Hópvinna
Vel skipulögð hópvinna nýtist nemendum ekki einungis vel til þess að efla námshæfileika sína og þekkingu, heldur einnig félagslega hæfni í samvinnu og samskiptum sem nýtast bæði vel í skóla og starfi.
Helstu kostir hópvinnu eru þeir að kennari getur lagt fyrir flóknari verkefni en þeir myndu annars gera í einstaklingsverkefnum. Hópvinna skilar því oft meiri dýpt þar sem t.d. fleiri sjónarhorn fá að heyrast.
Til þess að hópvinna nýtist vel og komi nemendum til góða eru nokkur atriði sem kennari þarf að huga að:
- Kenna hópvinnubrögð
- Kynna kosti og galla hópvinnu
- Byggja upp hópvitund
- Höfða til ábyrgðar hvers og eins
- Skipuleggja virkt námsmat
Skiptar skoðanir eru um námslegt gildi hópvinnu og sýnist þar sitt hverjum. Sumir nemendur njóta sín vel í hópvinnu meðan aðrir hafa upplifað hópvinnu þar sem skipulagi er áfátt, fáir sitja uppi með vinnuna og aðrir hópmeðlimir njóta góðs af vinnu þeirra - eru svokallaðir bakpokaferðalangar (e. free-riders).
Til að hópastarf skili námslegum árangri er algjört lykilatriði að það sé vel skipulagt, að nemenum sé kennt til verka og þeir gerðir ábyrgir fyrir ferlinu. Þegar vel tekst til eykur hópvinna getu nemenda m.a. til að
- brjóta niður flókin verkefni í hluta og skref
- stjórna og skipuleggja tíma sinn í samhengi við aðra
- bæta skilning í gegnum umræðu og útskýringar
- gefa endurgjöf á frammistöðu
- rökstyðja mál sitt og efast um gefnar forsendur
- þróað betri samskiptahæfni
- vinna með tilfinningar og álag í tengslum við verkefni
Samlegðaráhrifin af hópvinnu geta einnig hjálpað nemendum að þróa með sér sérstaka hæfni sem þeir væru ófærir um einir og sjálfir, meðal annars að:
- komast yfir flóknari vandamál en þeir gætu einir og sér
- deila hlutverkum og ábyrgð
- deila mismunandi sjónarhornum
- bera ábyrgð og gera aðra ábyrga
- fá félagslegan stuðning og hvatningu til að taka áhættu
- þróa nýjar leiðir til að leysa ágreining
- vera einn af hópnum – hópmeðvitund - samkennd
- finna jafningja til að bera sig saman við
- þróa faglegt sjálfstæði og sjónarhorn í hópi jafningja
Helstu þættir í uppsetningu hópvinnu
Ekki gera ráð fyrir því að nemendur kunni að vinna í hópi. Þó svo að flestir nemendur hafa unnið í hópverkefnum hefur þeim jafnvel aldrei verið kennt það og kunna því ekki til verka. Einnig kann það að vera að þó svo að þeir hafi lært til verka henti sú tegund hópvinnu eða samvinnu ekki í þeim verkefnum sem þú sem kennari vilt að þeir vinni, þá þarftu að endurskoða verkefnin og miða þau að hópnum.
Nemendur þurfa að læra að vinna með öðrum að verkefnum sem þeir eru vanir að vinna sjálfstætt, þeir þurfa t.d. að:
- átta sig á verkefninu, hvernig það er uppbyggt og erfiðleikastigi þess
- brjóta verkefnið niður í hluta og skref
- skipuleggja verkefnið
- ákvarða tíma í verkefnið, tímastjórnun
Nemendur þurfa einnig að átta sig á því hvernig þeir vinna með þætti sem einungis koma upp í hópvinnu, s.s.
- útskýra hugmyndir sínar fyrir öðrum
- hlusta á mismunandi hugmyndir og sjónarhorn
- komast að niðurstöðu
- deila ábyrgð
- samræma vinnu
- leysa deilur
Hér eru nokkur atriði sem geta aðstoðað nemendur í hópvinnu og nýst þeim í lífinu almennt hvað varðar samskipti og samvinnu.
