Streymi og fjarfundir í kennslu

Kennarar hafa tæknilegar leiðir til þess að miðla kennslu sinni yfir netið í rauntíma. Eins og með alla kennslu er að ýmsu að hyggja og mikilvægt að byrja á því að ákveða hvernig þátttöku nemenda sem ekki eru á staðnum á að vera háttað. 

Hvert er hlutverk nemenda í kennslunni?

Þegar skipulag kennslustunda sem verið er að streyma gerir ráð fyrir því að nemendur utan kennslustofunnar taki virkan þátt þarf að skipuleggja hann sem fjarfund. Þá er skynsamlegt að nota fjarfundahugbúnað eins og Teams eða Zoom, sem tengist vel við Canvas og hafa skipulag fundarins tilbúið áður en hann hefst.  

Ef um útsendingu á fyrirlestri er að ræða og ekki er gert ráð fyrir því að nemendur taki þátt í umræðum eða annarri verkefnavinnu eftir fyrirlesturinn er gott að nota streymis- og upptökuhugbúnað eins og Panopto

Image
Kennari útskýrir glæru

Undirbúningur fyrir streymi og fjarfundi

Fundarboð og uppsetning fundar

Mikilvægt er að nemendur hafi gott aðgengi að tengli á fjarfund.

  • Tengill á forsíðu á fundarherbergi kennara
  • Setja tengil á dagatal í Canvas
  • Senda tengil í tilkynningu.

Mælt er með að nota eina þessara aðferða, en ekki allar.

 

Umræðuhópar

Til þess að virkja nemendur á fjarfundi getur verið góð hugmynd að skipta þeim í minni hópa (e. breakout rooms) þar sem þeir ræða tiltekin viðfangsefni eða leysa verkefni.

Kennari getur flakkað á milli þessara hópa og leiðbeint, tekið þátt í umræðum og metið þátttöku nemenda.

Þegar umræðum / verkefni er lokið geta hóparnir kynnt niðurstöður eða afrakstur þeirrar vinnu sem fram fór í hópunum.

 

Á að taka fundinn upp?

Kennarar geta tekið fjarfundi upp, bæði í Teams og Zoom. Þegar ákvörðun um það er tekið þarf að íhuga hverjir eigi að horfa á upptökurnar og hvernig á að deila þeim til þeirra sem eiga að hafa aðgang að þeim.

Stundum þarf kennari eingöngu að streyma kennslustundinni. 

Í öllum kennslustofum hafa kennarar aðgang að búnaði sem gerir þeim kleift að streyma kennslunni. Hér eru nokkur hagnýt ráð um það hvernig þið getið tryggt að nemendur sem ekki eru á staðnum geti nýtt sér streymið: 

  • Athugið vel staðsetningu á hljóðnema og tryggið að það heyrist í ykkur. 
  • Passið að deila því efni sem nemendur sem eru ekki í stofunni eiga að sjá
  • Ef þið notið töflu til þess að útskýra, þarf að muna eftir að athuga hvort það sjáist í streyminu. 
  • Ef nemendur í stofu spyrja spurninga þarf að endurtaka spurninguna svo að þau sem ekki eru á staðnum viti líka hverju er verið að svara. 

 

Ef upp koma tæknileg vandamál í stofu þegar á að streyma er hægt að hringja í síma 525 5550.

Besta leiðin til þess að forðast vandamál er að kynna sér aðstöðuna tímanlega, kynna sér leiðbeiningar fyrir þann hugbúnað sem á að nota og skipuleggja sig vel. 

Í öllum tilfellum er rökrétt fyrsta skref að senda beiðni á netfangið help@hi.is eða hringja í 525 4222 þegar leiðbeiningarnar duga ekki til. 

 

Hvaða forrit á að nota? 

Það getur verið snúið að velja þann hugbúnað sem hentar best fyrir streymi. Hér fyrir neðan er tafla sem sýnir hvaða eiginleika hvert forrit hefur og kennari getur skoðað til þess að auðvelda sér valið.

Athugið að þessi listi er ekki tæmandi fyrir allt það sem kennari vill eða þarf að gera, en gefur nokkuð góða vísbendingu um það hvaða verkfæri gæti hentað þeirri kennslu sem kennari hefur áætlað.

Image
Yfirlitsmynd yfir eiginleika Panopto, Zoom og Teams