Kennslumálasjóður 2019

 

Þróun kennsluhátta og efling kennslu í Almennri lögfræði

Umsækjandi: Hafsteinn Þór Hauksson
Deild: Lagadeild

Lýsing: Almenn lögfræði er umfangsmesta námskeið Lagadeildar. Verkefnið gengur út á að nýta blandaða kennslu í faginu, þ.e. að nýta rafrænar leiðir til þess að styðja við fyrirlestra og umræðutíma með því að  búa til myndbönd um efni sem nemendur þurfa að ná góðum tökum á (svonefnd þröskuldshugtök) og rafræn próf þar sem nemendur geta metið stöðu sína reglulega.

 

Að virkja fyrsta árs nema í Stjórnun

Umsækjandi: Sigurður Guðjónsson
Deild: Viðskiptafræðideild

Lýsing: Léleg þátttaka fyrsta árs nemenda er algengt vandamál. Hefðbundnar aðferðir (t.d. próf í kennslustund) tryggir þátttöku, en eykur ekki áhuga nemana (e. self-motivation). Þetta verkefni snýst um að auka þátttöku og áhuga fyrsta árs nema í stærstu námskeiðum viðskiptadeildar (yfir 200 nemar) með því að fá þá til að taka virkan þátt í kennslustund, nota internetið og gefa virka endurgjöf.

Lokaskýrsla 

 

Inngangur að stjórnsýslurétti með raunhæfum verkefnum

Umsækjandi: Trausti Fannar Valsson
Meðumsækjandi: Hafsteinn Þór Hauksson
Deild: Lagadeild

Lýsing: Laganemar þurfa hvorutveggja að tileinka sér þekkingu á lögum og hæfni til að beita þeim. Verkefnið lýtur að síðari þættinum og felst í útgáfu rits sem geymir yfirliti yfir fræðigreinina, aðferðafræði og raunhæf dæmi (problems).

 

Gender goes viral - English videos for applied gender studies 

Umsækjandi: Þorgerður J Einarsdóttir
Meðumsækjandi: Finnborg Salome Steinþórsdóttir
Deild: Stjórnmálafræðideild

Lýsing: Verkefnið „Gender goes viral“ tengist námskeiðinu „Hagnýting jafnréttisfræða: frá bróðurparti til systkinalags“ sem hefur verið kennt í kynjafræði síðan 2005. Námskeiðið er stað- og fjarkennt og vinna nemendur með  raunveruleg verkefni í samstarfi við aðila innan og utan HÍ. Með myndböndum á ensku um efnisþætti námskeiðsins er áformað að færa enn frekar út kvíarnar og gera námskeiðið aðgengilegt erlendum nemendum.

Lokaskýrsla

 

Gerð efnafræðiáfanga fyrir heilbrigðisvísindi

Umsækjandi: Björn Viðar Aðalbjörnsson 
Meðumsækjandi: Þórhallur Ingi Halldórsson, Bryndís Eva Birgisdóttir
Deild: Matvæla- og næringarfræðideild

Lýsing: Verkefnið snýr að því að búa til efnafræði áfanga sem tengir efnafræði raunhæft við matvælafræði og heilbrigðisvísindi. Slíkt námskeið sem þannig snýr að þörfum matvæla- og næringarfræðideildar, og getur gagnast öðrum námsleiðum heilbrigðisvísindasviðs. Áfanginn verður skylduáfangi á fyrsta ári námsleiða Matvæla- og næringarfræðideildar. Áhersla verður á þverfræðilega nálgun og fjallað um efnafræði  frá sjónarhorni heilbrigðisvísinda -bæði í dæmum og fyrirlestrum.

 

Heilarafritun: Samþætting kennslu og rannsókna

Umsækjandi: Heiða María Sigurðardóttir 
Meðumsækjandi: Árni Kristjánsson, Ragnar Pétur Ólafsson, Guðmundur Skarphéðinsson, Fanney Þórsdóttir, Þór Eysteinsson
Deild: Sálfræðideild

 

Lýsing: Beðið er um styrk til að fjármagna að hluta kaup á heilarafritunarbúnaði (electroencephalograph, EEG). Ætlunin er að nota tækið í kennslu og rannsóknum sem og í samþættingu kennslu og rannsókna á sviði sálfræði og taugavísinda við Háskóla Íslands og skapa ný tækifæri fyrir nemendur til að læra um og kynnast þessum sviðum af eigin raun. Verkefnið er í samræmi við stefnu Háskóla Íslands, HÍ21, þar sem gert er ráð fyrir að deildir og námsleiðir samþætti markvisst rannsóknir og kennslu.