Hagnýt atriði
Útskýrðu gildi samvinnu á vinnustöðum (og utan þeirra) með því að benda á raunveruleg dæmi um það hvernig hópar virka og hvað getur farið úrskeiðis þegar samvinna er veik. Kennari biður nemendur um að skrifa niður þá hæfileika sem þeir telja að framtíðar vinnuveitandi þeirra leiti að. Nemendur svara þessu oft með dæmum um sérhæfða hæfileika s.s. forritun. Kennari sýnir nemendum raunveruleg dæmi um eftir hverju vinnuveitendur leita hjá starfsmönnum sínum. Þar er áherslan oft á almenna hæfileika s.s. getu til að miðla skýrt og getu til að vinna með öðrum. Þessi aðferð eflir trúverðugleika námsaðferðarinnar.
Kostir og gallar
Hafi nemendur ekki kynnst hópvinnu eða hafi slæma reynslu af henni getur það haft áhrif á það hvernig þeir nálgast vinnuna. Íhugaðu að biðja þá að skrifa niður dæmi um jákvæða og neikvæða reynslu af slíkri vinnu. Svo skaltu biðja þá um að hugleiða lausnir til að koma í veg fyrir eða draga úr neikvæðum þáttum hópvinnunar. Útskýrðu einnig fyrir þeim hvernig þú hefur skipulagt hópastarfið m.t.t. að draga úr neikvæðum hliðum þess, s.s. bakpokaferðalanga (e. free-riders).
Skipulag og vörður
Ræddu ferli skipulagningar flókins verkefnis með því að útskýra fyrir nemendum hvernig þú myndir nálgast efnið í svipuðu verkefni. Skipuleggðu áætlanagerð inn í verkefnið til að þjálfa nemendur í henni.
Brjóttu verkefnið niður í þætti og skref og settu skilafrest fyrir hvern þátt, t.d. tillaga að verkefni, tímalína, heimildir og fyrstu drög. Að auki skaltu gefa nemendum grófa tímaáætlun fyrir hvern hluta verkefnisins og ýttu við þeim varðandi verkefnaþætti sem þeir kunna að þurfa að huga að fyrr en þeir ætla sjálfir. Sem dæmi má nefna þætti sem þú veist að eru tímafrekari en þeir virðast eða þættir sem aðrir hlutar verkefnisins byggja á og verða ekki unnir nema vinnu sé lokið við þá þætti.
Reglur
Búðu til reglur um hópvinnuna og biddu nemendur um að gera það saman. Slíkar reglur geta falið í sér þætti eins og:
- Svarið pósti frá hópmeðlimum innan 24 klst.
- Mætið á fundi á réttum tíma og undirbúin.
- Virðið skilafrest.
- Hlustið á hópmeðlimi þína.
- Svarið framlagi hópmeðlima heiðarlega og af kurteisi.
- Verið uppbyggjandi.
- Gagnrýnið hugmyndir – ekki fólk.
Þú getur beðið nemendur um að samþykkja reglurnar formlega með því að undirrita samning þar að lútandi.
Tækifæri í ágreiningi
Ágreiningur innan hópa getur verið gott tækifæri til að þróa betri samvinnu og verkefni (Thompson, 2004). En ágreiningur getur einnig dregið úr áhuga nemenda á samvinnu. Gefðu nemendum tól og tæki (tungumál) til að takast á við ágreining á uppbyggilegan hátt og læra að hlusta á aðra. Hlutverkaleikur getur einnig virkað vel hér, þá æfa nemendur sig í að takast á við ágreining áður en hann kemur upp.
Gryfjur
Bentu nemendum á algengar „gryfjur“ í verkferlinu, s.s. að vanmeta tíma sem fer í að skipuleggja fundi, aðgang að rannsóknastofum, tölvuverum eða hljóð- og myndtökuverum, fá efni í millisafnaláni, fá leyfi fyrir rannsóknum og viðtölum, póstlista fyrir þátttakendur rannsókna, undirbúning kynningar og endurskoðun skýrsla svo fátt eitt sé nefnt.
