Próf

Um lokapróf gilda ýmiss konar reglur og hefðir sem lesa má um hér: hi.is/nam/prof þar sem einnig má finna hagnýtar upplýsingar um prófatímabil, fyrirkomulag fjarprófa, próftöflur og slíkt. Hvaða aðferð sem notuð er við fyrirlögn er ávallt mikilvægt að próf séu í samræmi við hæfniviðmið námskeiðs. 

Undirbúningur og framkvæmd prófa

Standa má að námsmati með margvíslegum hætti og próf eru hefðbundinn hluti af námsmati. Þar má helst nefna:

  • Staðbundin próf (staðpróf) sem fara fram í húsnæði HÍ eða á viðurkenndum prófstöðum, innanlands eða utan, undir eftirliti prófvarða.
  • Heimapróf eru óstaðbundin og í þeim er ekki eftirlit prófvarða.
  • Munnleg próf geta hvort heldur verið staðbundin eða óstaðbundin yfir net. Í þeim eru alltaf prófdómarar.

Mikill meirihluti prófa er lagður fyrir í stafrænu námsmatskerfi, Inspera Assessment, og eru staðpróf yfirleitt tekin í lokuðu umhverfi en heimapróf í opnu umhverfi. Auðvelt er að halda utan um munnleg próf í Inspera.

Image
Stafsmaður prófaskrifstofu

Algengar spurningar um próf

Mikilvægt er að próf séu ávallt í tengslum við þau hæfniviðmið sem sett hafa verið í námskeiði. 

Prófspurningar geta verið margskonar og þeir kennarar sem vilja óska eftir aðstoð við að setja upp viðeigndi prófspurningar geta sent póst á kennslumidstod@hi.is

Kennarar geta óskað eftir aðstoð við framkvæmd prófa hjá prófaskrifstofu, hvort sem það er að óska eftir að skrifstofan sjái um að úthluta stofu fyrir staðbundin próf eða tækniaðstoð vegna Inspera. 

Eyðublað fyrir umsókn um aðstoð við framkvæmd prófs

 

Inspera er prófakerfi Háskóla Íslands. Hér finnur þú upplýsingar um það hvernig þú getur byrjað að nota Inspera ásamt tenglum á leiðbeiningar og hagnýtar upplýsingar: 

Rafræn próf í Háskóla Íslands

Kennarar geta valið um nokkrar ólíkar útfærslur á prófum, allt eftir því hvað hentar best til þess að mæla stöðu nemenda gagnvart hæfniviðmiðum námskeiðsins. 

Þegar kennari vill leggja fyrir próf í stofu getur verið góður kostur að nota Inspera: 

  • Hægt að læsa prófumhverfinu
  • Rúmlega 20 tegundir spurninga sem hægt er að leggja fyrir
  • Engin hætta á að svör nemenda tapist

Kennari getur nálgast prófúrlausnir nemenda um leið og prófi lýkur og hafið yfirferð sem er alltaf 100% nafnlaus.

 

Í heimaprófum er hægt að leggja mat á flóknari hugarhæfni, vinna með raunhæf verkefni og tímamörk geta verið sveigjanleg. Með spurningum sem krefjast þess að nemendur leggi mat á námsefnið, beri saman, álykti o.s.frv. er hægt að koma í veg fyrir að nemendur geti sótt svör á netinu eða taka það beint upp úr bókum.

Þannig er mikilvægt að hafa í huga að prófspurningar krefjist grundvallarskilnings á viðfangsefni námskeiðs frekar en að spyrja út í einstök þekkingar- og minnisatriði.

Til dæmis má biðja nemendur um að rökstyðja svör sín, fara fram á að svör vísi fyrst og fremst til námsefnis í námskeiði

Ef próf eru lögð fyrir með rafrænum hætti er líka hægt að úthluta spurningum þannig að ekki fái allir nemendur sömu spurninguna.

Þá geta kennarar heimilað nemendum að nýta sér ýmis gögn við lausn heimaprófa og að vinna saman að úrlausnum en gera þá um leið meiri kröfu um að svör séu ítarleg og reyni á æðri stig þekkingar. 

Heimapróf má gera nemendum aðgengileg í gegnum Inspera, líkt og önnur próf. 

Innan deilda HÍ ríkja mismunandi hefðir um munnleg próf. Í lagadeild eiga þau sér fastan sess en eru einnig víða notuð þótt í minna mæli sé. Í Reglum fyrir Háskóla Íslands nr. 569/2009 er kveðið á um að við munnleg próf skuli vera einn prófdómari utan HÍ.

Það eru margar ástæður fyrir því að nota munnleg próf, meðal annars vegna þess að þau mæla best sum hæfniviðmið, gefa tækifæri á að fara á dýptina í prófum, eru námstæki, auka á fjölbreytileika námsmats sem um leið höfðar þá til fleiri nemenda og krefjast þess að nemendur noti eigin orð og þekkingu.

Meðal helstu kosta munnlegra prófa má nefna að þau:

  • eru besta leiðin til að meta hæfniviðmið sem krefjast þess að nemendur yfirfæri þekkingu sína yfir á nýjar aðstæður, en einnig til að meta faglegheit og sjálfsöryggi nemenda í faginu.
  • gefa tækifæri á meiri dýpt í spurningum þar sem pófdómari getur spurt nemendur í þaula út í námsefnið og þannig fengið fram heildarskilning þeirra á efninu.
  • endurspegla yfirleitt fagið betur þar sem samskipti eiga sér stað munnlega fremur en skriflega. Þetta á t.a.m. við um lög, hjúkrun og kennslu svo fátt eitt sé nefnt. 
  • eru námstækifæri þar sem nemendur undirbúa sig betur fyrir prófin meðal annars vegna þess að erfitt er að spá fyrir um hvernig þeir verða spurðir, þeim finnst erfitt að standa á gati þegar þeir þurfa að sýna fram á heildarskilning á námsefninu.
  • henta sumum nemendum betur. Nemendur eru mismunandi og sumir eiga auðveldara með að tjá sig munnlega en skriflega. Gott er að hafa námsmat sem fjölbreyttast til að koma til móts við fjölbreyttan nemendahóp.
  • gefa möguleika á því að umorða óljósar spurningar þannig að nemendur skilji þær.
  • krefjast þess að nemendur noti eigin orð og skilning

Ef aðstæður eru þannig að nemandi getur ekki mætt á staðinn í munnlegt próf er hægt að halda þau á fjarfundi. Athugið að nemandi í fjarprófi getur verið með ýmis gögn utan sjónsviðs myndavélarinnar og þess vegna mikilvægt að hafa spurningar þannig að nemandi leggi mat á, dragi ályktanir eða beri saman þætti úr námsefninu frekar en bein þekkingaratriði og skilgreiningar. 

Ekki er hægt að nota Inspera til fjarprófa í mynd, en þar er haldið utan um nemendalista munnlegs prófs og kennari getur haft leiðandi spurningar tiltækar fyrir framan sig á skjá.