Að skrifa hæfniviðmið

Hæfniviðmið segja til um hvaða þekkingu, leikni og hæfni nemendur eiga að geta sýnt að loknu námi.

Hægt er að skrifa hæfniviðmið í mismunandi samhengi, t.d. fyrir námsleið og námskeið. Til aðgreiningar er hjá Háskóla Íslands talað um hæfniviðmið námskeiða og lokaviðmið námsleiða.

Nemandi sem uppfyllir kröfur í skilgreindum hæfniviðmiðum námskeiðs við námskeiðslok hefur lokið námskeiði með tilskyldum árangri. Vanti eitthvað þar uppá hefur nemandi ekki lokið námskeiði á fullnægjandi hátt. Mikilvægt er að skilgreind hæfniviðmið taki til lykilhæfni sem þjálfuð er í námskeiði.

 

 

Image
Marglitir trélitir í kassa

Hvað á nemandi að geta gert að námi loknu?

  • Skýr upphafssetning auðveldar orðun hæfniviðmiða; Að loknu námskeiði ætti nemandi að geta.
  • Skýr sögn í hverju viðmiði – hún dregur fram þá hæfni sem nemandi á að geta sýnt að námi loknu.
  • Lýsa þeirri hæfni sem nemandi á geta sýnt við lok náms.
  • Þurfa að vera mælanleg/metanleg.
  • 5 – 8 hæfniviðmið í hverju námskeiði.

Þegar hæfniviðmið eru skrifuð er gott að hafa í huga að þau eiga að veita nemandanum upplýsingar um hvers er ætlast af þeim í náminu. Þess vegna er mikilvægt að velja athafnamiðaðar sagnir, það eru þær sem draga fram hvers konar hæfni nemandinn á að geta sýnt að námi loknu. Til að aðstoða við val á sögnum hefur flokkunarkerfi Bloom reynst gagnlegt (Bloom, 1956).

Hæfniviðmið námskeiða eru beintengd námsmati ólíkt lokaviðmiðum námsleiða. Það þýðir að mikilvægt er að þau séu skilgreind þannig að kennari geti lagt mat á hvort nemendur hafi náð tökum á skilgreindri hæfni eða ekki og kennari þarf að geta sagt til um hvort nemandinn getur sýnt hæfnina. Skoðum tvö dæmi:

Að loknu námskeiði ætti nemandi að geta:

a) þekkt helstu kenningar á [einhverju sviði]

b) greint á milli helstu kenninga um [eitthvað]

Kennari sem ætlar að leggja mat á það hvort nemendur búa yfir þeirri hæfni sem skilgreind er í hæfniviðmiði a) myndi líklega lenda í vanda með að meta hugarfærnina „að þekkja“ enda er það hugtak frekar óljóst og teygjanlegt. Á nemandinn að benda á kenninga þegar þeim bregður fyrir í texta? Á hann að geta endursagt valdar kenningar? Borið saman kenningar? Lagt gagnrýnið mat á kenningar? Eins og sjá má af þessu dæmi eru sagnirnar í viðmiðunum mikilvægar.

Heimild: Bloom, Benjamin S. (1956). Taxonomy of Educational Objectives, Handbook 1: Cognitive Domain.

Samkvæmt Bloom fer allt nám fram á þremur sviðum, þ.e. þekkingarsviði (e. cognitive domain), viðhorfa- og tilfinningasviði (e. affective domain) og leiknisviði (e. psychomotor domain).

Samkvæmt hugmyndum Bloom er þekkingarsviðinu skipt í sex stig: minni, skilning, beitingu, greiningu, nýmyndun/nýsköpun og mat.

Hér gefur að líta flokkun námsmarkmiða á þekkingarsviðinu

Image

Til að einfalda vinnu kennara er hér settur fram listi yfir dæmi um sagnir sem lýsa hæfni á ólíkum stigum sem er hér fyrir neðan.

Minni (knowledge)

Hér er lögð áhersla á að nemandinn muni staðreyndir, skilgreiningar, kenningar o.s.frv. Notið sagnir á borð við:

Vitna í, skilgreina, lýsa, auðkenna, merkja, skrá, staðsetja/finna, tengja saman, leggja á minnið, nefna, draga saman (samantekt), rifja upp, þylja upp, bera kennsla á, skrá niður, tengja, endurtaka, endurskapa, velja, tjá/lýsa yfir.