Ígrundun styrkleika
Hvettu nemendur til að meta eigin styrkleika og veikleika (t.d. frestunaráráttu, vera of beinskeyttur í gagnrýni, eiga auðvelt með að tjá sig) og að íhuga hvernig þessir þættir í fari þeirra geti haft áhrif á hópvinnu. Hægt er að nemendur um að bera saman svör sín innan hópsins og spyr þá síðan hvaða aðferðir hóparnir geti notað til að nýta sér styrkleika hópmeðlima og koma í veg fyrir að veikleikarnir dragi úr hópstarfinu. Svörin við þeim gætu t.d. verið að vera ströng á skiladögum (ef margir í hópnum eru haldnir frestunaráráttu), þróa kerfi sem auðveldar öllum að tjá sig og setja reglur um hreinskilna en kurteisa gagnrýni.
Sanngjarnt og ígrundað mat á hópvinnunni
Biddu nemendur um að meta reglulega eigið framlag og/eða annarra í hópnum í tengslum við þær reglur sem settar voru og verkefnið gefur tilefni til, t.d. varðandi virka hlustun, lýðræðisleg vinnubrögð, hvernig tekist er á við ágreining, hver árangur hópsins er varðandi vinnu milli funda o.s.frv. Að því búnu er gott að gefa hópunum tækifæri til að bæta úr þar sem þörf er á.
Hópvinna er af mörgum toga og víða þekkist það að nemendur skipti með sér verkum sem hver og einn ber ábyrgð á. Annars staðar er farið fram á þróaðari samvinnu þar sem allir vinna saman og þar þarf að byggja samvinnuna inn í hópverkefnið.
Fearon, McLaughlin og Eng (2011) leggja höfuðáherslu á að byggja upp námssamfélag í hópastarfi, þá fari hópvinna virkilega að telja fyrir nemendur bæði í lífinu sjálfu með aukinni samfélagslegri hæfni svo og til að þróa námsgetu þeirra. Þannig er mikilvægt að byggja upp hvoru tveggja hópvitund eða liðsheild og aðild að virku námssamfélagi.
Hér eru nokkur atriði sem er mikilvægt að hafa í huga:
1. Gakktu úr skugga um að verkefnin séu nægjanlega flókin þannig að nemendur þurfi að deila þekkingu sinni og færni til að ljúka þeim.
Dæmi: Í hópverkefni í leikjahönnun þurfa nemendur að búa til leik sem krefst þess að þeir búi yfir þekkingu, leikni og hæfni í forritun og hönnun. Til að ljúka verkefninu þurfa nemendur úr ólíkum greinum að leiða saman hesta sína og nýta styrkleika hvers annars.
2. Búðu til hæfniviðmið sem aðeins er hægt að uppfylla með samvinnu.
Dæmi: Í verkfræðinámskeiði keppa lið í að hanna bát. Vinnan krefst hæfi og beitingar mismunandi þátta í verkfræði, efnisfræði og fjárhagsáætlunargerð. Keppnin verður til þess að hópurinn vinnur þétt saman að því að ná sem bestum árangri.
3. Takmarkaðu efni eða aðdrætti til að hvetja nemendur til að deila mikilvægri þekkingu og fróðleik.
Dæmi: Í námi til arkitekts leggur kennari fyrir nemendur stutt hópverkefni. Hann lætur nemendum í té ýmis aðföng (s.s. snæri, pappa, stangir) sem þeir eiga nýta til að hanna form eða byggingu sem lýtur ákveðnum byggingarfræðilegum reglum. Þar sem aðföngin eru takmörkuð þurfa nemendur að vinna saman að lausn verkefnisins.
4. Útdeildu hlutverkum í hópnum til að auðvelda samstarf.
