Skrásetning viðmiða um kennsluaðstöðu HÍ

Texti

Háskóli Íslands vinnur nú, með víðtæku samráði við háskólaborgara, að skrásetningu samræmdra viðmiða um uppsetningu, notkun og rekstur þeirrar aðstöðu sem boðin er til kennslu. Viðmiðin ná meðal annars til húsnæðis, húsgagna, tæknibúnaðar, og hljóðvistar. 

Útbúin verður handbók sem lýsir möguleikum og fyrirkomulagi kennsluaðstöðu og samræmir þau ferli sem felast í notkun og rekstri.  

Eftir að handbókin kemur út verður hún grunnur að vinnu við endurbætur, uppbyggingu og rekstur kennslurýma HÍ og mun auðvelda starfsfólki að nýta kennslurými sem best.  

Fyrsti hluti verkefnisins er langt á veg kominn, búið að safna athugsemdum frá nemendum og starfsfólki með opinni samráðsgátt og vinnustofum. 

Mynd
Image
Nemendur á vinnustofu um framtíð kennsluaðstöðu HÍ skrá hugmyndir sínar.

360° sýn á kennsluaðstöðu og þróun hennar

Ein af helstu niðurstöðum vinnunar sem búin er liggur í víðari sýn á þarfir og óskir háskólasamfélagsins. Í öllum gögnum sem safnað hefur verið kemur fram skýr vilji til þess að upplifun af nýtingu kennsluaðstöðunnar byggi á fjórum meginstoðum: Rými, tækni, fjölbreytileika og aðgengileika. 

Skýringarmynd af þeim þáttum sem skilgreina gott kennslurými

Með þessu er átt við að þegar rými eru endurhönnuð, endurnýjuð eða ný rými búin til, þarf að horfa til allra þessara þátta án þess að notendur rýmisins þurfi að átta sig á því hvaða deild eða hvaða starfsfólk sér um hvern lið. 

Í nútíma kennsluumhverfi þurfa rými að vera sveigjanleg, en þó þannig að notendur geti gengið að stöðluðum búnaði, sem virkar. Ef eitthvað kemur upp á þarf að vera auðvelt að sækja þjónustu, hvort sem hún snýr að uppröðun í kennslurými, tækninni eða aðgengismálum. 

Næstu skref eru að útfæra verkferla og draga upp mynd af husganlegum rýmum sem uppfylla þessa sýn.

Á haustmisseri 2022 var verkefnið kynnt á deildarfundum og samráðsgátt opnuð. 208 athugasemdir frá nemendum, kennurum og öðru starfsfólki bárust. 

Til þess að vinna úr þeim athugasemdum og ná enn betur utan um verkefnið voru fengnir ráðgjafar frá Arcur, ráðgjafarfyrirtæki, til þess að greina gögnin og halda vinnustofur með hópum, nemenda, kennara og annarra starfsmanna til þess að fá dýpri umræðu um þær hugmyndir sem bárust í gegnum samráðsgáttina. 

 

Vinnustofa nemenda var haldin 3. nóvember á Hótel Natura og alls tóku 32 nemendur þátt sem var skipt í hópa á meðan á vinnustofunni stóð.

Í upphafi veltu nemendur því fyrir sér hvað væri ásættanlegt í núverandi aðstöðu, hverju þyrfti nauðsynlega að breyta og hvaða breytingar þyrfti að innleiða. 

Hver hópur kynnti svo niðurstöður umræðunnar á sínu borði og í kjölfarið fóru fram líflegar og skemmtilegar umræður. 

 

 

 

Seinni hluta vinnustofunnar veltu nemendur því fyrir sér hvað þyrfti að breytast á næstu misserum til þess að skrifaðar yrðu fréttir um fyrirmyndarkennsluaðstöðu við HÍ. 

Hver hópur fékk síðan flennistóra forsíðu að "Framtíðinni" og skrifaði niður það helsta sem þeim datt í hug að gæti orðið til þess að bæta kennsluaðstöðu. 

Fjölmargar áhugaverðar tillögur komu fram, svo sem að aðgengi allra að námi væri tryggt, gæði fjarkennslu bætt og að nemendur allra deilda hefðu aðgengi að aðstöðu til þess að læra saman, utan hefðbundinna kennslustunda. 

Meðal annarra hugmynda má nefna heilsugæslu á háskólasvæðinu, sjálfvirka þýðingu kennsluefnis á önnur tungumál, aðgengilegar tíðarvörur á ókyngreindum salernum og margt fleira. 

