeglar kennsluefnið fleira en eitt sjónarhorn? Fylgja kennslubókinni kennsluleiðbeiningar eða verkefni sem leggja má fyrir nemendur? Hvað kostar kennslubókin, er verðið viðráðanlegt fyrir nemendur?

Að ýmsu er að huga en hafi kennari hug á að vinna með tiltekna kennslubók er möguleiki á að gott að hafa samband við útgefanda og fá eintak sent til skoðunar. Standist sú skoðun er að hafa samband við rekstraraðila Bóksölu stúdenta og fá þá til að panta þann eintakafjölda sem til þarf.

Gæta þarf að höfundarétti. Sé kennslubók höfundavarin er mikilvægt að bera virðingu fyrir landslögum og siðareglum Háskóla Íslands. Sem dæmi er rétt að nemendur kaupi kennslubók í stað þess að hún sé öll skönnuð inn og hlaðin inn í t.d. Canvas sem pdf skjal.

Í einhverjum tilfellum er framboð af kennsluefni  af skornum skammti. Hugsanlega kýs kennari því að semja sitt eigið námsefni.

Aðgengi að hugbúnaði, forritum og tölvum til kennsluefnisgerðar er í flestum tilfellum gott. Flestir búa að snjallsímum og fartölvum og í því ljósi hafa kennarar og nemendur möguleika á að útbúa kennslubók eða annað kennsluefni sem stutt getur við kennsluna.

Forrit á borð við Pages (Apple), Publisher (Microsoft) og Google Docs (frekar takmarkað forrit) bjóða upp á umbrots- og uppsetningarmöguleika. Kennarar geta því óhikað útbúið sitt eigið kennsluefni og það kennsluefni sem styðst við margmiðlun.

Að mörgu er að hyggja þegar kennslubók er samin. Fyrst þarf að ákveða hvort kennslubókin eigi að vera stafræn gagnvirk flettibók eða hvort gefa eigi hana út á pappír? Sem dæmi er hægt að vinna með myndband eða hljóð í því stafræna enda möguleikarnir á margmiðlun mun fleiri en í því hefðbundna. Huga þarf að því að kennsluefnið tengist með skýrum hætti hæfniviðmiðum. Huga þarf að höfundarétti, þ.e. að ef unnið er með heimildir eða verk annarra að vísað sé í þau eða leyfi sé til staðar fyrir notkuninni. Huga þarf að leturgerðum og læsileika þeirra, að notkun lita (t.d. fer ekki vel að letur sé í svipuðum lit og bakgrunnur), að því að textinn hafi pláss og ekki sé verið setja of mikinn texta á flöt (texti þarf rými), að því að jafnréttissjónarmiðum sé fylgt, að unnið sé með þröskuldshugtök, að myndir og gröf séu læsileg og hæfi viðfanginu o.s.frv.

Ef vel á að takast er mikilvægt að verkið sé skoðað á gagnrýninn hátt fyrir notkun eða útgáfu, textinn prófaarkarlesinn og hugað að framsetningu. 

PDF er skammstöfun sem stendur fyrir portable document format. Um er að ræða stafræn skjöl á formi sem sem auðvelt er að deila til annarra. Kosturinn við pdf skjöl er fastinn, þ.e. lítið er hægt að vinna með sjálft skjalið nema í tilteknum forritum.

Ókosturinn er að ekki hægt að vinna með margmiðlun, t.d. að setja inn myndbönd eða hljóð. Engu síður er í einhverjum tilfellum hægt að virkja krækjur í texta í pdf skjali.

Ljósritaðar, skannaðar greinar eða hlutar út ritum eða bókum á pdf formi er algengt kennsluefni og er þá gjarnan hafður sá háttur á að skjölum er hlaðið upp sem pdf skjal í t.d. Canvas og þá í samhengi við þau hæfniviðmið sem verið er að vinna með.

Að ýmsu er að huga varðandi pdf skjöl sem byggja á ljósritun eða skönnun. Gæta verður að höfundarétti, þ.e. að birting greinar eða hluta úr bók sé í samræmi við samning Menntamálaráðuneytisins og Fjölís.

Vanda þarf til skönnunar eða ljósritunar (þ.e. þegar pdf skjal er útbúið). Í einstaka tilfellum myndast dökkir skuggar t.d. í broti bóka við ljósritun. Hugsanlega nær sá skuggi yfir texta og þar af leiðandi getur verið erfitt fyrir nemendur að lesa textann. Það sama gildir nýti nemendur talgervil til að hlusta á textann, hann nær ekki að lesa svartan flöt sem texta.

Myndbönd geta glætt kennslu lífi og þar er hægt að sýna heima sem annars væru fjarlægir eða framandi. Við val á myndböndum er gott að hafa nokkur viðmið til hliðsjónar.

 • Tengist efni myndbandsins með skýrum hætti við hæfniviðmið námsins?
 • Er hljóðið gott þannig að tal er skýrt og heyrist vel?
 • Er myndbandið textað fyrir þá sem ekki heyra vel?

Kennslumyndbönd

Kennarar geta útbúið kennslumyndbönd í Canvas Studio eða Panopto og flutt þannig kennslu sína á form sem nemendur geta nálgast í Canvas hvenær sem er og kennslustundir þá verið nýttar í umræður eða dýpri úrvinnslu efnisins.

