Header Paragraph

Hafðu áhrif á framtíð kennsluaðstöðu við HÍ!

Image
Nemendur vinna fjölbreytta vinnu

Undanfarin misseri hafa orðið umtalsverðar breytingar á kennslu með nýjum áskorunum og  möguleikum við nám og kennslu. Það er í mörg horn að líta þegar kennsla er skipulögð á ný  eftir heimsfaraldur. Væntingar kennara og nemenda til kennsluaðstöðu hafa breyst og því er mikilvægt að endurskoða uppsetningu  hennar.  

Nýlega var stofnaður starfshópur sem hefur það markmið að ná utan um þessar áskoranir og gera áætlun um það hvernig brugðist verður við þeim. Markmiðið er að kennsluaðstaða HÍ verði til fyrirmyndar. 

Háskóli Íslands ætlar, með víðtæku samráði við háskólaborgara og sérfræðinga í hönnun kennslurýma, að skrásetja samræmd viðmið um uppsetningu, notkun og rekstur þeirrar aðstöðu sem boðin er til kennslu. Viðmiðin ná meðal annars til húsnæðis, húsgagna, tæknibúnaðar og hljóðvistar.  

Útbúin verður handbók sem lýsir möguleikum og fyrirkomulagi kennsluaðstöðu og samræmir þau ferli sem felast í notkun og rekstri.   

Eftir að handbókin kemur út, snemma á vormisseri 2023, verður hún grunnur að vinnu við endurbætur, uppbyggingu og rekstur kennslurýma HÍ og mun auðvelda starfsfólki að nýta kennslurými sem best.  

Samráð við háskólaborgara verður með ýmsum hætti. Starfsfólk HÍ er hvatt til þess að láta rödd sína heyrast, hvort sem það verður í starfshópum á vegum starfseininga eða með því að senda inn athugasemdir í gegnum vefsíðu verkefnisins, https://setberg.hi.is/kennsluadstada. Nú þegar er búið að opna fyrir innsendingu athugasemda.