Kennsluaðferðir

Til er fjöldinn allur af mismunandi kennsluaðferðum og geta flestir eflaust verið sammála um að engin ein aðferð er betri en önnur. Gott er að nota fjölbreyttar kennsluaðferðir til að koma til móts við fjölbreyttan hóp nemenda.

Að velja góða kennsluaðferð

Rannsóknir hafa sýnt að kennsluaðferðir sem stuðla að virkni nemenda eru áhrifaríkari en aðferðir þar sem kennarinn er í hlutverki miðlara. Best er að blanda kennsluaðferðum saman. 

Þetta má gera með því að nota markvissar aðferðir til þess að brjóta upp fyrirlestra, skipuleggja hópverkefni, nýta rafrænar lausnir til að byggja upp vendikennslu, leggja fyrir tilviksrannsóknarverkefni (e. case-studies) o.s.frv.  

Hér geta kennarar fundið nokkrar aðferðir sem þeir geta nýtt sér í sinni kennslu.

Image
Nemendur vinna að verkefni undir leiðsögn kennara

Fjölbreyttar kennsluaðferðir

Púslaðferðin

Markmið
Að virkja nemendur í námi og taka ábyrgð. Þeir eru búnir að kynna sér efni og kenna síðan samnemendum sínum það.

Aðferð: 
Nemendum er skipt upp í tvo hópa, heimahóp og sérfræðihóp. Kennari skiptir námsefni á milli nemenda í sérfræðihópnum og hver og einn nemandi ber ábyrgð á að kynna sér námsefnið vel. Á meðan sérfræðihópur kynnir sér efnið finnur heimahópur spurningar sem þeir vilja fá svör við. Þegar þessu er lokið kennir sérfræðihópur þeim sem eru í heimahóp það efni sem þeir kynntu sér (Jigsaw classroom, e.d.).

Myndband um Púslaðferðina

 

1, 2 og allir

Markmið
Að auka virkni, áhuga og þátttöku nemenda. Úrvinnsla námsefnis, upprifjun og könnun á þekkingu

Aðferð:
Nemendur velta fyrir sér spurningu sem kennari hefur lagt fyrir. Í fyrsta skrefinu er mikilvægt að þátttakendur beri ekki saman bækur heldur vinni sjálfstætt, þeir fá nokkrar mínútur til að velta fyrir sér spurningunni. Nemendur geta skrifa niður hugmyndir sínar eða teiknað þær upp.

Annað skref felst í því að nemendur para sig saman, tveir og tveir. Þeir ræða saman hugmyndir þeirra sem komu upp. Þeir bera saman það sem þeir skrifuðu og koma sér saman um hver sé besta, mest sannfærandi eða framúrskarandi niðurstaðan.

Í þriðja skrefi deila nemendur niðurstöðum. Eftir að tveggja manna hóparnir hafa unnið í nokkrar mínútur og komist að sameiginlegri niðurstöðu biður kennari hvern hópinn um að kynna þær fyrir öllum hinum nemendunum. Kennari spyr oft eftir hverja kynningu hvort aðrir nemendur vilji bæta einhverju við eða hafa skoðað hlutina frá öðru sjónarhorni.

Hafa þarf í huga við notkun þessar aðferða að hverju þrepi er einungis ætlað nokkrum mínútum. Þessi aðferð er margnota í mismunandi tilgangi, til dæmi tillögugerð, hugmyndasöfnun eða við notkun opinna spurninga.

 

Mottuaðferðin

Markmið:
Að stuðla að virkri þátttöku nemenda, efla samstarf og að allir fái jöfn tækifæri til að taka þátt.  Þá styrkir aðferðin sjálfstæða hugsun, samskiptahæfni, úrvinnslu efnis og miðlun þess.

Aðferð:
Mottuaðferðin er afbrigði af samvinnunámi og er bæði byggð á spjalli og ritun. Segja má að hún sé blanda þankahríðar og hugtakakorts. Hún reynist árangursrík til að fá nemendur til að dýpka þekkingu sína á ákveðnu viðfangsefni með því að ræða um það innan hópsins.

