Fyrirlestrar

Fyrirlestrar, stuttir eða langir, eru ævaforn kennsluaðferð og hluti af því sem nefna má útlistunarkennsla. Útlistunarkennsla byggir á að kennarar miðli þekkingu, útskýri eða útlisti, reifi eða ræði ólíkar leiðir, sjónarhorn eða lausnir. 

Gömul aðferð og ný

Fyrirlestra má með einföldun flokka sem formlega eða óformlega. Munurinn er að í óformlegum fyrirlestri leyfist nemendum að spyrja eða koma með athugasemdir og fyrirlesarinn leggur út af framlagi þeirra meðan formlegur fyrirlestur er fluttur sleitulítið. 

Fyrirlestrar hafa lítið breyst í áranna rás þó kennarar hafi tileinkað sér notkun glærugerðaforrita á borð við PowerPoint til birta t.d. gröf, texta og myndir sem og nýtt sér myndbönd eða efni á neti. 

Einn helsti vandi fyrirlesara er að athygli áheyrenda eru takmörk sett. Alla jafna má gera ráð fyrir að eftir tuttugu til þrjátíu mínútur sé athygli áheyranda farin annað. Þar af leiðandi er mikilvægt að huga vel að uppbyggingu og framsetningu fyrirlesturs. 

Image
Mynd af nemendum í fyrlestrarsal

Líkt og í öðru eru kostir og gallar við kennsluaðferð á borð við fyrirlestur. Í einhverjum tilfellum eru kostirnir þeir að um skilvirka dreifingu og miðlun upplýsinga eða þekkingar er að ræða þar sem nemendahópur er stór, með góðum fyrirlestri er hægt að vekja áhuga á efni sem og kennarinn stýrir hraða yfirferðar og þar með námsferlinu. Einnig má benda á að um er að ræða kennsluaðferð sem nær allir þekkja úr eigin skólagöngu. Þar af leiðandi er tiltekið öryggi fólgið í að halda fyrirlestra. Formið er þekkt.  

Fyrirlestrum fylgja einnig ókostir og mikið hefur verið rætt um hvort fyrirlestrar bæti nám nemenda enda er helsti galli fyrirlestra sá að nemendur eru óvirkir í náminu, samskiptin eru einhliða og fyrirlestrar krefjast þess að nemendur leggi á sig vinnu utan tíma til að eigna sér þekkinguna, hæfnina eða færnina. Kjarnyrta gagnrýni á fyrirlestra má finna í orðum Mark Twain, þ.e. Háskóli er staður þar sem fyrirlestranótur prófessorsins fara beint í glósur nemandans, án þess að fara í gegnum heila beggja aðila". Einnig má benda á að þar sem flestir hafa upplifað fyrirlestra sem nemendur þá leita kennarar oft þangað í stað hugsanlega framandi kennsluaðferða. Kennarar líkt og annað fólk leitar í það þekkta og þar með er hætta á að fólk gefi sér ekki rými eða tíma til að kynna sér aðrar leiðir t.d. til kennslu. 

Góð ráð til að hafa í huga við fyrirlestur

Varast ber að halda fyrirlestur án skýrra markmiða. Hæfniviðmiðin sem liggja til grundvallar þurfa að vera nemendum skýr og tengd með skýrum hætti við efni fyrirlestursins.

Mikilvægt er að nemendur fái að vita við upphaf kennslu hvaða nám á að eiga sér stað. Sem dæmi gæti kennari við upphaf tíma tjáð nemendum að eftir tíma dagsins eigi nemendur að kunna skil á námskenningunni hugsmíðahyggja.

Sé verið að fara í tiltekið námsefni í fyrsta skipti er gott er að venja sig á að flytja fyrirlestur einhverju áður en hann er haldinn. Þannig fæst tilfinning fyrir því sem verið er að fjalla um sem og hversu langan tíma það tekur. Það að þekkja efnið vel er styrkur.

Gott er að skoða sérstaklega þau hugtök sem leggja þarf sérstaka áherslu á og eru hugsanlega flókin (svokölluð þröskuldshugtök) fyrir nemendur.

Mikilvægt er að útskýra þröskuldshugtökin vel og helst reyna að fá einhverskonar endurgjöf frá nemendum varðandi það hvort skilningur sé til staðar eða hvort mögulega þurfi að útskýra hugtökin betur. Það má t.d. gera með því að varpa fram spurningum, nota einfalda kosningu um skilning á hugtakinu eða leggja fyrir stutta könnun (e. quiz) á Canvas vef námskeiðs strax eftir kennslu.

Sérstaklega er mikilvægt að hafa í huga að hugtakaskilningur nemenda á fyrsta ári getur verið annar en þeirra sem er á þriðja ári. Kennarar eru sérfræðingar í því sem verið er að fjalla um, nemendur ekki. 

PowerPoint er frábært verkfæri. Engu síður er hægt að draga fyrirlestur niður með tiltekinni notkun á forritinu. Sem dæmi ber að varast að setja allan texta eða fyrirlesturinn á glærurnar og lesa þær síðan fyrir nemendur.

Betra er að hafa að markmiði að nota sem mest af myndefni (ljósmyndir, gröf, myndbönd o.s.frv.) og sem minnst af texta. Glærur eru stuðningur, ekki fyrirlesturinn sjálfur. Á sama tíma er mikilvægt að halda reglu í uppsetningu glæra. Óreiða skapar óöryggi.  