Í misserislöngu rannsóknarhópverkefni í sögu úthlutar kennari nemendum sérstökum hlutverkum: Einn þeirra er ábyrgur fyrir því að hefja og viðhalda samskiptum inna hópsins, annar sér um að samhæfa vinnuna og skipuleggja fundi, þriðji sér um fundarritun (skráir hugmyndir og ákvarðanir sem teknar eru á fundum) og sá fjórði heldur hópnum við efnið, á tímaáætlun og skiladögum. Kennarinn skiptir þessum hlutverkum á milli nemenda eftir því sem á líður misserið þannig að allir fái að spreyta sig á öllum hlutverkum.
Það er vel líklegt að nemendur geti unnið vel í hópvinnu en ekki náð þeirri hæfni sem verkefnið á að þjálfa. Til þess að ganga úr skugga um að allir í hópnum búi yfir hæfninni sem lögð er til grundvallar þarf að skilgreina ábyrgð hvers og eins í heildarferlinu og sjá til þess að nemendur hafi aðgengi að viðeigandi úrræðum (t.d. ítarefni, aðgengi að viðmælendum o.s.frv.).
Þetta er t.d. hægt að gera með því að leggja próf fyrir nemendur eða skila einstaklingsritgerðum (write-ups), vikulegum dagbókarfærslum, o.fl. Þessi aðferð ætti að útiloka svokallaða „bakpokaferðalanga“ (e. free-riders).
Ef einstaklingsframlag nemenda gildir til einkunnar eru nemendur líklegir til að axla ábyrgðina sem lögð er á herðar þeirra með hópvinnunni. Einstaklingsverkefnið getur verið í formi samantektar á ferli hópvinnunnar (hvernig hópurinn komst að niðurstöðu o.fl.), samantekt á því hvað nemendur lærðu af hópverkefninu eða lýsingu á framlagi hvers og eins í hópnum, svo fátt eitt sé nefnt.
Í sama augnmiði tengja sumir kennarar hópverkefnavinnu og próf sem hver og einn nemandi tekur og fjallar um svipað efni og hópverkefnið. Aðrir skipta upp einkunninni fyrir hópverkefni annars vegar og einstaklings verkefni hins vegar.
Hópvinna getur snúist upp í andhverfu sína ef ekki er hugað vel að því hvernig hún er skipulögð, henni stýrt og hún metin og því miður hafa of margir nemendur og kennarar reynslu af því.
Um hópvinnu gildir það sama og einstaklingsverkefni:
- hæfniviðmið þurfa að vera skýr
- skýrar verkleiðbeiningar
- væntingar kennara til verkefnis þurfa að vera ljósar
- nemendur þurfa að fá leiðbeiningu um hvernig gott verkefni lítur út – t.d. með því að gefa þeim upp matskvarða sem notaður verður við að meta verkefnið og/eða hafa sýnishorn af góðum verkefnum.
Að auki bætir hópvinna við meiri dýpt en nám á einstkalingsgrunni því að um samvinnuferli að ræða. Engu síður þarf að gæta þess að byggja einhverja einstaklingsvinnu inn í verkefnið til að nemendur finni að þeir séu metnir út frá þeirri vinnu sem þeir hafa sjálfir lagt í verkið ekki einungis samvinnu nemenda.
Allar meginreglur um námsmat eiga við um námsmat í hópvinnu, þó felst e.t.v. eilítið meiri áskorun í mati á hópstarfi en einstaklingsmiðuðu námsmati: Í fyrsta lagi getur verið að kennarar vilji meta lokaafurð hópstarfsins, (s.s. hönnun, skýrslu, kynningu), hópstarfið sjálft (s.s. að standast skiladaga, sanngjarnt framlag allra í hópnum, samskipti, o.fl.) eða hvoru tveggja. Í öðru lagi þurfa nemendur að fá einkunn fyrir það sem þeir lögðu í hópstarfið, framlag þeirra, og það vekur spurningar um sanngirni og eignarhald.
