Tengsl lokaviðmiða námsleiða og hæfniviðmiða námskeiða
Lokaviðmiðum námsleiða er skipti í þekkingu, leikni og hæfni en ekki er gerð krafa um að hæfniviðmiðum námskeiða sé skipt í þessa þrjá flokka.
Lokaviðmiðum námsleiða er skipt í þekkingu, leikni og hæfni en ekki er gerð krafa um að hæfniviðmiðum námskeiða sé skipt í þessa þrjá flokka.
Til að ganga úr skugga um hvort og hvernig nemendum eru búnar námsaðstæður til að öðlast þá þekkingu, leikni og hæfni sem ætlast er til að þeir búi yfir við námslok þarf að skoða kerfisbundið hvar (þ.e. í hvaða námskeiðum) nemendur fá þá þjálfun sem þeir þurfa til að ná viðmiðum. Gagnleg leið til þess er að nota svokallaðar hrísltöflur sem nota má til að kanna samræmi og stíganda í námi út frá lokaviðmiðum námsleiða. Myndin hér að neðan sýnir dæmigerða hrísltöflu.
Hér má nálgast skapalón fyrir hrísltöflu (excelskjal) og hér má finna fjölmörg skapalón fyrir hrísltöflugerð sem vert er að skoða.
Lokaviðmið námsleiðar eru skráð á lárétta ásinn og heiti námskeiða á námsleið á þann lóðrétta. Hér er mikilvægt að staldra við og ákveða hvaða viðmið verða notuð til að meta hvort að ákveðið hæfniviðmið er hluti af námsmati námskeiðs. Ef hæfnin er ekki metin í námskeiði er nokkuð gefið að ekki er hægt að segja til um hvort nemendur búi yfir henni við námskeiðslok. Það er álitamál hversu stór hluti af námsmati metin hæfni þarf að vera til að teljast til námskeiðs enda ólíkar hefðir sem ríkja milli háskólagreina en margir hafa miðað við 5% eða meira. Önnur leið er að finna kvarða sem segir til um hvort hæfniviðmiðið er kjarni í námskeiði, aukaefni í námskeiði eða ekki hluti af námskeiði.
Eins og skilja má er nauðsynlegt að allir kennarar námsleiðar vinni saman að gerð hrísltöflu enda yfirleitt þeir einir sem þekkja til hlítar hæfniviðmið, verkefni og námsmat námskeiða. Hrísltöflugerðin getur því verið tímafrek og kallar á samstarf um námskrárgerð. Gott er að kennarar hafa undirbúið hrísltöflugerðina með því að skilgreina eða endurskoða hæfniviðmið námskeiða við námsleiðina.
Við hrísltöflugerð geta komið í ljós bæði skörun og skallablettir. Skörun getur verið afar eðlileg þegar um er að ræða hæfni sem er kjarnaatriði í kennslu greinar, en hins vegar getur hún líka verið óþörf eða í það minnsta getur verið góð ástæða til að skoða af hvaða toga hún er. Skallablettir benda til þess að hvergi sé verið að þjálfa hæfni sem skilgreind hefur verið sem mikilvæg innan námsleiðar. Komi upp skallablettir er mikilvægt að kennarar velti fyrir sér hvort viðkomandi lokaviðmið sé í raun mikilvægt og ef svo er að endurskoða skipulag námskeiða og ganga úr skugga um að nemendur fá í raun þjálfun til að efla þessa hæfni.
Í einstaka tilfellum hefur það komið í ljós við hrísltöflugerð að námskeið sem kennt er á námsleið er í raun ekki að fást við neitt af skilgreindum lokaviðmiðum námsleiðar. Í þeim tilfellum þarf að skoða vel viðfangsefni námskeiðs. Það getur verið sérhæft valnámskeið en getur líka verið að þarna sé verið að kenna eitthvað sem fellur hreinlega utan þeirra þekkingar, leikni og hæfni sem lögð er áhersla á í greininni.