Að kveikja áhuga nemenda - Kennsluvarpið
Sean Michael Scully, aðjúnkt við Háskólann á Akureyri á viðskipta- og raunvísindasviði, spjallar um leiðir til að vekja áhuga nemenda á námsefninu og notar til þess fjölbreyttar aðferðir.
Sean lítur á sjálfan sig sem eins konar leiðsögumann frekar en kennara. „Ég hef ekki öll svörin heldur vil ég að nemendur rannsaki og uppgötvi sjálfir,“ segir Sean sem lýsir sér sem einlægum, heiðarlegum og vingjarnlegum kennara og bætir við að kennsla sé frábær afsökun fyrir því að læra áhugaverða hluti.
Hann leggur áherslu á að tengja námsefnið við raunveruleikann og áhugasvið nemenda og færa þannig raunveruleikann inn í kennslustofuna. Hann reynir að finna leiðir þar sem nemendur fá tækifæri til að uppgötva í gegnum tilraunir. Sean reynir að búa til tækifæri til að eiga samtöl við nemendur til að skilja hvar áhugi þeirra liggur og einnig til að veita þeim endurgjöf.
Hann hefur mikla ástríðu fyrir kennslu og að fá nemendur til að kafa dýpra í námsefnið til að þjálfa gagnrýna hugsun. Sean tekur dæmi úr eigin kennslu og einnig úr námi sínu í Bandaríkjunum þar sem hann vandist því að háskólar tengdust samfélaginu með ýmsum verkefnum.
Sean situr í stjórn Kennsluakademíu opinberu háskólanna þar sem hann tekur þátt í því að ýta undir aukið samtal um kennslu. Þar sem Sean er bandarískur fer spjallið fram á ensku að þessu sinni.
Hlusta á kennsluvarpið á Spotify