Header Paragraph

Málþing Kennslusviðs Háskóla Íslands og FeedbackFruits 6.mars 2024

Image
FeedbackFruits heimsókn mars 2024 - 1

Miðvikudaginn 6.mars 2024 var haldið málþing á vegum Kennslusviðs Háskóla Íslands þar sem verkfæri FeedbackFruits voru til umfjöllunar. Þá komu starfsmenn FeedbackFruits í heimsókn í Háskóla Íslands þar sem boðið var upp á kynningar- og fræðsludag fyrir kennara og starfsfólk Háskóla Íslands, Háskólans í Reykjavík og Háskólans á Bifröst. 

Á málþinginu voru meðal annars áhugaverðar kynningar á mismunandi notkun verkfæra FeedbackFruits hjá Háskóla Íslands og Háskólanum í Reykjavík þar sem sérstök áhersla var lögð á jafningjamat (e. Peer Review), mat á vinnu hópmeðlima (e. Group Member Evaluation) og teymisnám (Team-based Learning). Þá sköpuðust líflegar umræður þar sem núverandi og mögulegir framtíðar notendur FeedbackFruits komu saman, fengu hugmyndir og miðluðu reynslu. Einnig gafst gestum tækifæri á að prufa verkfæri FeedbackFruits - teymisnám - þar sem gestir settust niður saman í litlum hópum og unnu verkefni sem teymi. Þar fengu kennarar og starfsfólk háskólanna þriggja innlit í upplifun nemenda þegar verkfæri FeedbackFruits eru notuð í kennslu. 

Eins og áður kom fram tóku þátt í málþinginu kennarar og starfsfólk frá Háskóla Íslands, Háskólanum í Reykjavík og Háskólanum á Bifröst sem ýtti undir áhugaverðar umræður og möguleika á samvinnu milli skólanna er varðar notkun FeedbackFruits í kennslu.

Hægt er að fræðast meira um heimsóknina í LinkedIn færslu FeedbackFruits og einnig að fræðast meira um FeedbackFruits verkfærin í Canvas molanum: Hvaða hlutverki gegnir fjölbreytt námsmat?