Góð vinnubrögð í myndbandsgerð markast af skipulagningu, forvinnu, upptökum og eftirvinnslu sem er unnin í sex þrepum: 

 1. Hugmynd mótuð
 2. Handrit unnið
 3. Tökur út frá handriti undirbúnar
 4. Upptaka
 5. Klipping
 6. Hljóðvinna

Mikilvægt er að hæfniviðmið kennslunnar séu höfð til hliðsjónar og tryggt að myndbandið samræmist þeim. Þeim mun ítarlegra sem handritið er, þeim mun meiri líkur eru á að tökur heppnist vel. 

Hæfileg lengd á kennslumyndbandi er  6-10 mínútur. Ef þörf er á lengra myndbandi (þó að um upptöku á fyrirlestri sé að ræða) er gott að reyna að skipta efninu í fleiri en eitt myndband. 

Næst er að undirbúa tökur; ákveða staðsetningu, undirbúa glærukynningu, finna leikmuni ef þarf o.s.frv. Þegar handrit og allt sem til þarf er orðið tiltækt er að taka upp. Góð regla í myndbandi er að nota myndir eða gröf eins mikið og hægt er og stytta texta eins og mögulegt er. Sem dæmi má eingöngu birta þröskuldshugtök þegar verið er að fjalla um þau. Myndir og gröf styðja við tal og þar með aukast líkur á að nemendur tengi og nemi.

Gæta þarf vel að hljóði og lýsingu. Því betra sem hljóðið er og skýrar því betra. Snjallsímar og spjaldtölvur henta sem dæmi ekki vel til að taka upp gott hljóð. Þar eru hljóðnemar ekki stefnumiðaðir og því geta slæðst inn umhverfishljóð eða annað sem er ekki æskilegt.

Að loknum tökum á sér stað eftirvinnsla. Hún felur í sér að klippa burt óþarfa, að vinna hljóð þurfi þess, að leiðrétta liti í senum o.s.frv. 

Aðstaða til upptöku

Vilji kennarar bóka upptökuklefa í Setbergi er hægt að kynna sér þá hér. Fyrir stærri myndbandsverkefni er hægt að senda inn beiðni til fagfólks í kvikmyndagerð sem starfar í Setbergi. 

Við birtingu eða notkun myndefnis í kennsluefni er mikilvægt að hafa eftirfarandi atriði í huga:
 

 • Að myndirnar séu í hárri upplausn. Myndir í litlum gæðum eru óskýrar og þola t.d. litla stækkun.
   
 • Að  staðalmyndir séu til staðar og myndir valdar út frá staðalmyndum er varða t.d. fötlun, uppruna, litarhætti, kyn, kyngervi, kynhneigð, kynvitund, aldur, heilsufar, trúarbrögð, skoðanir, búsetu, efnahag og menningu.
   
 • Að myndir af nemendum og öðrum kennurum séu sýndar með samþykki þeirra.
   
 • Að myndirnar hæfi viðfanginu og hæfniviðmiðum með skýrum hætti.
   
 • Að fjöldi mynda hæfi viðfanginu.
   
 • Ef texti er settur yfir mynd þarf aðgæta að litatónum leturs og myndar og tryggja að texti sjáist vel.
   

Með markvissri og meðvitaðri notkun ljósmynda og annarra myndverka í samhengi við texta eða án texta er hægt að gera flókna hluti skýrari og aðgengilegri.

Ljósmyndir og önnur myndverk kunna að vera varin af höfundarétti og því er rétt að fá leyfi eða vísa til heimilda þar sem við á. Einnig má finna vefsíður sem innihalda t.d. ljósmyndir þar sem noktun er heimil. Dæmi um slíka vefsíðu er photosforclass.

Hlaðvarp (e. podcast) er ein leið af mörgum sem kennarar hafa til að setja fram kennsluefni. Kennari getur því útbúið eða gert nemendum að hlusta á eða útbúa hlaðvarp sem verkefni í námi enda er tæknin til hlaðvarpsgerðar flestum aðgengileg sem og aðstaða er til staðar t.d. í Setbergi, húsi kennslunnar til að vinna hlaðvörp (fyrir kennara).

Hlaðvarp er í einfölduðu máli aðgengileg hljóðupptaka af samtali tveggja eða fleiri einstaklinga.

Hlaðvarpsgerð er langt í frá eitthvað nýtt. Fjölmargir þættir í t.d. útvarpi byggja og hafa byggt á ofangreindu formi. Það sem telst nýtt felst í aðgengi fólks að hlaðvörpum. Hægt er að hlusta hvar og hvenær sem er, enda eru hlaðvörpin hlaðin upp á netið og þar með er opnað á aðgengi annarra.

Við hlaðvarpsgerð er gott að hafa eftirfarandi atriði í huga:

 • Að skilgreina vel umfjöllunarefnið og viðmælendur.
 • Að skilgreina vel hvers konar umfjöllun á sér stað í hlaðvarpinu. Hvernig á að ræða málin? Er það gert með samtali eða með eintali viðmælanda? Hvernig er þátturinn settur upp?
 • Að huga vel að lengd hlaðvarpsins. Hentugur tími er 20-30 mínútur. Ef tímalengdin er meiri þá er kostur að skipta varpinu upp í tvo eða fleiri hluta.
 • Að sé nemendum gert að vinna hlaðvarp þá þarf að tryggja að þeir hafi aðstöðu og tæki til verksins. Nemendur (og kennarar) þurfa aðstöðu, upptökutæki, góða hljóðnema, hljóðvinnsluforrit og aðgengi að svæði á netinu (t.d. í Canvas) til að skila hlaðvarpinu.