Endurgjöf

Í öllu námsmati er mikilvægt að nemandinn fái upplýsingar um það hvernig tókst til og hvað hefði mátt gera betur. 

Endurgjöf sem nýtist nemanda í námi

Með markvissri og vandaðri endurgjöf getur kennari staðfest að nemandi sé á réttri leið og hvatt hann áfram til að dýpka þekkingu sína enn frekar.

Það getur einnig verið ákaflega dýrmætt fyrir nemanda sem hefur ekki náð settum hæfniviðmiðum fyrir að fá útskýringu á því hverju hann þarf að bæta við sig og hvernig hann getur farið að því.

Vönduð endurgjöf byggir meðal annars á því að efla færni nemanda við  að meta eigin getu, benda þeim á leiðir til að bæta sig og stofna til samtals við nemendur um það hvernig þeir geta betur náð tökum á hæfniviðmiðum námskeiðs.

Image
Nemendur vinna að verkefni undir leiðsögn kennara

Nokkrar aðferðir við endurgjöf

Matskvarðar (e. rubrics) eru viðmið sem notuð eru til að leggja mat á verkefni nemenda. Notkun matsvarða auðveldar kennurum yfirferð verkefna og veitir nemendum leiðbeinandi endurgjöf á vinnu þeirra. 

Notkun matskvarða eykur líkur á samræmdri yfirferð verkefna, ekki síst í stórum hópum þar sem  margir koma að yfirferðinni. Þá veitir notkun matskvarða ákveðið gagnsæi fyrir nemendur þannig að þeir átta sig á því hvernig vinna þeirra er metin, ekki síst ef matskvarðar eru þeim aðgengilegir áður en þeir hefja vinnu við verkefnin og vita þannig hvaða vinnu þeir þurfa að inna af hendi til að ljúka verkefninu á viðhlýtandi hátt.

Það getur tekið tíma að útbúa góðan matskvarða en sú vinna getur bæði sparað kennara tíma við yfirferð verkefna og verið nemendum góður stuðningur í að vinna verkefni. Gátlistar og matskvarðar eru til af ýmsu tagi.

Það er hægt að nýta matskvarða við endurgjöf á verkefni í Canvas og ítarlega fjallað um þá í leiðbeiningum kennara.

Með því að láta nemendur meta verkefni annarra nemenda fá þeir dýrmætt tækifæri til að spegla eigið verkefni í því hvernig aðrir nemendur nálgast viðfangsefnið. Með því að fá þá til að meta verkefnið út frá matskvarða veita þeir öðrum nemendum endurgjöf, en skoða einnig eigið verkefni.

Þegar kennari gefur svo einkunn fyrir verkefnið getur vinnan við jafningjamatið verið grundvöllur dýpra samtals við nemendur um það hvar þeir standa gagnvart hæfniviðmiðum námskeiðsins.

Kennarar geta nýtt Canvas til að setja upp jafningjamat í verkefnum og fer matið þá fram rafrænt.

Leiðbeiningar um jafningjamat í Canvas.

Einnig er mögulegt að setja upp jafningjamat í FeedbackFruits verkfærinu í Canvas. Mun auðveldara er fyrir kennara að setja upp jafningjamat í hópverkefnum en í Canvas og kerfið sér þá um að deila verkefnum á milli hópa, sem ekki er hægt í Canvas. Valmöguleikar við uppsetningu á jafningjamati í FeedbackFruits eru mun fleiri en í Canvas og auðveldara að fylgjast með því hvernig nemendur taka þátt í matinu. 

Umsagnir sem kennarar skrifa um verkefni nýtast nemendum best ef þær eru leiðbeinandi. Með því að benda nemanda á það hvað er vel gert og hvað þarfnast lagfæringa eru dýrmætar upplýsingar, sérstaklega ef þær innihalda leiðbeiningar um það hvernig nemandinn getur gert betur.

Kennarar geta nýtt SpeedGrader í Canvas til þess að halda utan um verkefnaskil og skrá athugasemdir við verkefni, hvort sem það er heildarumsögn, eða athugasemdir sem gerðar eru beint í verkefið sem nemandinn skilaði.

Kennarar geta komið sér upp athugasemdabanka í Canvas fyrir athugasemdir sem þeir gera oft og sparað sér þannig vinnu.

Leiðbeiningar um endurgjöf með SpeedGrader.

Í SpeedGrader geta kennarar með einföldum hætti tekið upp myndbönd til að koma endurgjöf til skila. Slík endurgjöf er persónuleg og með henni er hægt að koma til skila ákveðnum tón og blæbrigðum sem er erfiðara að gera í rituðu máli. 

Reynsla kennara sem hafa gert þetta er að það skipti sérstaklega miklu máli þegar verkefni sem nemendur skila standast ekki allar kröfur sem gerðar eru að geta gert endurgjöfina svolítið persónulega og tala beint til nemenda. 

Leiðbeiningar um endurgjöf með SpeedGrader.

Kennarar geta tekið upp umsagnir um verkefni og hengt við verkefnaskil nemenda í Canvas. Þannig geta kennarar komið til skila upplýsingum sem er erfitt að koma í orð.

Þetta þykir mörgum kennurum bæði persónulegra og fyrirbyggir mögulega að nemendur misskilji eða taki athugasemdum illa.

Það er líka hægt að vera í mynd þegar upptakan er gerð.

Leiðbeiningar um endurgjöf með SpeedGrader.

Gibbs, G. (2015). 53 Powerful Ideas All Teachers Should Know About. Making feedback work involves more than giving feedback – Part 1 the assessment context. Idea Number 27, January 2015. SEDA:

Gibbs, G. (2015). 53 Powerful Ideas All Teachers Should Know About. Making feedback work involves more than giving feedback. Idea Number 28, January 2015 – Part 2 The students SEDA:

Jonsson, A. (2012). Facilating productive use of feedback in higher education. Active lerning in higher education, 14(1), 63-76. (samantekt á rannsóknum á því hvernig nemendur nýta sér eða nýta sér ekki endurgjöf).

 Nicol, D.J. & Macfarlane, D. (2006). Formative assessment and self-regulated learning: A model and seven principles of good feedback practice. Studies in higher education, 31(2), 199–218.

Nicol, D. (2010) From monologue to dialogue: improving written feedback processes in mass higher education, Assessment & Evaluation in Higher Education, 35:5, 501–517.

Nicol, D., Thomson, A. & Breslin, C. (2014) Rethinking feedback practices in higher education: a peer review perspective, Assessment & Evaluation in Higher Education, 39:1, 102-122.

Hattie, J., & Timperley, H. (2007) The power of feedback. Review of Educational Research. Vol:77 No. 1.  Accessed at

HEA Feedback toolkit (2013)

Watling,C.; Driessen,E.; van der Vleuten, C. P. M. & Lingard, L. (2014). Learning culture and feedback: an international study of medical athletes and musicians. Medical Education; 48: 713–723

William, D. (2013). Assessment: The bridge between teaching and learning. Voices from the middle, 21(2), 15-20.