Nemendur vinna í hópum og fá A4 eða A3 blað sem kallast þá motta. Hver fyrir sig fær síðan tússlit eða penna í mismunandi lit. Þeir eru svo notaðir  til að skipta mottunni. Á miðju blaði býr einn þáttakandi til  form svo sem hring eða ferning og síðan er restinni af blaðinu skipt í jöfn hólf og það gerir hver með sínum lit svo sjáist að allir taki jafnan þátt. Hópurinn fær síðan viðfangsefni frá kennara þegar mottan er tilbúin.

Hópurinn hefur síðan tvær til þrjár mínútur til að velta efninu fyrir sér áður en allir byrja að skrifa.

Þegar kennari gefur merki þá skráir hver nemandi hugmyndir sínar í sitt hólf á mottunni og hefur til þess 5-10 mínútur.* Að því loknu skoðar hópurinn saman þær hugmyndir sem koma fram og velja til dæmis þær úr sem eru sameiginlegar. Þær eru síðan skrifaðar á miðja mottuna.

 

Snjóboltaaðferðin

Markmið: 
Að víka sjónarhorn þátttakenda á efninu og að þeir deili reynslu og skoðunum sínum með hópnum.​ Að þátttakendur læri með því að ræða saman um tiltekið efni og komist að niðurstöðu með umræðum.​

Aðferð:​
Snjóboltaaðferðin er umræðuaðferð þar sem hver og einn þátttakandi skrifar niður vangaveltur sínar um ákveðna spurningu eða efni sem verið er að ræða um á námskeiði eða í kennslustund.​

Eftir nokkrar mínútur deila tveir og tveir saman vangaveltum sínum og ræða þær í ca 5 mínútur.​

Þá koma þeir tveir saman með öðrum tveim og mynda fjögurra manna hóp þar sem allir deila sínum hugmyndum og heyra sjónarhorn annarra í u.þ.b. 10 mínútur. Þar upplifa þátttakendur ólík sjónarhorn annarra sem stundum hefur áhrif á þeirra eigin sjónarhorn.​

Þegar tíminn er búinn koma saman tveir fjögurra manna hópar og mynda þá átta manna hóp. Þá deila hóparnir því sem fram fór í umræðunum og skoðunum sínum á málefninu.​

Eftir 20 mínútur koma tveir átta manna hópar saman og mynda þá sextán manna hópa þar sem hóparnir deila aftur sínum hugmyndum og ræða það sem er ólíkt og líkt með hópunum.​

Ef allir þátttakendur eru þrjátíu og tveir í heildina þá stoppar snjóboltinn í sextán manna hópum. Þegar hóparnir hafa rætt saman þá myndast umræður með öllum hópnum.​

Þessi aðferð breytir oft skoðunum og hugmyndum þátttakenda um það málefni eða spurningu sem verið er að fjalla um. Þegar allir skrifa niður eigin skoðanir og ræða þær svo í hópum sem stækka sífellt fá allir að heyra skoðanir hvers annars og sjónarhorn þátttakenda víkkar.

 

Hóphugarkort

Markmið
Að nýta sem best þekkingu hvers einstaklingins fyrir sig og svo hópsins sem heild, fá það besta fram frá hverjum og einum og búa svo til eitt hugarkort í sameiningu.

