A-leið:
Herminám í viðskiptanámi: Nýsköpun í kennsluháttum og efling leikni og hæfni nemenda
Umsækjandi: Auður Arna Arnardóttir
Deild: Viðskiptafræðideild
Útdráttur: Verkefnið felur í sér innleiðingu hermináms í viðskiptafræðinám við HÍ til að bæta kennsluhætti og efla leikni og hæfni nemenda í greiningu gagna, ákvarðanatöku, samskiptum og samvinnu. Herminám verður notað í stórum grunn- og meistaranámsáföngum í Viðskiptadeild. Verkefnið styður stefnu HÍ26 með því að efla starfsþjálfun, dýpka skilning og auka kennslugæði með tækni, gagnvirkri nálgun og aukinni nemendaþátttöku í námi.
Skipulag náms í reikningsskilum og endurskoðun
Umsækjandi: Árni Claessen
Meðumsækjandi: Jón Arnar Baldurs
Deild: Viðskiptafræðideild
Útdráttur: Nám í reikningshaldi hefur átt undir högg að sækja á Íslandi og brautskráðum nemendum frá Viðskiptafræðideild Háskóla Íslands fækkað verulega. Markmið verkefnisins er að rannsaka skipulag og kennslu í reikningsskilum og endurskoðun og koma með tillögur að því hvernig megi bæta námið og fjölga nemendum sem útskrifast. Framkvæmd verður greining á því hvað læra megi af reynslu erlendra háskóla sem náð hafa árangri á þessu sviði.
Enhancing Master’s Level Project Management Education: Bringing Industry Expertise to Classroom for Self-paced Learning
Umsækjandi: Inga Minelgaite
Deild: Viðskiptafræðideild
Útdráttur: This project aims to develop a series of high-quality extensive video lectures featuring distinguished experts in the field of project/programme/portfolio management. These lectures will serve as a valuable supplement to the existing curriculum for master’s students, enriching their learning experience by providing real-world insights and best practices from industry leaders. By integrating these expert lectures, the project seeks to bridge the gap between academic theory and practical application, ultimately preparing students for professional excellence. With relatively low cost, this project will effectively facilitate the attainment of numerous educational objectives while ensuring long-term sustainability and addressing technology-driven challenges.
Sameining námskeiða í lyfjagreiningum í nýrri námskrá lyfjafræðideildar
Umsækjandi: Arndís Sue Ching Löve
Meðumsækjandi: Bergþóra Sigríður Snorradóttir
Deild: Lyfjafræðideild
Útdráttur: Sameining námskeiða í lyfjagreiningum við Háskóla Íslands er hluti af endurskoðun námskrár í lyfjafræði. Markmiðið er að samræma kennslu án þess að draga úr gæðum námsins. Verkefnið stuðlar að þróun kennsluhátta með fjölbreyttum kennsluaðferðum og aukinni áherslu á sjálfbærni samkvæmt stefnu HÍ26. Lögð verður áhersla á miðlun þekkingar sem skapast við verkefnið til annarra fræðasviða og deilda innan háskólans.
Bókmenntafræði á nemendamáli: Myndasögur
Umsækjandi: Ásta Kristín Benediktsdóttir
Deild: Íslensku- og menningardeild
Útdráttur: Verkefnið snýst um að útbúa myndasögur um bókmenntafræði þar sem útskýrð eru á einfaldan og myndrænan hátt helstu hugtök og aðferðir við greiningu á skáldtextum. Myndasögurnar eru ætlaðar til kennslu í íslensku- og bókmenntanámskeiðum á öllum skólastigum. Myndasögurnar verða í opnum aðgangi á vef umsjónarmanns og eru hannaðar fyrir dreifingu á samfélagsmiðlum. Á vefnum verður enn fremur aukaefni sem styður við myndasögurnar og nýtist kennurum og áhugasömum nemendum. Um er að ræða annan áfanga verkefnis sem hlaut styrk úr Kennslumálasjóði 2024, þá undir heitinu „Kennslumyndbönd í bókmenntafræði“.