Kennarar og starfsfólk sitja við borð og ræða framtíð kennsluaðstöðu við HÍ á vinnustofa.

Þann 7. nóvember komu saman tæplega 40 fulltrúar kennara og starfsmanna á vinnustofu. Í upphafi fengu þau stutta kynningu á hugmyndum nemenda.

Í kjölfarið velti hópurinn því fyrir sér hvað það er í núverandi aðstöðu sem er hægt að vinna áfram með, hverju þarf að hætta og hverju þarf að bæta við til þess að kennarar geti sinnt sinni kennslu og ýtt undir sveigjanlegt og fjölbreytt nám.

Það var talsverður samhljómur í því sem nemendur ræddu á sinni vinnustofu og því sem kennarar ræddu. Fjölbreytt rými sem hægt er að skipuleggja í takt við fjölbreytta kennslu var áberandi í þessari umræðu. 

Kennurum var líka tíðrætt um að hafa möguleika á því að bóka kennsluaðstöðu sem hentar þeim kennsluaðferðum sem notaðar eru hverju sinni til að forðast það t.d. að reyna að halda uppi hópastarfi í fyrirlestrarsal. 

Kennarar nota gervipeninga til þess að forgangsraða verkefnum í umbótum á kennsluaðstöðu

Í seinni hluta vinnustofunnar fékk hópurinn að spreyta sig á því að forgangsraða umbótaverkefnum.

Hver hópur fékk ímyndaða fjárupphæð sem þurfti að úthluta í þau verkefni sem hóparnir telja mikilvægast að byrja á. Sú umræða leiddi meðal annars í ljós að það er aðkallandi að skólinn:

  • útbúi fleiri rými sem taka tillit til þeirra kennsluaðferða sem verið er að nota.
  • byggi upp skilning og umburðarlyndi milli kennara um það að ólík kennsla krefst ólíkrar uppsetningar í kennslurýmum.
  • bæti loftræstingu í kennslurýmum.

 

Þátttakandi á samráðsfundi talar í hljóðnema.

Þriðjudaginn 22. nóvember var haldinn samráðsfundur þar sem ráðgjafar Arcur kynntu þau þemu sem birtast í innsendum athugasemdum og umræðum á vinnustofum. 

Í stuttu máli má greina fjórar megináherslur um úrbætur í þeim gögnum sem þegar liggja fyrir: 

  1. Fjölbreyttari og sveigjanlegri rými
  2. Staðlaður tæknibúnaður sem er eins í öllum rýmum
  3. Aðgengileiki fyrir öll
  4. Þjónusta og fræðsla

Upptaka af samráðsfundi er aðgengileg þeim sem vilja heyra meira um þessar áherslur. 

Horfa á upptöku af samráðsfundi. 

Hvernig er verkefnið unnið?

Yfir þessu verkefni (2023) er stýrihópur sem í sitja sviðsstjóri kennslusviðs, sviðstjóri upplýsingatæknisviðs og Matthew Whelpton sem er fullltrúi notenda í stýrihópnum. Hlutverk stýrihóps er að hafa yfirsýn yfir verkefnið og taka stefnumótandi ákvarðanir og tryggja að verkefnið sé unnið í samræmi við HÍ26, lög og reglur sem gilda um HÍ.

Verkefnið er síðan unnið af verkefnahóp sem samanstendur af starfsfólki af Upplýsingatæknisviði, Kennslusviði og Fasteigna- og tæknisviði. Markmiðið með þessari víðtæku aðkomu að verkefnastýringunni er að tryggja að raddir hagsmunaaðila hafi jafnt vægi við þessa vinnu. 

Verkefnahópur boðaði fulltrúa fræðasviða til samráðs á vormisseri 2022 og leitaði eftir óskum og væntingum þeirra sem koma að kennslu og þjónustu við kennslurými. Niðurstöður þess samráðs verða lagðar til grundvallar í handbók um kennslurými HÍ þegar hún kemur út.

 

Hvenær er verkefnið unnið?

Verkefnið hófst við upphaf vormisseris 2022 og stefnt er að því að handbók verði kynnt fyrir háskólasamfélaginu þegar hún kemur út. Meginverkþættir eru fjórir: Samráð, aðkoma sérfræðinga, ritun handbókar og kynning. 

Myndræn framsetning á tímalínu verkefnis