Gervigreind og heimildaskráning
Gervigreind getur flýtt fyrir og einfaldað upplýsingaleit í námi og rannsóknum. Það er þó alltaf mikilvægt að meta gæði og áreiðanleika efnisins sjálf(ur). Ef þú notar efni frá gervigreindartóli í verkefni skaltu vísa í það eins og hverja aðra heimild. Sjá nánar: Rammi fyrir notkun gervigreindar í Háskóla Íslands, frá stefnu- og gæðaráði háskólaráðs HÍ, maí 2023.
Athugaðu fyrst reglur kennarans. Í sumum námskeiðum kunna að gilda sértækar reglur um notkun og tilvísanir í efni sem gervigreindartól hafa búið til.
Frá og með haustönn 2024 hafa helstu heimildakerfi (APA, MLA og Chicago) ekki gefið út opinberar reglur um hvernig eigi að vísa í gervigreind. Hins vegar hefur verið lagt til hvernig megi haga slíkum tilvísunum þar til ný útgáfa stílbókanna birtist.
Ef þú þarft aðstoð við að vísa í gervigreind eða vilt ræða hvernig best sé að nýta slík tól í ritgerðarskrifum, geturðu pantað tíma hjá Ritverinu.