Lokaskýrsla

 

Námsmat í klínísku námi; innleiðing rafræns viðmóts

Umsækjandi: Kristín Briem
Deild: Læknadeild, sjúkraþjálfun

Lýsing: Markmiðið er að halda áfram með verkefni sem hófst á síðasta ári. Nú hefur nýtt matstæki á þekkingu, leikni, og hæfni nemenda tengt klínísku námi í sjúkraþjálfun verið tekið í notkun. Seinni hluti verkefnis felst í þýðingu og innleiðingu á rafrænu kennslu-/námsviðmóti og gagnabanka, sem mun nýtast kennurum, nemendum og umsjónaraðilum klínísks náms.

Lokaskýrsla

 

Gerð kennsluefnis um notkun ítarlegra viðtala við þróun og þýðingu spurningalista

Umsækjandi: Ragnhildur Lilja Ásgeirsdóttir
Deild: Sálfræðideild

Lýsing: Spurningalistar eru mikið notaðir við Háskóla Íslands. Margar leiðir eru til að meta gæði spurningalista, m.a. að framkvæma ítarleg viðtöl til að kanna hvernig svarendur skilja spurningar og svara þeim. Skortur er á kennsluefni um ítarleg viðtöl sem er sérsniðið að íslenskum aðstæðum og er markmið þessa verkefnis að skrifa aðgengilega grein sem nýtist í kennslu við Háskóla Íslands. 

 

Tvímála íðorðasafn á sviði jarðfræði, grasafræði og dýrafræði

Umsækjandi: Ásdís Rósa Magnúsdóttir
Meðumsækjandi: Rósa Elín Davíðsdóttir
Deild: Mála- og menningardeild

Lýsing: Markmið verkefnisins er að útbúa íðorðasafn milli íslensku og frönsku á sviði jarðfræði, grasafræði og dýrafræði. Byggt er á orðaforða úr orðabókargrunni sem notaður er við gerð íslensk-franskrar veforðabókar (LEXÍU). Safnið verður tilbúið í júlí 2019 og mun nýtast nemendum og starfsmönnum á viðkomandi námsbrautum en einnig öðru fagfólki, þýðendum og leikmönnum. Safnið mun einnig nýtast við gerð íslensk-franskrar veforðabókar.

Lokaskýrsla 

 

Hvað er málið?

Umsækjandi: Gísli Hvanndal Ólafsson
Meðumsækjandi: Sigríður Kristinsdóttir, Stefanie Bade, Vanessa Isenmann og Uta Reichardt
Deild: Íslensku- og menningardeild

Lýsing: Gerð hlaðvarpsþátta ásamt stuðningsefni á færnistigi A2 í íslensku sem öðru máli,  þar sem rannsóknir í menntavísindum og annarsmálsfræðum eru til grundvallar sem og rannsóknir á notkun hlaðvarps í kennslu en þær hafa sýnt fram á það að notkun hlaðvarps bætir kunnáttu nemenda og styður á sama tíma sjálfstæði þeirra í námsferlinu (Alm 2013).

 

Endurskoðun námskrár í táknmálsfræði og táknmálstúlkun 

Umsækjandi: Rannveig Sverrisdóttir
Deild: Íslensku- og menningardeild

Lýsing: Verkefnið „Endurskoðun og þróun námskrár námsgreinarinnar Táknmálsfræði og táknmálstúlkun“ byggir á rýnihópaviðtölum sem tekin voru á árinum 2016-2018. Markmiðið nú er að greina þemu viðtalanna til að fá svör við því hvernig námsgreinin geti betur svarað þörfum vettvangsins og um leið staðið vörð um þau gæði og kröfur sem gerð eru til háskólamenntunar, og birta í endurskoðaðri námskrá.