Til að flækja þetta enn frekar er hvorugur þessara þátta, hópstarfið eða einstaklingsframlagið, endilega sýnilegur í lokaafurð hópsins. Vandamálið hér er að finna leiðir til að þetta gangi, hér eru nokkur góð ráð:
Prófaðu einstaklinginn, ekki eingöngu hópinn og kynninguna
Það getur haft neikvæð áhrif á hópstarfið ef samviskusamir nemendur telja að einkunn þeirra í hópstarfinu miðist ekki einungis við þeirra eigin vinnu, heldur einnig hinna sem minna leggja til verksins. Því er mikilvægt að meta vinnu hvers og eins innan hópsins, bæði framvindu vinnunnar og lokaverkefnið eða. Þetta hvetur alla nemendur til að standa sig vel, þeim finnst staðið að námsmati á sanngjarnan hátt og allir þurfa að leggja sitt af mörkum til að fá góða einkunn.
Ýmsar leiðir eru til að meta einstaklinga í hópstarfi, t.d. með því að fella einstaklingsmat inn í hópvinnuna, s.s. með stuttri ritgerð, dagbókarfærslum eða prófi sem byggt er á hópverkefninu. Lokaeinkunnin fyrir hópastarfið endurspegla þannig bæði hópastarfið og einstaklingsvinnuna. Misjafnt er hversu mikið hvort um sig gildir, t.d. 50/50%, 80/20%. Í raun er engin regla um það hvernig einkunn í hópastarfi skiptist en hún þarf að endurspegla hæfniviðmiðin og ýta undir þá vinnu sem fram á að fara.
Dæmi: Í námskeiði í mannfræði fær hópur nemenda það verkefni að taka fyrir frægar deilur innan fræðanna og kynna fyrir öðrum nemendum. Nemendur fá hópeinkunn fyrir kynninguna en þurfa að auki að skrifa stutta ritgerð um það hvað þeir lærðu af verkefninu og hvert framlag þeirra var. Kennari áskilur sér rétt til að hækka eða lækka einkunn einstakra nemenda fyrir góða eða slæma frammistöðu, byggða á ritgerðinni sem þeir skila og sýnir fram á skilning þeirra á efninu og framlag til hópvinnunnar. Nemendum er gerð grein fyrir þessu fyrirfram.
Prófaðu ferlið líkt og þú prófar lokaafurðina
Ef markmiðið með hópvinnunni er að þjálfa nemendur í hópstarfi og samvinnu, þarf að meta framlag þeirra, þ.e. meta ferli hópvinnunnar (hvernig nemendur vinna) ekki síður en lokaafurðina (verkefnið sem þeir vinna að).
Meta má ýmsa þætti hópstarfsins s.s. hæfni til að koma fram með hugmyndir, hlusta af virðingu á ólík sjónarhorn, deila verkefnum á sanngjarnan hátt, leysa ágreining og skilvirk samskipti. Kennarar eru ekki alltaf meðvitaðir um hvernig hópstarfið gengur og geta nýtt sér eftirfarandi leiðir til að komast að því:
- Hópmat: Nemendur meta virkni hópsins í heild.
- Jafningjamat: Nemendur meta framlag hópmeðlima sinna.
- Sjálfsmat: Nemendur skrá og meta eigið framlag til hópsins.
Matið getur verið af ýmsu tagi, sem dagbókarskrif, ritgerðir, eða spurningalistar sem mæla samvinnu. Gott er að skoða vel hvað hentar ferlinu best og hvaða tímasetningar eru á matinu (um miðbik misseris, við lok þess eða hvoru tveggja). Einnig er rétt að svara hver á að hafa aðgang að matinu (kennari, aðrir hópmeðlimir) sem og hvort nemendur geta skilað matinu án þess að gefa upp nafn.
Hafðu í huga að matið er huglægt og nemendur eru e.t.v. ekki æfðir í að gera slíkt mat á samnemendum sínum eða sjálfum sér. Leggðu þeim til leikreglur og dæmi um hvernig orða má hlutina. Jafningja- og sjálfsmat veitir dýrmæta innsýn í hópvinnu, sýnir hvað gengur vel og hvað gengur miður vel, bendir á vandamál og hjálpar kennurum við að gefa lokaeinkunn og endurgjöf á hópstarfið.
