Risamállíkön (e. Large Language Models) eins og Copilot, Gemini, ChatGPT, Claude eða Perplexity geta flýtt undirbúningi, eflt fjölbreytni í efnissköpun og hjálpað til við að prófa hugmyndir áður en kennsla hefst. Hér er hagnýt leið til að vinna markvisst með gervigreind í öllum helstu skrefum undirbúnings.
Skýrt orðaðar reglur og væntingar spara þér tíma síðar.
Hvað á að gera
- Skilgreindu hvar, hvenær og hvernig gervigreind er heimil í námskeiðinu (öll verkefni / ákveðin verkefni / aðeins hluti ferlis, t.d. hugmyndavinna).
- Útskýrðu hvernig nemendur eiga að gera grein fyrir notkun á gervigreind, til dæmis:
- Skila kafla með yfirlýsingu um notkun gervigreindar.
- Skrifa í aðferðafræðikafla hvernig gervigreind var notuð.
- Segja frá því hvaða verkfæri voru notuð og hvaða kvaðningar (prompts) voru notaðar.
- Skila samtali í risamállíkani eða við botta (e. Chat-bot), sem viðauka, ef við á.
- Skila tengli á samtal inni í risamállíkani (sum þeirra bjóða upp á það, önnur ekki).
- Skrifa stutta ígrundun um hvað var gert, hvers vegna og hvaða takmarkanir komu í ljós.
- Skila greinargerð með í sérskýrslu um hvernig gervigreindin var notuð.
- Rifjaðu reglulega upp þessar ákvarðanir þegar þú ræðir við þau.
Dæmi um setningu í kennsluáætlun
„Nemendum er heimilt að nota gervigreind við hugmyndavinnu og frumdrög. Skila á í sérkafla fyrir ofan heimildaskrá Yfirlýsing um notkun gervigreindar. Þar á að segja frá því hvernig gervigreindin var notuð, hvaða gervigreindarverkfæri og kvaðningar voru notaðar, ásamt stuttri ígrundum um þá rýni sem nemandinn vann og áreiðanleika efnisins. Nemandi þarf að lýsa því yfir að hann beri ábyrgð á öllu efni sem hann notar frá gervigreind.
Ef nemandinn notar ekki gervigreind í verkefninu á nemandinn að skrifa í kaflann um Yfirlýsing um notkun gervigreindar. Gervigreind var ekki notuð í þessu verkefni.“
Nánar
Sjá leiðbeiningar og dæmi ➜ Kennsluáætlun ➜ Að vinna með gervigreind sem kennari
Byggðu námsefni með hjálp gervigreindar út frá námsmarkmiðum og kennsluaðferðum.
Hagnýtar leiðir
- Skipulag kennslu: fá uppkast að fyrirlestrum, verkferlum, námskeiðslýsingum, matsviðmiðum og tímaskiptingu.
- Hugmyndavinna: biðja um dæmi, spurningar, raunhæfar atburðalýsingar og verkefni með stigvaxandi erfiðleika.
- Margmiðlun: búa til myndir, hljóð og stutt myndskeið til að gera efnið aðgengilegra og lifandi.
Kvaðningar (e. prompts)
- Búðu til 20 mínútna fyrirlestrargrind um [efni] með þremur lykilatriðum, einni æfingu og tveimur umræðuspurningum.
- Þú ert háskólakennari í [grein]. Hannaðu verkefni sem metur [ákveðið hæfniviðmið] með matslýsingu og viðmiðatöflu.
Notaðu gervigreind til að herma eftir mismunandi nemendum og finna ósýnilegar hindranir áður en kennsla hefst.
Prófanir sem spara þér höfuðverk
- Biddu verkfærið að svara verkefni „eins og nýnemi í [grein]“, „eins og meistaranemi með lesblindu“ eða „eins og nemandi með litla fyrri þekkingu á efninu“.
- Spyrðu: „Hvaða leiðbeiningar í verkefninu gætu verið óljósar?“ „Hvaða hugtök þarf að skýra fyrst?“
- Láttu verkfærið telja upp algengar rangtúlkanir og búa til próf (til dæmis fimm villandi fjölvalsspurningar) til að fanga misskilning.
- Athugaðu: Gervigreind endurskapar ekki tilfinningaviðbrögð, félagslega dýnamík eða skapandi innsæi nemenda. Notaðu niðurstöður sem uppkast sem þú þarft að rýna, sannreyna og vinna áfram með.
Nýttu gervigreind sem stuðning en ekki í staðinn fyrir faglegt mat.
Dæmi um notkun
- Endurskrifaðu matsviðmið þannig að þau geri skýra aðgreiningu milli ferlis (t.d. skrá gervigreindarnotkun) og útkomu (hæfni).
- Búðu til útgáfu A/B af sama verkefni: eitt með meiri áherslu á ferli og rökstuðning, annað á beitingu hugtaka á nýjum gögnum.
- Notaðu gervigreind til að búa til próf- eða verkefnasafn með stigvaxandi erfiðleika og mörgum réttum svörum.
Athuganir
- Vandaðu orðalag verkefna þannig að þau krefji nemendur um að persónugera skýringar, rökstyðja og heimfæra á nýjar aðstæður.
- Láttu nemendur skýra hlutverk gervigreindar í ferlinu (hvað hjálpaði, hvað þurfti að leiðrétta, takmarkanir, o.s.frv.).
Ábyrg notkun eykur traust og gæði náms.
Lágmarkskröfur
- Minntu á persónuvernd og höfundarrétt; forðastu að setja viðkvæm gögn inn í kerfi sem nota þau mögulega til þjálfunar á risamállíkaninu.
- Gerðu kröfu um að nemendur skrái notkun sína á gervigreind (verkfæri, fyrirspurnir, rýni og ígrundun). Minntu jafnframt á að nemandinn ber ávallt ábyrgð á öllu efni sem hann nýtir frá gervigreind.
- Gerðu kröfu um gagnsæi þegar texti, mynd eða hugmynd er mótuð með aðstoð gervigreindar (t.d. lýsing í aðferðafræðikafla, sérkafla með yfirlýsing um notkun gervigreindar eða í viðauka; sjá kafla 1 um Ramma og afstöðu hér ofar á síðunni)
– Ekki setja inn gögn sem innihalda nöfn eða viðkvæmar upplýsingar.
– Notaðu aðeins tól sem eru í samræmi við GDPR og stefnu HÍ.
Niðurstaða
Með markvissri og ábyrgri samþættingu gervigreindar geturðu sparað tíma, aðlagað kennslu að fjölbreyttum þörfum og byggt upp gagnvirkt námsumhverfi sem styður sköpun, gagnrýna hugsun og virkni nemenda. Markmiðið er að vinna með gervigreind – á þínum faglegu forsendum.