Erindi erlendra fræðimanna á vegum Kennslumiðstöðvar í nóvember og desember 2024
Í nóvember og desember síðastliðnum fengum við hjá Kennslumiðstöð þrjá erlenda fræðimenn í heimsókn til að halda málstofur og vinnustofur fyrir starfsfólk Háskóla Íslands og þar með að stofna til samtals við kennara okkar um menntun í umbreyttum heimi, algilda námshönnun og virkar kennsluaðferðir.
Mánudaginn 25.nóvember 2024 var prófessor Martin Bean með málstofu með titilinn "Umbylting menntunar: Að grípa tækifærin í umbreyttum heimi". Martin Bean er framsýnn forystumaður um mótun framtíðar menntastofnana og atvinnugreina og hefur verið í fararbroddi í umfjöllun um „truflandi“ menntun (e. disruptive education) og þær áskoranir og þau tækifæri sem felast í slíkri menntun fyrir háskólastarf.
Fimmtudaginn 5. desember 2024 var síðan prófessor Thomas Tobin með vinnustofu með titilinn "Að ná til allra og að kenna öllum með algildri námshönnun (Universal Design for Learning)". Thomas Tobin er einn af stofnendum Kennslumiðstöðvarinnar við Wisconsin-Madison háskólann og er jafnframt alþjóðlega þekktur fræðimaður, höfundur og fyrirlesari um tæknistutt nám, þá sérstaklega höfundarrétt, mat á kennslu, akademísk heilindi, aðgengi og algilda námshönnun (UDL Universal Design for Learning).
Að lokum hélt Dr. Juan Pablo Mora, dósent í málvísindum við Háskólann í Sevilla vinnustofu um virkar kennsluaðferðir mánudaginn 16.desember 2024 þar sem sem kynntar voru nýstárlegar kennslufræðilegar nálganir til að takast á við samfélagslegar áskoranir nútímans. Dr. Mora sagði meðal annars frá alþjóðlegu verkefni sem nemendur hans hafa tekið þátt í á undanförnum árum, með sérstakri áherslu á RASDELE verkefnið. Verkefnið snýst um spænskukennslu fyrir kennara og nemendur í grunn- og framhaldsskólum í flóttamannabúðum Sahrawi arabíska lýðveldisins (SADR) í Tindouf, Alsír.
Erindin voru öll í senn mjög áhugaverð, hugvekjandi, innblástur og vöktu upp líflegar umræður.