Aðferð:
Gögn: Blýantur/penni og blöð

Hver og einn byrjar á að útbúa sitt hugarkort með því að skrifa niður allar hugmyndir sínar og er það gert til að tryggja að allar hugmyndir hópsins fái að njóta sín. Eftir að hver og einn hefur útbúið sitt hugarkort er eitt stórt hugarkort fyrir hópinn búið til. Hópurinn skoðar kortið í sameiningu á gangrýnin hátt og finnur niðurstöður um eitt hugarskort sem allir þátttakendur eru sammála að sé besta útgáfan. En mikilvægt er að passa upp á gagnrýni sé aðeins undir lokin til að koma í veg fyrir að þátttakendur dragi sig ekki í hlé.                                                                                                                                          
Hópahugarkort er kjörin í notkun til þess að rifja upp og skipuleggja hugmyndir sínar. Þetta skapar umræður ásamt því að hjálpar þátttakendum að yfirfæra þekkingu heim á daglegt líf.

 

Lausnarleitarnám

Markmið:
Að stuðla að sjálfstæði í námi og að efla þátttakendur í að takast á við vandamál í raunveruleikanum.

Aðferð:
Lausnaleitarnám byggir á umræðum hópa sem leiðir til lausnar á ákveðnum raunverulegum vandamálum. Þátttakendum er skipt í 5 – 8 manna hópa og er leiðbeinandinn/kennarinn aðeins til þess að leiðbeina um aðferðina en ekki til þess að finna réttu lausnina. Þátttakendur kryfja málefni og nýta reynslu sína og þekkingu til þess að öðlast dýpri skilning á málefninu en einnig þurfa þeir að greina það sem þeir vita ekki og þurfa þá að afla sér viðbótarþekkingar. Mikilvægt er að efnið sé í tengslum við flókið og raunverulegt  vandamál. Með því að hafa það óvenjulegt, ögrandi eða hæfilega flókið vekur það áhuga á umræðum um vandamálið sem leiðir þátttakendur að þeirri lausn sem þeir telja rétta.
Hvert vandamál sem lagt er fyrir í lausnaleitarnámi inniheldur nokkur skref:

Lesa um vandamálið og finna út hvort allir hafi skilið það á svipaðan hátt. Ákveða hvort um vandamál sé að ræða

Greina vandamálið nákvæmlega.

Hópurinn skoðar hvaða þekking er til staðar. Gott að nota þankahríð (brainstorming) til þess, ekkert rétt eða rangt svar.

Finna bestu leiðir til að afla upplýsinga

Finna hugsanlega lausn á vandamálinu

Hver og einn leitar lausna í bókum, á netinu eða með því taka viðtöl og skrifar niður þá þekkingu sem hann hefur aflað.

Hver og einn kynnir þá lausn sem hann hefur fundið. Umræður um vandamálið og lausnir sem aflað hefur verið leiða svo til lausna.

 

Fiskabúrið

Fiskabúrsaðferðin gengur út á það að nemendur tjái skoðanir sínar varðandi eitthvað ákveðið umræðuefni og aðrir fylgjast með því hvaða rökum þeir beita og geta tekið þátt í umræðunni liggi þeim mikið á hjarta. Fiskabúrsaðferðin er skemmtileg aðferð sem kemur hreyfingu á umræðu og tengsl innan nemendahópsins. 
 

Fjórum til átta stólum er raðað í hring, fiskabúr, og nemendur valdir til að setjast á þá. Nemendurnir eiga síðan að ræða ákveðið mál, vera með eða á móti einhverju umræðuefni o.s.frv. Fyrir utan standa - eða sitja á öðrum stólum, hinir nemendurnir og fylgjast með umræðunni sem fram fer inni í fiskabúrinu. Finni þeir sem fyrir utan standa sig knúna til að segja eitthvað mega þeir ,klukka" einn úr fiskabúrinu og setjast inn í hringinn í hans stað. 

Spyrja má þann hluta nemenda sem fyrir utan er hvað þeim fannst og hvort þeir vilji bæta einhverju við. Þetta tekur allt mið af hópnum, markmiðinu með fiskabúrinu og umræðuefninu. 

Mikilvægt er að kynna aðferðina vel fyrir nemendum áður en farið er af stað. Ágætt er einnig að fara yfir helstu reglur í umræðum s.s. að einoka ekki umræðuna, fá aðra nemendur með t.d. með því að spyrja spurninga, tengja við lesefni námskeiðsins, tengja samfélaginu og því sem er að gerast þar og færa rök fyrir máli sínu. 