Stöðumat á nýrri námsleið: Skapandi sjálfbærni á Hallormsstað
Umsækjandi: Elsa Eiríksdóttir
Meðumsækjandi: Védís Grönvold
Deild: Deild faggreinakennslu
Útdráttur: Markmiðið er að gera stöðumat á nýrri námsleið, Skapandi sjálfbærni á Hallormsstað, til að meta kennsluhætti, skipulag, samstarf innan HÍ og tengsl við samfélagið á Austurlandi. Verkefnið stuðlar að gæðum náms, þróun kennsluhátta og innleiðingu gæðamats. Niðurstöður nýtast til umbóta innan námsleiðarinnar og geta gagnast öðrum deildum Háskóla Íslands í framtíðinni.
Inngilding og vitsmunaleg áskorun í málfræðikennslu: Fyrirmyndir og stuðningsefni fyrir ólík stig til notkunar í kennaramenntun og víðar
Umsækjandi: Heimir Freyr Viðarsson
Deild: Deild faggreinakennslu
Útdráttur: Verkefnið tengist nýjum áherslum í málfræðikennslu þar sem ákall er um að hefðbundin og oft samhengislaus greiningarvinna víki fyrir meira nemendamiðaðri, inngildandi nálgun. Ekkert námsefni endurspeglar hins vegar slíkar breytingar. Unnar verða góðar og lýsandi fyrirmyndir sem taka mið af nýjustu rannsóknum, gagnreyndum aðferðum og viðtölum við starfandi kennara og nemendur, með áherslu á leitaraðferðir, uppgötvananám og viðeigandi vitsmunalegar áskoranir.
Endurhönnun námskeiða og nýsköpun
Umsækjandi: Jakob Frímann Þorsteinsson
Meðumsækjandi: Vanda Sigurgeirsdóttir
Deild: Deild heilsueflingar, íþrótta og tómstunda
Útdráttur: Verkefnið felur í sér að nýta skapandi aðferð við endurhönnun á fjórum námskeiðum á sviði útimenntunar þannig að skýr efnisleg og kennslufræðileg samfella sé í námskeiðunum og þau veiti nemendum jafnt og þétt góða þekkingu, færni og styðjandi viðhorf. Einnig verður hannað nýtt námskeið sem tekið er samhliða námskeiðunum og eflir gagnrýna hugsun, sjálfsrýni og styrkir tengsl við starfsvettvang.
Self-directed cybersecurity teaching materials for diverse student cohorts
Umsækjandi: Thomas Welsh
Meðumsækjendur: Helmut Neurkirchen og Oddur Hafsteinsson
Deild: Iðnaðarverkfræði-, vélaverkfræði- og tölvunarfræðideild
Útdráttur: Enhancing cybersecurity education has been identified as critical by the Icelandic National Cybersecurity Strategy 2022–2037. However, delivering cybersecurity education is challenging because of its novelty and requirement for diverse technical knowledge which can be overwhelming to students. This project will create online self-study materials in cybersecurity which are suitable for students with diverse academic backgrounds and with flexible learning needs.
Betra námsmat með gervigreind
Nafn: Tómas Philip Rúnarsson
Deild: Iðnaðarverkfræði-, vélaverkfræði- og tölvunarfræðideild
Útdráttur: Betra námsmat með gervigreind er nýtt verklag sem styður kennara við yfirferð nemendaverkefna með stafrænum lausnum. Kerfið nýtir gervigreind til að greina verkefni, veita innsýn í námsmat og meta hvernig verkefni styðja við hæfniviðmið námskeiða. Með því eykst gæði endurgjafar, námsmat verður gagnsærra og kennarar fá betri yfirsýn til að þróa kennsluhætti.
B-leið:
Endurskipulagning grunnnáms Viðskiptafræðideildar í lotukennslu
Umsækjandi: Þóra H. Christiansen
Deild: Viðskiptafræðideild
Útdráttur: Verkefnið snýst um greiningu á grunnnámi við Viðskiptafræðideild og endurskipulagningu í lotukennslu. Rannsóknir benda til að lotukennsla styðji við aukin gæði náms en verkefnið mun einnig greina stofnanalegar hindranir og kennslufræðilegar áskoranir við breytinguna. Úttekt á námsframboði og samanburður við erlenda háskóla leggja grunn að umbótaverkefnum sem leiði til betri kennslufærni, kennslumenningar og betri námsárangurs og ánægju nemenda.
