Viðmið um vinnuálag

Stærð námskeiða er mæld í ECTS einingum (European Credit Transfer System). Um er að ræða alþjóðlegt kerfi kennt við ítölsku borgina Bologna sem notað er til að meta nám milli háskóla. Kerfið var tekið upp í Háskóla Íslands veturinn 2008-2009.

Hvernig er vinnuálag metið

Að baki hverri einni ECTS einingu á að liggja sem nemur 25-30 klukkustunda heildarvinna. Þar á meðal er t.d. mæting í kennslustundir, lestur, verkefnavinna o.fl. Fullt nám á hverri önn er 30 ECTS einingar og eitt námsár er þannig 60 einingar. Talan 60 er því grunntala hvers námsárs. Miðað er við að eitt ár í háskóla sé á bilinu 1500-1800 vinnustundir. Engu skiptir hve margar kennsluvikur eru í námskeiði en einingarnar eiga að segja til um hve mikla vinnu meðalnámsmaður þarf að leggja á sig til að ná tilteknum áfanga.

Með samræmingu sem þessari er mun einfaldara fyrir nemendur að færa sig á milli háskóla. Þannig ætti að vera tryggt að nemendur hvaðanæva af hafi lagt að jafnaði jafnmikið á sig til að öðlast ákveðna menntun. Auk þess ættu nemendur að gera sér betur grein fyrir því hve mikla vinnu þarf að inna af hendi í hinum mismunandi háskólum. Vissulega er þetta ákveðið meðaltal og eins og með margt annað enginn heilagur sannleikur. Sumir þurfa að verja meiri tíma í námið en aðrir.

 

Image
Nemendur hlýða á fyrirlestur kennara

Þó svo að þessi viðmið séu nokkuð skýr eru fleiri atriði sem hafa áhrif á upplifun nemenda af vinnuálagi í námskeiðum. Hér eru nokkur atriði sem kennarar ættu að hafa í huga: 

  • Vinnutími, sem miðaður er við lesefni, felur í sér allan tíma nemandans, frá því hann mætir í skólann að hausti, skoðar lesefnið eða kaupir í bókabúð og þar til hann stendur skil á því í prófi eða með öðrum hætti í námsmati. Inni í þessu eru kaffitímar, umræður og spjall í frímínútum við skólafélaga o.s.frv.
  • Vinnutími, sem miðaður er við lesefni, felur líka í sér allan tíma nemanda kringum námsmatið, þar með þann tíma sem fer í að taka próf og undirbúa sig fyrir það – og þá vinnu sem fer í að  skrifa ritgerð eða önnur verkefni sem byggjast á umræddu námsefni.  Ólíkar tegundir námsmats eru lagðar að jöfnu í tímaútreikningi.
  • Reikna má út þá vinnu, sem eðlilegt er að fari í tiltekið verkefni, á tvennan hátt:
    • miðað við vægi þess í námsmati
    • miðað við lesefni sem verkefnið byggist á.

Þessar tvær aðferðir ættu að skila svipaðri niðurstöðu, en í útreikningi á vinnuálagi á námskeiði á bara að nota aðra aðferðina, því annars er verið að telja sömu vinnuna tvisvar.

Ef mikið ber í milli er ástæða til að skoða hvort rétt er reiknað. Á 10e námskeiði getur 20% verkefni verið tvöfalt stærra en á 5e námskeiði (segir sig sjálft).

Dæmi: Kennari sem er vanur að leggja fyrir 20% verkefni á 10e námskeiði hefur hug á að nota sama verkefni óbreytt á 5e námskeiði. Þá þarf verkefnið að gilda 40%. 

Edda Ruth Hlín Waage hefur gert ítarlega rannsókn um vinnuálag. Meginniðurstaðan er sú að vinnuálag er ekki hægt að skoða eingöngu sem tíma, heldur er það flóknara fyrirbæri sem samanstendur jafnt af hlutlægum og mælanlegum þáttum sem og huglægari þáttum sem hafa ýmist að gera með námsumhverfið, námsefnið og persónulega þætti nemandans og að allt sé þetta á einhvern hátt undirorpið upplifun nemandans. 

Hægt er að lesa um þennan þátt vinnuálags í greinum Eddu í Tímariti Kennslumiðstöðvar: 

Einnig má benda á umfjöllun Eddu í Kennsluvarpi Kennslumiðstöðvar HÍ: Þarf að endurhugsa vinnuálag

Árið 2011 skrifaði Baldur Sigurðsson, prófessor á Menntavísindasviði, ítarlega grein um vinnuálag og upplifun nemenda af því: 

Smelltu hér til þess að lesa greinina: Mæling náms í ektum - undirstaða gæðastarfs?

Að auki er hér excelskjal sem getur nýst kennara við að reikna út vinnuálag í námskeiði miðað við ECTS einingar. Skjalið er til viðmiðunar. 

Venjulegt misseri í Háskóla Íslands er 15 til 17 vikur að meðtöldum tveggja vikna prófatíma. Ef kennari lýkur námskeiði með verkefnaskilum áður en próf hefjast styttist námstíminn í 13 til 15 vikur.

Í einstaka námi er gert ráð fyrir nokkrum vikum á vettvangi og styttist þá kennslutíminn sem því nemur.

Á tíu eininga námskeiði er gert ráð fyrir að stúdentar leggi fram 250 til 300 stunda vinnu. Á myndinni hér fyrir neðan sést hvaða áhrif lengd námstíma hefur á vinnuálag í slíku námskeiði. Nýti kennari 17 vikur á misseri er vinnuálagið 15-18 vinnustundir á viku.

Ramminn afmarkar þann fjölda vikna sem algengast er að kennarar nýti. Ef kennari notar ekki tveggja vikna prófatíma á 15 vikna misseri fer vikulegt vinnuálag í 19-23 stundir. Ef misserið styttist enn frekar vegna þriggja vikna vettvangsnáms þurfa stúdentar að vinna 25-30 stundir á viku að jafnaði til að skila sömu vinnu á tíu vikum.

Tengsl vinnuálags og leiðsagnarmats, eftir Eddu R.H. Waage, lektor. Grein í Tímariti Kennslumiðstöðvar HÍ, 2020.

Hvernig má túlka niðurstöður kennslukönnunar um vinnuálag nemenda eftir Eddu R. H. Waage, lektor. Grein í Tímariti Kennslumiðstöðvar HÍ, 2017

Þarf að endurhugsa vinnuálag: Umfjöllun um vinnuálag í Kennsluvarpi Kennslumiðstöðvar HÍ

Mæling náms í ektum - undirstaða gæðastarfs? eftir Baldur Sigurðsson

 

Að auki má benda á eftirfarandi greinar:

Kember, D. (2004). Interpreting student workload and the factors which shape students‘ perception of their workload. Studies in Higher Education, 29(2), 165-184.

Kyndt, E., Berghmans, I., Dochy, F. og Bulckens, L. (2014). ‘Time is not enough.’ Workload in higher education: A student perspective. Higher Education Research & Development, 33(4), 684-698.