Sýnikennsla

Sýnikennsla er algeng kennsluaðferð sem flokkast undir útlistunarkennslu og er algeng í kennslu í t.d. stærðfræði, list- og verkgreinum, íþróttum svo dæmi séu tekin. 

Sýnikennsla

Sýnikennsla felst í einfölduðu máli í að kennari eða nemandi gefi dæmi eða sýni tiltekin vinnubrögð, aðferðir, eða leiðir til að útskýra, kenna að varpa ljósi á það sem verið er að vinna með.

Gerður er greinarmunur á sýnikennslu og verklegri kennslu (verklegum æfingum) að því marki að sýnikennsla gengur út á sýna meðan í verklegri æfingu eru nemendur  þátttakendur og gerendur í námsferlinu. 

Sýnikennsla hentar vel þegar nemendur eiga erfitt með að tengja nám, kenningar eða hæfni við raunverulega iðkun og notkun.  

Til að sýnikennsla skili árangri er mikilvægt að hafa þrennt í huga, þ.e. aðbúnað, aðgengi og skilning. 

Image
Mynd af nemendum í fyrlestrarsal

Árangursrík sýnikennsla

Aðbúnaður þarf að vera góður. Til að sýnikennsla skili tilætluðum árangri þarf viðeigandi búnaður að vera til staðar sem og að hann virki. Gott er að tileinka sér þau vinnubrögð að undirbúa sýnikennslu með góðum fyrirvara og yfirfara þann búnað sem til þarf.  

 

Aðgengi nemenda eða þeirra sem á horfa þarf að vera gott. Tryggja þarf að það sem verið er að sýna sjáist vel.

Vilji kennari eða nemendur nýta t.d. veggspjöld, flettitöflur, PowerPoint kynningu o.s.frv. þarf að tryggja að texti, teikningar og myndir skili sér vel til allra.

Sama varðar t.d. sýnitilraunir eða tilekna hluti. Tryggja þarf að allir sjái hvað fer fram. Ein leið er opna á t.d. Zoom eða Teams og nýta vefmyndavél t.d. fartölvu til að varpa upp á tjald það sem fram fer. 

Skilningur áhorfenda skiptir miklu. Mikilvægt er að nota skýrt mál og útskýra mjög vel hvað er í gangi.

Varast ber að ætla áhorfendum að hafa sama skilning á því sem verið er að sýna og sá hefur sem sýnir.

Skýringar þurfa að vera ljósar og samhengi þeirra markvisst og eðlilegt.

Góð vinnuregla er að hugsa upphátt eða að sá sem kynnir tali við sjálfan sig á meðan sýnikennslunni stendur.