Spurning er hvort allir eigi að taka þátt að endingu? Ef til vill eru sumir nemendur undirbúnir og aðrir ekki og því mætti hugsa sér að yfir misserið myndu allir nemendur taka virkan þátt í fiskabúrinu en fengju að vera á hliðarlínunni í önnur skipti. 

 

Innlegg nemenda i upphafi kennslu

Kennari biður sjálfboðaliða að segja frá meginatriðum lesefnis dagsins í upphafi tíma, kennari bregst við og má nýta áfram til að biðja nemendur að velta fyrir sér hvernig beita á viðfangsefninu eða tengja það við eigin reynslu.

Einnig má hugsa sér að ,,sérfræðihópar" námsefnis skiptist á að fjalla um meginatriði námsefnisins. Þannig verða allir ábyrgir fyrir því að lesa og kynna sér námsefnið. T.d. má skipta hópunum upp eftir stafrófsröð.

 

Samantekt nemenda í lok tíma

Með því að enda kennslustund á því að fá nemendur til taka saman hver aðalatriði tímans voru eða hvað þeir vilja fá frekari útskýringar á fæst góð yfirsýn yfir það hvort markmiðum kennslustundar var náð og hvað gæti þurft að leggja áherslu á næst.

Fáið fjóra til fimm nemendur til að draga saman meginatriði kennslustundarinnar og koma til kennara og kennari getur svo deilt á Canvas, t.d. í umræðuþræði þar sem nemendur geta gert athugasemdir eða rætt niðurstöðurnar á milli kennslustunda.

Þetta má líka gera á einstaklingsgrunni og þá getur verið gott að nota rafræn tól eins og mentimeter. 

 

Gruggið

Gruggið (e. muddiest point) er leið til að komast að því hvað nemendum finnst erfiðast í námsefninu en það getur komið kennara á óvart hvaða þættir kennslustundarinnar reynast nemendum erfiðastir.

Nemendur eru beðnir um að skrifa niður hvað þeim fannst erfiðast eða þeir skildu ekki í tímanum. Hér má nota rafræna miðla eins og socrative.com, padlet.com, kahoot.com, mentimeter.com eða Canvas. Einnig má nýta sér gula miða sem nemendur líma þá við hlið dyranna um leið og þeir ganga út - eða þá safna saman í lok tímans.

Kennari fer yfir ,,miðana" eftir tímann og fjallar um þá í byrjun næsta tíma eða á námsumsjónavef.

 

Kliðfundur

Kliðfundur (e. buzz group) er samtalsaðferð sem gjarnan er beitt í kennslu og nýtist vel til að ná fram sjónarhornum nemenda í stórum hópum jafnt sem litlum.

Nemendur eru látnir ræða ákveðið umræðuefni, spurningu eða staðhæfingu og áréttað að allir eigi að tjá sig. Við þetta myndast kliður (e. buzz) í kennslustofunni og nemendur þurfa jafnvel að færa sig nær hveröðrum til að heyra hvað hinir hafa að segja.

Þegar kliðurinn minnkar er réttur tími til að stoppa umræðurnar og fá fram niðurstöður ef það er það sem við viljum gera. Ef við stoppum ekki kliðinn á þessum tíma er hætt við að önnur umræða (jafnvel óskyld) fari af stað. 

Einnig má hugas sér að segja fyrirfram hversu langan tíma nemendur eiga að ræða saman um efnið og fylgjast svo með og stoppa umræðuna ef hún fer á villigötur.

Á kliðfundi náum við fram allskonar sjóarmiðum og hann getur því verið góður til að koma af stað frekari umræðu eða til að fá nemendur til að tala sig niður á niðurstöður.

Fjöldi þátttakenda er mismunandi, frá tveimur og upp í átta.