Header Paragraph

Stuðningur við stafrænt aðgengi í kennslu

Image

Kennslusvið Háskóla Íslands hefur útbúið stuðningsefni á vefnum kennari.hi.is sem nýst getur kennurum innan og utan HÍ til þess að átta sig betur á stafrænu aðgengi í námskeiðum sínum. Þessi nýja viðbót er liður í að framfylgja jafnréttisáætlun skólans sem kveður m.a. á um algilda hönnun í tengslum við kennsluhætti og námsumhverfi. 

Á vefsíðunni kennari.hi.is geta kennarar nú fengið yfirsýn yfir það hvort námskeiðsvefir þeirra standist kröfur um aðgengileika. Með því að svara nokkrum spurningum á vefnum um aðgengismál í námskeiðinu sínu fá kennarar niðurstöður sem sýna hvað er vel gert og hvað má bæta.

Hvers vegna skiptir stafrænt aðgengi máli?

Með góðu stafrænu aðgengi í námskeiði er stuðlað að því að allir nemendur geti notfært sér alla þá þætti sem námskeiðið hefur upp á að bjóða. Þetta felur m.a. í sér að hanna og velja námsefni og tækni sem styður við aðgengi og dregur úr hindrunum sem nemendur geta mætt.

Í stafrænu aðgengi felst einnig að tillit sé tekið til fjölbreytileika og ólíkra þarfa nemenda. Námsefni og tækni ætti því að vera aðgengileg fyrir fólk með sjón-, heyrnar-, hreyfi- og/eða vitsmunaskerðingu, eldra fólki eða öðrum sem gætu átt erfitt með að nýta sér efnið eða tæknina. Stafrænt aðgengi bætir námsupplifun og eykur skilvirkni í námsumhverfi og nýtist því öllum vel, einnig þeim ekki glíma við fötlun af neinu tagi.