Ritskimun með Turnitin

Í öllu námsmati er mikilvægt að nemandinn fái upplýsingar um það hvernig tókst til og hvað hefði mátt gera betur og það gildir um meðferð heimilda einnig. 

Ritskimun sem leiðsagnarmat

Með því að skima verkefni frá nemendum er hægt að minnka líkurnar á ritstuldi. 

Það er ekki síður mikilvægt að nota niðurstöður skimunar til þess að leiðbeina nemendum um rétta notkun heimilda, hvernig tilvitnanir eru settar upp, vísað til heimilda o.s.frv. 

Allir íslenskir framhaldsskólar og háskólar hafa aðgang að Turnitin og hægt er að nálgast upplýsingar hér: http://turnitin.hi.is/

Image
Nemendur á bóksafni að leita í bókum

Ritskimun með Turnitin

Þegar nemandi fær niðurstöður ritskimunar til baka getur hann séð hvaða hlutar verkefnis hans eiga sér samsvaranir annars staðar, hvort sem þa er í bókum, tímaritum eða á vefsíum. 

Kennari getur notað þær upplýsingar og hjálpað nemanda við að vinna betur úr heimildum, laga tilvitnanir og jafnvel vísað honum á Ritver HÍ og leiðbeiningar þar: https://ritver.hi.is/is/ritgerdaskrif/heimildir

 

Hægt er að láta Turnitin skima texta sem skilað er með skilahólfi verkefna í Canvas. Best er að nota það sem kallað er Plagiarism Framework sem sendir verkefni nemenda úr skilahólfi Canvas í Turnitin og skilar samanburðarprósentu til baka.

Leiðbeininingar um tengingu Turnitin og Canvas. 

 

Ritstuldur er ...

Ritstuldur (e. plagiarism) felst meðal annars í eftirtöldu:*

  • að leggja fram verk annars óbreytt í eigin nafni,
  • að taka beint upp eftir öðrum texta eða hugmyndir án þess að geta heimildar,
  • að sleppa tilvitnunarmerkjum þegar um beina tilvitnun er að ræða,
  • að gefa rangar eða misvísandi upplýsingar um heimildir,
  • að taka efnislega upp texta annars höfundar en umorða hann að einhverju leyti, án þess að geta heimildar,
  • að leggja fram sem eigið verk texta sem að megninu til er fenginn „að láni“ frá öðrum, hvort sem heimilda er getið eða ekki,
  • að þýða texta annars höfundar orðrétt yfir á íslensku án þess að nota beina tilvitnun,
  • að endurnýta í einhverjum mæli efni úr eigin verki án þess að geta heimildar.

*M.a. byggt á skilgreiningum sem er að finna á vefsvæðinu plagiarism.org og síðunni The Plagiarism Spectrum á vefsetri Turnitin, https://www.turnitin.com.

Frumleikaskönnun með Turnitin

Deildir Háskólans hafa flestar tekið Turnitin í þjónustu sína, í því skyni að kennarar geti gengið úr skugga um frumleika texta og rétta heimildanotkun í verkefnum og ritsmíðum sem nemendur leggja fram.

Hægt er að setja skil á verkefnum og ritgerðum upp þannig að nemendur geti sjálfir hlaðið verkefnum sínum eða einstökum hlutum þeirra beint inn í gagnagrunn Turnitin og á þann hátt athugað hvort textinn sé í lagi með tilliti til heimildanotkunar. Í námsumsjónarkerfinu Canvas er hægt að láta verkefnaskil nemenda fara sjálfkrafa í gegnum Turnitin.

Þegar nemendur leggja fram lokaverkefni er í sumum tilvikum beinlínis gerð krafa um að þeir skili jafnframt staðfestingu á lokaskilum í gegnum Turnitin, ásamt niðurstöðum frumleikaskýrslu eða „originality report“. Nemendur sem vinna að rannsóknarverkefnum geta með þessu móti sjálfir tryggt að niðurstöður þeirra og efnistök séu þannig að ekkert geti þar flokkast undir ritstuld.

Brot á reglum og agaviðurlög

Þung viðurlög eru í Háskóla Íslands við hvers konar misferli í prófum, verkefnavinnu og ritgerðasmíð. Nemanda sem staðinn er að misferli í prófi er vísað frá prófi. Jafnframt kann nemandinn að missa próftökurétt í öðrum námskeiðum á próftímabilinu.

Einnig er heimilt að veita nemandanum áminningu eða víkja honum úr skóla, tímabundið eða fyrir fullt og allt. Hið sama gildir um misferli þar sem námsmat felst í öðru en skriflegu eða munnlegu prófi, svo sem ef nemandi leggur fram verkefni eða ritgerð þar sem hann gerir verk eða vinnu annarra að sinni eigin, eða vísar ekki til heimilda í samræmi við viðurkennd fræðileg vinnubrögð.

Verði nemandi uppvís að ámælisverðri hegðun, til dæmis ritstuldi eða misferli í prófi, ber viðkomandi kennara eða öðrum háskólastarfsmanni að vekja athygli deildarforseta á því.

Deildarforseti rannsakar málið, boðar nemanda í viðtal, gefur honum kost á andmælum og gerir honum ljóst að forseti viðkomandi fræðasviðs hafi endanlegt úrskurðarvald í málinu af hálfu háskólans. Hafi nemandinn með óyggjandi hætti gerst sekur um háttsemi sem er andstæð lögum um opinbera háskóla nr. 85/2008, eða reglum settum samkvæmt þeim, getur forseti fræðasviðs veitt honum áminningu eða vikið honum úr háskólanum um tiltekinn tíma eða að fullu, eftir því hversu alvarlegt brot nemandans telst vera.

Nemanda er heimilt að skjóta ákvörðun forseta fræðasviðs til áfrýjunarnefndar í kærumálum háskólanema, sbr. 51. gr. reglna nr. 569/2009. Málskot frestar framkvæmd ákvörðunar forseta. Sjá einnig 19. gr. laga um opinbera háskóla.