Ráðstefna Kennsluakademíunnar var haldin föstudaginn 22. nóvember síðastliðinn og var afar vel sótt. Um 70 manns mættu á ráðstefnuna sem í ár var skipulögð af meðlimum akademíunnar á Félagsvísindasviði, Evu Marín Hlynsdóttur, Kára Kristinssyni, Magnúsi Þór Torfasyni, Margréti Sigrúnu Sigurðardóttur, Sigrúnu Ólafsdóttur, Sigurði Guðjónssyni, Silju Báru R. Ómarsdóttur, Thamar Melanie Heijstra og Þresti Olaf Sigurjónssyni í samráði við verkefnistjóra akademíunnar.
Yfirskrift ráðstefnunnar, Til móts við nýja kynslóð - að mæta þörfum háskólanema nútímans, endurspeglar þema hennar sem hverfðist um það hvernig brúa mætti bilið á milli framhaldsskóla og háskóla með það að augum að koma betur til móts við nútímanemann í háskóla. Markmið Kennsluakademíunnar er að stuðla að kennsluþróun og bættum kennsluháttum og því mikilvægt að vera í góðum samskiptum við framhaldsskólastigið.
Alls voru flutt 23 erindi á vegum framúrskarandi kennara sem allir brenna fyrir bættri háskólakennslu. Erindin voru af ýmsum toga og afar fjölbreytt, snertu allt frá gervigreind, námssamfélagi, skuldbindingu í námi, fjölbreyttum kennsluháttum til skipulags náms og mikilvægi góðrar fagþekkingar. Hægt er að kynna sér ágrip erinda hér á vefsíðu ráðstefnunnar.
Aðalfyrirlesarar á ráðstefnunni voru Elísabet Siemsen, meðlimur í háskólaráði HÍ og fyrrverandi rektor MR, Guðrún Ragnarsdóttir, prófessor á Menntavísindasviði og meðlimur í Kennsluakademíunni, og Bjarnheiður Kristinsdóttir, lektor á Verkfræði- og náttúruvísinda og Menntavísindasviði. Þá heyrðu gestir frá nemendum úr Stjórnmálafræðideild, þeim Kristínu Taiwo Reynisdóttur, Ragnheiði Maríu Stefánsdóttur og Sigurði Óla Karlssyni. Aðalfyrirlesarar tóku einnig þátt í pallborði ásamt Arent Orra Claessen, forseta Stúdentaráðs.
Elísabet beindi sjónum sínum að hlutverkum framhaldsskólans og háskólans, hún fjallaði um viðmiðunarkröfurnar og mikilvægi góðra samskipta á milli þessara skólastiga sem hafa verið af margvíslegum toga í gegnum tíðina. Erindi Guðrúnar bar heitið „Brúin á milli skólastiga“ og fjallaði um reynslu nema, námsráðgjafa, áfangastjóra og háskólakennara af styttingu námstíma til stúdentsprófs og afleiðingar stefnunnar. Bjarnheiður ræddi um mikilvægi þess að hefja og viðhalda samtali milli framhaldsskólakennara og háskólakennara. Þetta á sérstaklega við í fögum á borð við stærðfræði, raungreinar og erlend tungumál sem öll byggjast upp lóðrétt, það er nemendur byggja ekki einungis ofan á fyrri þekkingu heldur hitta reglulega aftur fyrir hugtök og kafa dýpra í þau í hvert sinn. Hún kynnti samstarfsverkefni HÍ, HR og HA í stærðfræði, eðlisfræði, efnafræði og tölvunarfræði sem kallast SamSTEM og felur einmitt í sér slíkt samtal milli skólastiga. Nú er í gangi vinna meðal háskólakennara til að bregðast við ábendingum framhaldsskólakennara og einnig eru framundan starfsþróunarnámskeið fyrir kennara í framhaldsskólum og háskólum næsta sumar.
Tvær vinnustofur fóru fram á ráðstefnunni, annars vegar um leiðbeiningu lokaverkefna og hins vegar um kennslu með raundæmum. Sú fyrrnefnda var í umsjón Evu Marínar Hlynsdóttur og Silju Báru R. Ómarsdóttur frá Stjórnmálafræðideild þar sem þær kynntu rannsóknir sínar og reynslu af leiðbeiningu lokaverkefna á framhaldsstigi og hvernig hægt er að bæta hana. Stór hópur ráðstefnugesta tók þátt í lifandi samtali um leiðbeiningu og deildi eigin reynslu og ábendingum.
Seinni málstofan var í höndum Magnúsar Þórs Torfasonar og Þrastar Olaf Sigurjónssonar frá Viðskiptafræðideild. Málstofan snerist um kennslu með raundæmum og mikilvægi þess að nemendur öðlist reynslu í að greina raunverulegar áskoranir á sínu sviði. Málstofan hófst á stuttu raundæmi sem sýndi fram á gildi aðferðafræðinnar og í kjölfarið var farið yfir helstu þætti í skipulagningu og framkvæmd kennslustunda sem byggjast á raundæmum. Þátttakendur fengu einnig tækifæri til að vinna í smærri hópum og ræða eigin hugmyndir um hvernig slík kennsla gæti nýst í mismunandi faggreinum.
Kennsluakademían leggur metnað í að skapa vettvang fyrir umræðu um háskólakennslu og endurspeglast það í umsögn þátttakenda um ráðstefnuna. „Ráðstefnan var vel sótt, fjölbreyttar kynningar í málstofum sem tóku á margvíslegum vandamálum tengdum kennslu. Sérstaklega ánægjulegt að sjá að þátttakendur koma mjög víða að úr háskólanum en ekki síður frá öðrum háskólum.“ Annar ráðstefnugestur bætti við: „Gaman að sjá samtal milli ólíkra fræðasviða og greina þar sem áherslur og áskoranir í kennslu eru gjarnan þær sömu.“
Aðsókn og ánægja með ráðstefnu Kennslukademíunnar sýnir að hún er komin til að vera. Stefnt er að því að skipulag hennar færist á milli sviða og hinna opinberu háskólanna. Markmið ráðstefnunnar er að veita hverri einingu þannig tækifæri til að halda kennslu á lofti og skapa rými fyrir sitt fólk til að mynda umræðu um kennslu en það er eitt af því sem Kennsluakademían stendur fyrir.