Dæmi: Námskeið byggist á hópvinnu nemenda. Reglulega meta nemendur hópstarfið sjálft og eigið framlag og eru jafnframt beðnir um að nefna leiðir til að bæta hvoru tveggja. Í lok misseris fer fram jafningjamat þar sem nemendur meta hvert framlag hvers og eins var til hópvinnunnar. Lokaeinkunn fyrir námskeiðið samanstendur af hópeinkunn (75%) og einstaklingseinkunn (25%). Einstaklingseinkunnin er byggð að jöfnum hluta á því hvernig samnemendur meta framlag hvers nemanda til hópvinnunnar og gæðum endurgjafarinnar sem nemandinn gefur öðrum nemendum.
Skýrar verkefnalýsingar og mats- og einkunnakvarðar
Það er mikilvægt að hafa verkefnalýsingar skýrar svo að nemendur átti sig á því hvers til er ætlast af þeim. Þetta er ekki síst mikilvægt þegar meta á leikni og hæfni sem ekki er algengt að meta s.s. hæfni til að leysa ágreining, dreifa verkefnum o.fl.
Slá má tvær flugur í einu höggi með því láta nemendur hafa matskvarða í upphafi hópstarfsins, sem lýsa bæði ferli hópvinnunnar og lokaafurð og nota þannig matskvarðana til skilvirkrar endurgjafar á meðan á hópvinnu stendur og í lok hennar.
Mikilvægt er að átta sig á því fyrirfram hvaða vægi ýmsir þættir hópvinnunar hafi og láta nemendur vita af því. Gott er að hafa þessar spuringar í huga:
- Hvert er hlutfall hóp- og einstaklingseinkunnar í lokaeinkunn?
- Hvert er hlutfall lokaafurðar og ferlis hópstarfs í lokaeinkunn?
- Hversu mikið gildir jafningja- eða sjálfsmat í lokaeinkunn?
- Verður endurgjöf utanaðkomandi aðila hluti af lokaeinkunn og ef svo, hvernig endurgjöf er það? Dæmi: Endurgjöf á lokaafurð – virkar hún, er þetta góð hönnun/niðurstaða? Endurgjöf á hópferli – voru samskipti hópsins við „viðskiptavin“ góð? Stóðst hópurinn skiladaga?
Eins og sjá má af ofangreindu eru það ýmsir þættir í hópvinnu sem hægt er að meta til einkunnar. Mikilvægt er að kennarar hugsi þetta út frá því hvaða virkni þeir vilja sjá hjá nemendum og hvernig námsmat og vægi námsþátta getur ýtt undir þá hegðun. Síðast en ekki síst er mikilvægt að nemendur fái skýrar leiðbeininingar um námsmatið, þ.m.t. hæfniviðmið, matskvarða, einkunnagjöf o.þ.h.
Í Canvas er hægt að skipta nemendum í hópa og þá fær hver hópur sitt heimsvæði til að vinna saman. Þar geta hópar boðað fundi, skipst á skrám, tekið þátt í umræðum o.s.frv. Með því að skilgreina verkefni sem hópverkefni skilar einn nemandi afurð hópvinnunnar fyrir hönd hópsins.
Leiðbeiningar um uppsetningu hópa í Canvas og hópverkefni er að finna með því að smella hér.
Heimildir
Carnegie Mellon University: https://www.cmu.edu/teaching/designteach/design/instructionalstrategies/groupprojects/benefits.html
Barkley, E.F., Cross, K.P., and Major, C.H. (2005). Collaborative learning techniques: A handbook for college faculty. San Francisco: Jossey-Bass.
Fearon, C., McLaughlin, H. og Eng, T. Y. (2011). Using student group work in higher education to emulate professional communities of practice. Education and Training, Vol. 54, No, 2/3, s. 114-125.
Johnson, D.W., Johnson, R., & Smith, K. (1998). Active learning: Cooperation in the college classroom. Edina, MN: Interaction Book Company.
Mutch, A. (1998). Employability or learning? Groupwork in higher education. Education and Training, Vol. 40, No.2, s. 50-56.
Thompson, L.L. (2004). Making the team: A guide for managers. Upper Saddle River, NJ: Pearson Education Inc.