Fjarnám

Áætlun um þróun fjarnáms verður innleidd 2022-2026

Í Stefnu HÍ, HÍ26, er verkefnastofn 10 helgaður upplýsingatækni í kennslu, námsframboði og fjölbreytileika nemendahópsins. Eitt af verkefnum stofnsins er þróun fjarnáms.

Í stefnu HÍ er lögð áhersla á að fjarnám verði eflt sérstaklega og gæðaviðmið fyrir það verða skilgreind. Styðja á sérstaklega við deildir við þróun námsleiða í fjarnámi og gera framboð slíks náms sýnilegra. Mikilvægt er jafnframt að þróa markvisst þær fjölbreyttu leiðir sem eru til náms við skólann, svo sem til sí- og endurmenntunar og opið netnám, og gera þær sýnilegri.

Í myndbandinu hér til hliðar er stutt kynning á hvernig HÍ mun innleiða aukið fjarnám á völdum námsleiðum 2022 - 2026.

Smellið á "Sýna efni frá Youtube" ef myndbandið sést ekki strax. 

Inná heimasíðu HÍ er að finna allan þann fjölda námsleiða og námskeiða sem í boði eru í fjarnámi við HÍ

Háskóli Íslands býður fjölda námsleiða og námskeiða í fjarnámi og vinnur stöðugt að því að fjölga þeim með gæði að leiðarljósi. Hvort sem þú vilt stunda nám í heimabyggð eða með vinnu, þá finnurðu fjölbreytt fjarnám og færð öflugan stuðning og þjónustu.

Helstu áherslur í þróun fjarnáms hafa verið settar saman í bækling sem hægt er að nálgast hér á PDF formi. 

Þróun fjarnáms við HÍ

Viðmiðin byggja á þeim markmiðum sem sett hafa verið fram varðandi þróun fjarnáms við HÍ. Mikilvægt er að deildir/námsleiðir sem bjóða upp á fjar- og/eða netnám vinni að því við þróun þess að öllum þessum viðmiðum sé náð.

  • Námsleiðin er í boði sem heildstæð námsleið í fjarnámi/netnámi
  • Upplýsingar um námskeið og námsleiðir eru aðgengilegar bæði á vef HÍ og í kennsluskrá
  • Námsleið er hönnuð í samræmi við kennslufræði fjarnáms/netnáms
  • Námskeið eru hönnuð í samræmi við kennslufræði fjarnáms/netnáms
  • Hæfniviðmið námskeiða endurskoðuð í samræmi við breytingar sem gerðar hafa verið á námskeiðum
  • Lokaviðmið námsleiðar endurskoðuð í samræmi við breytingar sem gerðar hafa verið á námsleiðinni
  • Kennurum stendur til boða leiðsögn í skipulagningu fjar- og netnáms, námsmati í fjar- og netnámi og kennslukerfum háskólans.
  • Allt námsefni námskeiða er aðgengilegt í námsumsjónarkerfi HÍ og hefur nægjanlega gagnvirkni (nemandi við viðfangsefni, nemenda við nemenda og nemandi við kennara) til að hvetja til virkar þátttöku.
  • Nemendur hafa aðgang að tækniráðgjöf og ráðgjöf og stuðningi í tengslum við fjarnám/netnám.

Skilgreiningar á námsformum eru byggðar á vinnu Menntavísindasviðs. Skilgreiningum er ætlað að útskýra hvað fellst í mismunandi námsformum. 

Staðnám
Námskeiðið er skipulagt þannig að námið fer fram á tilteknum tíma og stað (t.d. í kennslurými) og gert er ráð fyrir rauntímaþátttöku nemenda.

Fjarnám
Námskeiðið er skipulagt þannig að námið fer fram á netinu og gert er ráð fyrir rauntímaþátttöku nemenda á netfundum, í staðlotum og/eða vettvangsnámi. Nemendur fylgja skipulagi námskeiðs samkvæmt kennsluáætlun og skiladögum verkefna. Ef próf er í námskeiðinu, þá þurfa nemendur að þreyta það á þeim tíma sem tilgreindur er.

Netnám
Námskeiðið er skipulagt þannig að það fer fram á netinu og ekki er gert ráð fyrir rauntímaþátttöku, en nemendur fylgja skipulagi námskeiðs samkvæmt kennsluáætlun og skiladögum verkefna. Ef próf er í námskeiðinu, þá þurfa nemendur að þreyta það á þeim tíma sem tilgreindur er.

Sjálfsnám
Fyrirkomulag námskeiðsins byggist á samkomulagi milli nemanda og kennara og námið fer fram óháð tíma og stað (t.d. lesnámskeið, einstaklingsverkefni).

Athugið að hugsanlegt er að námskeið sé merkt sem bæði staðnám og fjarnám í kennsluskrá. Það þýðir að hægt er að ljúka því annaðhvort í staðnámi eða fjarnámi. Á sama hátt getur námskeið verið flokkað sem bæði fjarnám og netnám o.s.frv.