Header Paragraph

Kristbjörg Olsen hlaut viðurkenningu fyrir lofsverðan árangur í starfi

Image

Kristbjörg Olsen, verkefnisstjóri við Deild stafrænnar kennslu og miðlunar á kennslusviði Háskóla Íslands, hlaut  viðurkenningu fyrir lofsvert framlag til stjórnsýslu og stoðþjónustu.

Hún lauk meistaranámi í myndlist og námi til kennsluréttinda og hefur sótt ýmis námskeið í vefhönnun, margmiðlun og kennslu. Hún hóf störf við Kennslumiðstöð Háskóla Íslands árið 2003 og hefur starfað þar með hléum til þessa dags og sinnt fjölbreyttum verkefnum. 
„Kristbjörg hefur í fjölmörg ár verið stoð og stytta kennara, nemenda og starfsmanna í stoðþjónustu Háskóla Íslands þegar kemur að stafrænni kennslu og ráðgjöf varðandi kennslukerfi skólans. Hún hefur mikinn metnað fyrir starfi sínu, er fljót að tileinka sér nýjungar á sviði stafrænna kennsluhátta og hefur náð ótrúlegum árangri í að miðla upplýsingum og leiðbeiningum til kennara og annars starfsfólks á þann hátt að það getur auðveldlega tileinkað sér tólin og lausnirnar. 

Það er afar dýrmætt fyrir Háskóla Íslands að hafa í þjónustu sinni svo traustan og góðan starfsmann sem Kristbjörg er, enda eru stafrænar lausnir í senn gríðarlega mikilvægar fyrir framþróun skólans og valda um leið álagi á kennara. Fullyrða má að flestir kennarar þekki til Kristbjargar og viti að þeir geti alltaf leitað til hennar. Verkefni hennar eru fjölmörg, hún svarar þjónustubeiðnum, býr til myndbönd, skrifar leiðbeiningar, heldur námskeið og er ævinlega reiðubúin að svara erindum ef einhver lendir í vandræðum. Myndbönd og leiðbeiningar Kristbjargar hafa vakið verðskuldaða athygli og eru ekki einungis notuð innan Háskóla Íslands heldur hafa aðrir háskólar einnig nýtt þau í ríkum mæli. Stuðningur við kennara er ávallt í forgangi hjá Kristbjörgu og þolinmæði hennar eru lítil takmörk sett,“ segir í umsögn valnefndar.

Lesa má nánar um viðurkenningarnar  hér á heimasíðu Háskóla Íslands.