Skilningur (comprehension)

Hér er lögð áhersla á að nemandinn leggi merkingu í þá þekkingu sem hann hefur aflað sér, að hann skilji það sem hann sér, heyrir og les. Notið sagnir á borð við:

Flokka, bera saman, umbreyta, verja (eitthvað/einhvern), lýsa, ræða, greina á milli, áætla, útskýra, tjá (sig), auðkenna, álykta, túlka, staðsetja, umorða, segja/spá fyrir um, bera kennsl á, skýra frá, endurtaka, fara yfir (lesa yfir), endurskrifa, draga saman (samantekt), þýða.

Beiting (application)

Hér lögð áhersla á að nemendur geti beitt þekkingu, hugtökum, dæmum, aðferðum og kenningum við mismunandi aðstæður, þekktar og óþekktar. Notið sagnir á borð við:

Taka af skarið, beita, reikna, velja, byggja upp, skýra með dæmum, sýna myndrænt, túlka, hagræða/hafa áhrif á, breyta, stjórna, æfa/þjálfa, undirbúa, framleiða, tengja, skipleggja, sýna, skissa upp, leysa, nota.

Greining (analysis)

Hér er lögð áhersla á að nemendur séu færir um að beita gagnrýnni hugsun, færa rök fyrir máli sínu og draga ályktanir af upplýsingum og heimildum, styðja mál sitt með tilvísun í heimildir, setja fram tilgátur sem eiga við rök að styðjast og greina á milli staðreynda og ályktana. Notið sagnir á borð við:

Greina, meta, flokka, bera saman, benda á andstæður, gagnrýna, aðgreina, gera upp á milli, greina á milli, aðskilja, skoða (eitthvað/einhvern nákvæmlega), álykta, lýsa í grófum dráttum, benda á, spyrja, tengja, velja, aðskilja, skipta niður, prófa.

Mat (evaluation)

Hér er lögð áhersla á að nemendur séu færir um að leggja rökstutt mat á upplýsingar, hugmyndir, viðhorf og gildismat. Notið sagnir á borð við:

Meta, rökræða, velja, bera saman, álykta, gagnrýna, verja, áætla, stjórna, undirbúa, endurskipuleggja, búa til.

Nýmyndun (synthesis)

Hér er lögð áhersla á að nemendur séu færir um að setja fram hugmyndir og tillögur, til þess að þróa, hanna, semja og leita lausna með hjálp skapandi hugsunar. Notið sagnir á borð við:

Raða/skipuleggja, setja/safna saman, sameina, semja/yrkja, byggja upp, skapa, hanna, þróa, finna upp, móta, búa til, breyta, skipuleggja, gera áætlun, undirbúa, framleiða, raða (eftir t.d. einkunn), endurskoða, skrifa.

Hjá Háskóla Íslands hefur verið lagt til að hæfniviðmið námskeiða byrji alltaf á sama hátt, „Að loknu námskeiði ætti nemandi að geta…….“. Áhersla er á að lýsa því sem nemandi ætti að geta gert því ekki er hægt að fullyrða að nemandi nái öllum þeim hæfniviðmiðum sem sett eru.

Dæmi 1

Að loknu námskeiði ætti nemandi að geta:

  • notað sér rannsóknir og kenningar um nám og kennslu
  • skipulagt nám og kennslu á framhaldsskólastigi í samstarfi við aðra
  • útskýrt mikilvægi markmiða og hæfniviðmiða í námi
  • sett fram faglega rökstuddar kennsluáætlanir
  • beitt fjölbreyttum kennsluaðferðum
  • notað ólíkar leiðir til að meta nám nemenda
  • útskýrt margvísleg kennslufræðileg viðfangsefni, svo sem við bekkjarstjórn, við að efla áhugahvöt nemenda eða að taka mið af mismunandi þörfum þeirra
  • greint helstu einkenni kennarastarfsins og nýtt við mótun eigin starfskenningar.

Dæmi 2

Að loknu námskeiði ætti nemandi að geta:

  • gert grein fyrir helstu hugtökum um gæði mælinga í félagsvísindum (t.d. réttmæti og áreiðanleiki mælinga) í ritun fræðilegs texta.
  • greint gæði mælinga a) með tilvísun í helstu hugtök um gæði mælinga og b) með atriðagreiningu í SPSS
  • notað þáttagreiningu í SPSS til þess að a) greina réttmæti mælinga og b) til þess að smíða samsettar mælingar
  • gert grein fyrir notagildi fjölbreytuaðhvarfs í rannsóknum í félagsvísindum
  • beitt fjölbreytuaðhvarfi í SPSS til þess greina tengsl milli breyta í stórum sem smáum gagnasöfnum
  • beitt gagnrýnni hugsun við að lesa niðurstöður sem byggja á atriðagreiningu, þáttagreiningu og fjölbreytuaðhvarfi.