Sýndarveruleiki í líffærafræði kennslu á Heilbrigðisvísindasviði
Umsækjandi: Pétur Henry Petersen
Fræðasvið: Heilbrigðisvísindasvið
Útdráttur: Miklar framfarir hafa átt sér stað í sýndarveruleikatækni (VR). Tæknin býður upp á mikla möguleika í námi og í starfi. Verkefnið snýst um að bjóða nemendum í grunnnámi aðgang að námsefni í líffærafræði og skyldum greinum í sýndarveruleikaumhverfi. Tilgangurinn er að meta hvernig það nýtist þeim námslega og m.a. hvort tæknin auki áhuga og hæfni.
Íslenska sem annað mál: Endurskoðun námsefnis og kennsluhátta í þágu fjölbreytts, sístækkandi nemendahóps
Umsækjandi: Védís Ragnheiðardóttir
Meðumsækjandi: Stefanie Bade
Deild: Íslensku- og menningardeild
Útdráttur: Nemendafjöldi í íslensku sem öðru máli hefur tvöfaldast á seinustu tveimur árum með tilheyrandi fjölgun í kennarahópnum. Þetta krefst breyttra kennsluhátta og nýs verklags m.t.t. nýjustu rannsókna í kennslufræði og annarsmálsfræði. Verkefnið beinist að námsefnisendurskoðun, vendikennslu og kennsluleiðbeiningagerð. Það snýr einnig að uppbyggingu fjarnáms og staðnáms með traustri kennslufræði. Það stuðlar að auknum gæðum og aðlögun námsins að fjölbreyttum nemendahópi.
Líf sem er lífsins virði: Námssamfélag háskólakennara
Umsækjandi: Karen Rut Gísladóttir
Fræðasvið: Menntavísindasvið
Útdráttur: Verkefnið „Líf sem er lífsins virði – námssamfélag háskólakennara“ hefur tvíþætt markmið: að efla velferð háskólakennara með dýpri sjálfsrýni og að þróa námssamfélag þar sem kennarar ígrunda eigin starfshætti, viðhorf og gildi í kennslu. Í gegnum vegferðina verður gögnum safnað með aðferðum starfstengdrar sjálfsrýni og þau greind til að varpa ljósi á áhrif á kennsluhætti og gæði kennslu.
Þverfaglegt samstarf í þágu inngildandi menntunar
Umsækjandi: Edda Óskarsdóttir
Fræðasvið: Menntavísindasvið
Útdráttur: Verkefnið sem sótt er um styrk fyrir, snýst um að efla þverfaglegt samstarf milli kennara og kennaranema á námskeiðinu KME115F – Kennsla í margbreytilegum nemendahópi og þroskaþjálfanema á námskeiðinu ÞRS103F – Þroskaþjálfar í menntakerfinu. Með þessu samstarfi er stefnt að aukinni samvinnu kennara þvert á deildir, ásamt því að undirbúa nema fyrir þverfaglegt samstarf í skólastarfi sem styrkir inngildandi menntun.
Gerð og prófun á netnámskeiði fyrir nýjan markhóp náms í ferðaþjónustu
Umsækjandi: Gunnar Þór Jóhannesson
Deild: Líf- og umhverfisvísindadeild
Útdráttur: Verkefnið snýst um gerð og prófun á netnámskeiði í ferðamálafræði sem mætir þörfum fólks sem starfar í ferðaþjónustu og talar ekki íslensku. Með þessu verkefni er ætlunin að 1) breyta námskeiðinu Inngangur að ferðamálafræði í netnámskeið með hagnýtingu verkfæra gervigreindar, 2) prufukeyra námskeiðið meðal markhópsins og 3) meta árangur af kennslu og ávinning af notkun gervigreindartækni við framkvæmd.