Lokaskýrsla

 

Handbók um ritlist

Umsækjandi: Rúnar Helgi Vignisson
Deild: Íslensku- og menningardeild

Lýsing: Handbók um ritlist er ætlað að svara knýjandi þörf fyrir kennsluefni í ritlist á háskólastigi. Í handbókinni verður farið í öll helstu atriði sem lúta að gerð og byggingu lausamálstexta, s.s. örsagna, smásagna, nóvella, skáldsagna og sannsagna. Fjallað verður um ritunarferlið og almennt verklag við ritun auk ýmissa tæknilegra atriða. Bókin mun taka mið af íslenskum skírskotunarheimi.

 

Sögur fyrir þá sem leggja stund á íslensku sem annað mál 

Umsækjand: Sigríður D. Þorvaldsdóttir
Meðumsækjandi: María Anna Garðarsdóttir og Karítas Hrundar Pálsdóttir
Deild: Íslensku- og menningardeild

Lýsing: Frumsamdar sögur eftir Karítas Hrundar Pálsdóttur, meistaranema í ritlist, svara aukinni eftirspurn eftir bókmenntatextum fyrir fullorðið fólk sem lærir íslensku sem annað mál. Sögurnar eru fjölbreyttar að innihaldi en allar á einfaldri íslensku. Þær verða búnar undir útgáfu, flokkaðar eftir getustigi og þemum og kennsluleiðbeiningar samdar. Verkefnið stuðlar að auknu læsi á íslensku og íslenska menningu.

Lokaskýrsla

 

Listasafn Háskóla Íslands. Kennslutæki, rannsóknir, miðlun og varðveisla 

Umsækjandi: Æsa Sigurjónsdóttir
Meðumsækjandi: Kristján Steingrímur Jónsson, forstöðumaður Listasafns Háskóla Íslands
Deild: Íslensku- og menningardeild

Lýsing: Verkefnið Listasafn Háskóla Íslands. Kennslutæki, rannsóknir, miðlun og varðveisla markar upphaf að nýtingu Listasafns Háskóla Íslands sem kennslutækis innan skólans. Markmiðið með verkefninu er að kynnast skipulagi og utanumhaldi tveggja framsækinna háskólalistasafna í Bandaríkjunum: Florida State University Museum of Fine Arts, Tallahassee í Flórída og Yale University Art Gallery í New Haven. Sérstaklega verður hugað að hvernig megi stuðla að aukinni þátttöku og virkni nemenda, starfsfólks og þverfaglegu samstarfi innan skólans.

Lokaskýrsla

 

Textíl- og neytendafræði: Neysla, nýting og nýsköpun 

Umsækjandi: Ásdís Ósk Jóelsdóttir
Deild: Deild faggreinakennslu

Lýsing: Textíl- og neytendafræði: Neysla, nýting og nýsköpun  - að gera kröfur, kaupa minna, velja vel, endurhugsa, endurnota, endurnýta og skapa nýtt. Innihaldið snýr að lífsstíl og neysluvenjum nemenda með áherslu á Heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna um sjálfbæra þróun og umhverfisvitund sem og neytendalæsi, endurnýtingu og nýsköpun. Markmiðið er að kennarar nýti námsefnið á ýmsa vegu eftir aldri og getu nemenda og áherslum í verkefnavali.

Lokaskýrsla

 

Samstarf við vettvang 

Umsækjandi: Guðbjörg Pálsdóttir
Meðumsækjandi: Lilja M. Jónsdóttir
Deild: Deild faggreinakennslu

Lýsing: Sótt er um styrk til þróunar vettvangsnáms grunnskólakennaranema vegna hugmynda um launað starfsnám kennaranema. Þróa þarf samstarfslíkan milli þriggja aðila, þ.e. kennaranema, leiðsagnarkennara á vettvangi og háskólakennara. Þessi skipan vettvangsnáms hefur í för með sér að efla þarf samstarf og styðja leiðsagnarkennara til að skapa ramma um vettvangsnámið og meta frammistöðu kennaranema. Styrkur yrði notaður til að halda vinnustofur með þessum þremur aðilum og skapa háskólakennurum tækifæri til að taka þátt í leiðsögn nema á vettvangi og styðja leiðsagnarkennara í starfi.