Byrjaðu hvert hæfniviðmið á athafnamiðaðri sögn.

      Notaðu aðeins eina sögn fyrir hvert hæfniviðmið.

      Forðastu að nota sagnir sem eru óskýrar og erfitt er að meta, eins og t.d. vita, skilja, þekkja, læra, vera meðvitaður um.

      Forðastu flóknar setningar, ef það er nauðsynlegt notaðu fleiri en eina setningu til að tryggja skýrleika.

      Tryggðu að hæfniviðmið námskeiðsins séu í samræmi við lokaviðmið námsleiðarinnar.

      Tryggðu að hæfniviðmið námskeiðsins séu í samræmi við námskeiðslýsingu námskeiðsins.

      Hæfniviðmiðun verða að vera skýr og mælanleg.

      Hugaðu að því hvort það sé raunhæft fyrir nemendur að nám hæfniviðmiðum námskeiðsins miða við umfang þess, tími og fjölda eininga.

      Hafðu í huga þegar þú skrifar hæfniviðmiðin hvernig þú ætlar að meta árangur nemenda.

      Biddu samstarfsfólk og nemendur um að lesa yfir hæfniviðmiðin áður en þú birtir þau.

      Hafðu öll stigin í flokkunarkerfi Bloom í huga þegar þú skrifar hæfniviðmiðin (minni, skilningur, beiting, greining, nýmyndun og mat)

Með skilgreiningu lokaviðmiða námsleiðar eru sett fram þær lágmarkskröfur sem nemandi þarf að standast til að teljast hafa náð settum viðmiðum í náminu (á ólíkum stigum). Þessi viðmið segja ekkert til um hvaða einkunn nemandi hlýtur heldur eru eingöngu staðfesting á að nemandi búi yfir ákveðinni hæfni. Segja má að í lokaviðmiðum námsleiða endurspeglist sýn háskólans (eða deildar) á hvers konar nemendur útskrifast úr námi. Námsleiðir við Háskóla Íslands eru margar og mismunandi og því hafa ekki verið gefin út viðmið um fjölda viðmiða en mikilvægt er að þau endurspegli Viðmið um æðri menntun og prófgráður. Þegar nemendur útskrifast fá þeir yfirlit yfir lokaviðmið í skjali sem heitir Skírteinisviðauki (Diploma supplement).

Þegar lokaviðmið námsleiða eru skilgreind þurfa þau í það minnsta að uppfylla þær kröfur sem settar eru fram í viðmiðum um æðri menntun og prófgráður en að auki geta kennarar námsleiða skilgreint viðmið um aðra hæfni sem talin er mikilvæg innan greinarinnar. Ekki þarf að endurtaka hæfniviðmið menntamálayfirvalda orðrétt en mikilvægt að sú hugsun og sú krafa um gæði sem þar er sett fram sé sýnileg í lokaviðmiðum námsleiða. Athugið líka að lokaviðmið námsleiða eru sjaldan beintengd formlegu námsmati, þannig eru þau almennari en hæfniviðmið námskeiða og gert er ráð fyrir að þeim sé skipti í þekkingu, leikni og hæfni.

Enginn er betur til þess fallinn að skilgreina lokaviðmið námsleiðar en kennarar viðkomandi námsleiðar. Gagnlegast er að gera það að undangenginni kerfisbundinni námskrárumræðu innan greinar þar sem leitað er svara við spurningum eins og:

  • Hvernig nemendur viljum við útskrifa úr okkar grein?
  • Hvað eiga nemendur okkar að geta við námslok?
  • Hefur einhver breyting orðið á stefnu fræðasviðs, deildar eða háskólans sem þarf að taka tillit til?
  • Hvað segja hagsmunaaðilar eins og nemendur (núverandi og útskrifaðir), fulltrúar atvinnulífsins, fulltrúar fagfélaga (ef við á) eða aðrir um námið?
  • Hvaða viðmið hafa aðrir háskólar sem námsleiðin vill bera sig saman við sett fyrir sitt nám?
  • Hvernig eru viðmið um æðri menntun og prófgráður útfærð í lokaviðmiðum?

Nánar um tengsl hæfniviðmiða námskeiða og lokaviðmiða námsleiða. 

Ítarefni um gerð hæfniviðmiða

Hér eru þrjú skjöl sem hægt er að sækja. Þau innihalda ítarlegeri texta um hæfniviðmið og vísanir í heimildir.