Mikilvægt er að taka tillit til nemendahópsins. Væntanlega þarf öðruvísi orðræðu til þeirra sem eru á fyrsta ári en þá sem eru t.d. á því þriðja. Nemendur á fyrsta ári eru sem dæmi að kynnast sérhæfðum hugtökum og því er gott að útskýra vel þau 

Mikilvægt er að taka tillit til nemendahópsins. Væntanlega þarf öðruvísi orðræðu til þeirra sem eru á fyrsta ári en þá sem eru t.d. á því þriðja. Nemendur á fyrsta ári eru sem dæmi að kynnast sérhæfðum hugtökum og því er gott að útskýra vel þau þröskuldshugtök sem námið byggir á og draga sérstaklega fram í glærukynningunni (feitletrun, skáletrun, texti í lit, hástafir, undirstrikun o.s.frv.).

Gott er að huga að raddbeitingu og ef kostur er þá er notkun magnarakerfis góður kostur. Gott er huga að hávaða í umhverfinu og reyna að draga úr honum. Ef hljóð berast úr umhverfinu þarf kennari að geta talað yfir þau hljóð. Til lengri tíma getur þetta neikvæð áhrif á röddina. 

Gæta þarf að hlutdrægni. Varast ber að tala niður nemendur vegna t.d. kyns, kynþáttar og menningar. 

Huga þarf að aðgengileika nemenda að námsefni líkt og glærum í fyrirlestrum. Tryggja þarf að blindir einstaklingar, sjónskertir, lesblindir, heyrnarlausir eða heyrnarskertir geti sinnt námi. Það er þess vegna ekki alltaf nóg að dreifa glærum til nemenda eftir fyrirlestur, heldur er einnig gott að hafa þær aðgengilegar á námsumsjónarvefnum Canvas.

Gott er að reyna að brjóta upp fyrirlesturinn og gefa nemendum hvíld eða tækifæri á að gera annað en að sitja og hlusta. Sem dæmi má gefa nokkurra mínútna hvíld þar sem nemendum er gert að standa upp og hreyfa sig. Kennari getur brotið kennsluna upp með spurningaleik úr námsefninu (t.d. með Kahoot) eða þá að nemendur fari í lítinn hópeflisleik. Sama gildir með kennara. Gott er að venja sig á að standa ekki hreyfingarlaus við ræðupúlt. Gott er að ganga um og hreyfa sig. Ennfremur er gott að horfa til nemenda þegar fyrirlesturinn er fluttur í stað þess að t.d. að horfa á glærurnar eða fyrirlestrapunktana. 

Leiðir til að brjóta upp fyrirlestur

Sýnikennsla felst í einfölduðu máli í að kennari eða nemandi gefi dæmi eða sýni tiltekin vinnubrögð, aðferðir, eða leiðir til að útskýra, til að varpa ljósi á það sem verið er að vinna með.

Sýnikennsla er algeng kennsluaðferð sem flokkast undir útlistunarkennslu og er algeng í kennslu í t.d. stærðfræði, list- og verkgreinum, íþróttum o.s.frv. Gerður er greinarmunur á sýnikennslu og verklegri kennslu (verklegum æfingum) að því marki að sýnikennsla gengur út á að sýna meðan í verklegri æfingu eru nemendur  þátttakendur og gerendur í námsferlinu. 

Sýnikennsla hentar vel þegar nemendur eiga erfitt með að tengja nám, kenningar eða hæfni við raunverulega iðkun og notkun.  

Til að sýnikennsla skili árangri er mikilvægt að hafa þrennt í huga, þ.e. aðbúnað, aðgengi og skilning. 

Aðbúnaður þarf að vera góður. Til að sýnikennsla skili tilætluðum árangri þarf viðeigandi búnaður að vera til staðar sem og að hann virki. Gott er að tileinka sér þau vinnubrögð að undirbúa sýnikennslu með góðum fyrirvara og yfirfara þann búnað sem til þarf.  

Aðgengi nemenda eða þeirra sem á horfa þarf að vera gott. Tryggja þarf að það sem verið er að sýna sjáist vel. Vilji kennari eða nemendur nýta t.d. veggspjöld, flettitöflur, PowerPoint kynningu o.s.frv. þarf að tryggja að texti, teikningar og myndir skili sér vel til allra. Sama varðar t.d. sýnitilraunir eða tilekna hluti. Tryggja þarf að allir sjái hvað fer fram. Ein leið er opna á t.d. Zoom eða Teams og nýta vefmyndavél t.d. fartölvu til að varpa upp á tjald það sem fram fer. 

Skilningur áhorfenda skiptir miklu. Mikilvægt er að nota skýrt mál og útskýra mjög vel hvað er í gangi. Varast ber að ætla áhorfendum að hafa sama skilning á því sem verið er að sýna og sá hefur sem sýnir. Skýringar þurfa að vera ljósar og samhengi þeirra markvisst og eðlilegt. Vanda þarf útskýringar. Góð vinnuregla er að hugsa upphátt eða að sá sem kynnir tali við sjálfan sig á meðan sýnikennslunni stendur. 

 

Til þess að kanna hvort nemendahópur hafi skilið tiltekið viðfangsefni er hægt að varpa fram spurningu sem reynir á skilninginn og láta nemendahópinn svo kjósa með einfaldri handauppréttingu það svar sem þeir telja rétt. 

Mikilvægt er að spurningin sé vel undirbúin og að svarmöguleikarnir séu ekki of margir. 

Með þessu uppbroti þurfa nemendur að beita þeirri hæfni sem þeim er ætlað að ná og kennarinn fær strax yfirsýn yfir hvort nám hafi átt sér stað.  

Ef meirihluti nemenda velur ranga svarið er ástæða fyrir kennarann að útskýra betur, varpa fram spurningum og reyna að dýpka skilning nemenda með því að útskýra af hverju svarið er rangt.