Lokaskýrsla

 

Raddir margbreytileikans: sögur úr skólastarfi

Umsækjandi: Hanna Ragnarsdóttir
Meðumsækjandi: Samúel Lefever, Edda Óskarsdóttir
Deild: Deild menntunar og margbreytileika

Lýsing:  Kennslubókin Raddir margbreytileikans: sögur úr skólastarfi inniheldur safn af reynslusögum tengdum skólastarfi sem byggjast á rannsóknargögnum og niðurstöðum íslenskra rannsókna. Tilgangur bókarinnar er að styðja kennara og aðra við að ígrunda nám og starf í skóla margbreytileikans. Sögunum í bókinni er ætlað að varpa ljósi á raunverulegar aðstæður og hvernig vinna má úr ýmsum tækifærum og áskorunum sem upp koma í skólastarfi.

 

Stafrænt námsefni til vinnulagskennslu á Félagsvísindasviði 

Umsækjandi: Margrét Sigrún Sigurðardóttir
Deild: Viðskiptafræðideild

Lýsing: Markmið verkefnisins er að þróa stafrænt námsefni til notkunar í vinnulagskennslu á Félagsvísindasviði. Færni í vinnulagi félagsvísinda er mikilvæg þar sem sú hæfni sem nemendur tileinka sér í vinnulagi hefur áhrif á frammistöðu í öllu áframhaldandi námi grunnnema. Vinnulag er einnig með fyrstu námskeiðum sem flestir grunnnemar taka og skiptir því miklu að námsefni sé gott og kennarar fái stuðning við þróun kennsluhátta í vinnulagsnámskeiðum. Námsefnið sem búið verður til í verkefninu tekur mið af því að vera nýtilegt í blönduðu námi og samanstendur af röð myndskeiða fyrir hvern námsþátt vinnulagskennslu, stafrænum verkefnum og könnunarprófum. Að verkefninu loknu verður efnið aðgengilegt öllum nemendum og kennurum Háskóla Íslands.

Lokaskýrsla

 

Kennslumyndbönd fyrir verklega kennslu og rannsóknanám í lyfjafræði 

Umsækjandi: Már Másson
Deild: Lyfjafræðideild

Lýsing: Í verkefninu verða framleidd kennslumyndbönd fyrir notkun tækjabúnaðar og ýmsar rannsóknarðferðir í lyfjafræði. Ráðnir verða tveir nemendur í lyfjafræði sem munu sjá um að taka upp, hljóðsetja og klippa myndböndin með aðstoð kennara og rannsakenda við Lyfjafræðideild. Stefnt er að því að framleiða allt að 50 myndbönd sem verða nýtt í verklegri kennslu og við þjálfun rannsóknanámsnema.

Lokaskýrsla (áfangaskýrsla)

 

MA in Historical Archaeology / International fieldschool 

Umsækjandi: Orri Vésteinsson
Deild: Sagnfræði- og heimspekideild

Lýsing: Verkefnið felst í að endurskipuleggja meistaranám í fornleifafræði við Háskóla Íslands með það fyrir augum að fjölga erlendum nemendum og gera meistaranámið að grunnstoð kennslu í fornleifafræði.  Námið verður kynnt sem meistaranám í sögulegri fornleifafræði og unnið að undirbúningi alþjóðlegs vettvangsskóla sem verður aðalaðdráttarafl og hryggjarstykki hins nýja fyrirkomulags.

Lokaskýrsla

 

Undirbúningskönnun fyrir nýnema Verkfræði- og náttúruvísindasviðs

Umsækjandi : Sigdís Ágústsdóttir, f.h. Verkfræði- og náttúruvísindasviðs

Lýsing: Markmið verkefnisins er að veita verðandi nemendum tækifæri og vettvang til að kanna færni sína og þekkingu í þeim atriðum sem talið er að séu æskileg við upphaf náms á Verkfræði- og náttúruvísindasviði, sem og að efla færni sína og þekkingu áður en eiginlegt nám við sviðið hefst. Tilgangur verkefnisins er að draga úr ónauðsynlegu brottfalli nemenda á fyrsta misseri.